Tíðindi

Saga frá Tanzaníu sem allir ættu að heyra

  04/09/2020No Comments

Fararheill minnist þess ekki að einn stafur hafi komist í íslenska fjölmiðla varðandi mikla baráttu Maasai-fólks í Tanzaníu um 20 ára skeið. Baráttu sem lauk nýverið með langþráðum og merkilegum sigri.

Maasai fólkið hefur um áraraðir verið hrakið burt sökum túrisma en ekki lengur.

Maasai fólkið hefur um áraraðir verið hrakið burt sökum túrisma en ekki lengur.

Það veit fólk sem ferðast hefur um Kenía eða Tanzaníu að fyrir utan frægra þjóðgarða landanna með hinum glæsilegu villtu dýrum er eitt umfram annað sem löndin tvö eru þekkt fyrir; Maasai-fólkið með sína stórkostlegu dansa, litrík klæði og merkilega sögu.

Auðvitað er töluverður fjöldi annarra merkilegra ættbálka í báðum löndum en ein helsta ástæða þess að Maasai fólkið er þekktara en aðrir er sú einfalda staðreynd að þessi hópur fólks hefur alla tíð flakkað um reglulega og haft vit á, eins og dýrin, að staldra við þar sem vatn og mat er að finna áður en haldið er lengra.

Á mannamáli hafa ættbálkar Maasai ávallt gert sér dvalarstað á eða við þá staði sem nú eru heimsþekktir sem bestu þjóðgarðar Afríku og jafnframt bestu staðir álfunnar til safaríferða fyrir utan kannski Krueger í Suður-Afríku. Serengeti sléttan líklegast frægasta dæmið.

Stjórnvöld í báðum löndum hafa hvatt Maasai fólk í langan tíma til að hverfa frá hefðbundum háttum sínum og það með góðu og illu. Í Tanzaníu gerðu yfirvöld stór lönd Maasai við hlið Serengeti upptæk árið 2008 og seldu til ríkra Araba sem hugðust byggja upp ferðamannastað fyrir olíukónga og prinsa frá Mið-Austurlöndum. Munaði stjórnvöld ekki um að brenna niður allar byggðir Maasai og jafnvel skjóta þá til dauða sem settu sig upp á móti því að landið væri tekið eignarnámi sísona.

Árið 2011 komu stjórnvöld aftur og tóku eignarnámi 60 prósent þess lands sem ættbálkar Maasai höfðu þá til umráða á svæði sem kallast Loliondo og ráku fólk brott með valdi. Fyrr á þessu ári endurtóku stjórnvöld leikinn.

Þó ekki virðist það koma íslenskum fjölmiðlum við var töluvert um þetta fjallað í evrópskum miðlum og allmörg mannréttindasamtök tóku upp baráttu fyrir Maasai fólkið.

Svo gerist það merkilega fyrir ekki svo löngu síðan að ráðherra ferðamála í Tanzaníu birti yfirlýsingu þar sem stjórnvöld viðurkenndu eignarrétt Maasai á landi sínu í Loliondo, drógu til baka áætlanir um mikla stækkun ferðamannastaða og virðast hafa áttað sig á að það er fleira en dýrin á sléttunni sem heilla þær milljónir ferðafólks sem hingað kemur.

Það má því vonandi í framtíðinni áfram rekast á innfædda reka sínar geitur og kýr úti í haga skammt frá þeim hjörðum af villtum dýrum sem hafa heillað kynslóðir.

Góðar fréttir.