Þ ó velflestir strandstaðir á Mallorca njóti vinsælda standa fimm til tíu framar öðrum. Staðir sem hafa lengi gert sérstaklega út á ferðafólk og innviðir og þjónusta miðast við þá en ekki heimamenn. Santa Ponsa er einn þeirra.

Bærinn stendur á suðvesturhluta eyjunnar í um 20 mínútna fjarlægð frá Palma og tæplega tíu mínútum frá hinum fræga stað Magaluf sem var fyrsti strandstaðurinn á eynni til að ná frægð. Síðan eru liðin mörg ár og Magaluf orðinn helst til útlifaður og aðrir staðir njóta meiri vinsælda fyrir utan aldurshópinn 16 til 18.

Einn ágætur kostur við Santa Ponsa, Santa Ponça á frummálinu, er að byggð hér er að langmestu leyti lágreist sem skapar að okkar mati ljúfari stemmningu en á þeim stöðum þar sem háhýsi og þá oft hótel standa í röðum við ströndina. Að sama skapi er sáraeinfalt að þvælast um og hafa engar áhyggjur af því að villast.

Santa Ponsa er ágæt alveg til brúksins hvað varðar sól og sand og stuð á kvöldin. Hér er engin ósköp að gera per se en strendurnar ágætar, þó ekki séu þær Bláfánastrendur. Aðalströndin fyrir miðju bæjarins er Playa de Santa Ponsa en mun smærri sandstrendur er að finna bæði til vestur og austurs. Þær síðarnefndu ágætar ef fólk fær nóg af mannfjöldanum á aðalströndinni.

Mikið er í boði af sólarstrandaafþreyingu. Siglingar í boði með ýmis konar bátum hvort sem er til skoðunar, sjá sólina hníga til viðar í rómantík og rólegheitum og svo sérstakar drykkjusiglingar þar sem plötusnúðar um borð hækka í botn og allir um borð geta drukkið og dansað eins mikið og þeir frekast geta. Drykkjusiglingarnar auðvitað helst miðaðar við þá sem nýskriðnir eru yfir fermingaraldurinn.

Helsta afþreyingin fyrir utan busl í sjónum eða bátsferð er í Frumskógargarðinum. Jungle Parc er lítill skemmtigarður í Santa Ponsa. Þar geta ungir sem aldnir leikið sér í trjátoppum á þar til gerðum línum sem liggja þvers og kruss um garðinn. Ágætt adrenalínkikk fyrir suma en leiði sækir fljótt að.

Ágætur golfvöllur er við Santa Ponsa. Golf Santa Ponsa býður tvo átján holu velli með ágætt útsýni og báðir mjög frambærilegir. Sá seinni, Golf Santa Ponsa II, sýnu betri og sá er lokaður öðrum en klúbbmeðlimum. Hringur á þeim fyrri, Golf Santa Ponsa I, kostar einstaklinginn um 12 þúsund krónur eða svo og ráð að panta rástíma með góðum fyrirvara enda margir um hituna.

Hér er líka hestamiðstöð, Santa Ponsa Riding Center, þar sem tækifæri gefst til að skjótast á hestbak. Það er þó galli á gjöf að slíkt er aðeins í boði á afmörkuðu svæði og ekki hægt að fara neitt að ráði sem þó væri alveg yndislegt.

Nóg er af veitingastöðum svo ekki sé minnst á bari og næturklúbba. Bærinn nógu lítill til að ekki þarf að leita þá uppi heldur aðeins leggja við hlustir. Það fer ekkert milli mála hvaða staðir eru vinsælir því þeir eru pakkaðir á annatímum á sumrin. Veitingastaðirnir eru ekkert fyrsta flokks en allmargir frambærilegir.

Heilt yfir er Santa Ponsa ágætur staður til að njóta strandlífs og engum þarf að leiðast. Eyjan er lítil og hægt að leigja bíl eða hjól og flakka um ef fólk fær upp í kok. En hættan á því á einni eða tveimur vikum er lítil. Nóg við að hafa fyrir smáfólkið og unglingarnir munu skemmta sér ágætlega líka. Hvort pabbi og mamma ná að slappa af og hlaða batteríin er svo önnur saga.