Það þekkja allir ferðavanir Frónbúar að þrátt fyrir áratugalanga reynslu af erlendum ferðamönnum reynist mörgum Spánverjanum afskaplega erfitt að átta sig á hvað er góð þjónusta og hvað ekki. Eða stundum bara að drullast til að sýna smá lit.

Þurr Martini og þurr þjónn í kaupbæti. Spænskir hafa margir hverjir enn ekki áttað sig á gildi þess að brosa og leggja sig aðeins fram um að hjálpa ferðalöngum. Mynd Marc

Þurr Martini og þurr þjónn í kaupbæti. Spænskir hafa margir hverjir enn ekki áttað sig á gildi þess að brosa og leggja sig aðeins fram um að hjálpa ferðalöngum. Mynd Marc

Öll eigum við ábyggilega sögur af herfilegri þjónustu á Spáni þar sem hroki og leiðindi starfsmanna eru á stundum raunin á hótelum og veitingastöðum þegar einungis dass af liðlegheitum hefði nægt til að allir enduðu sáttir.

Eitt af þeim héruðum Spánar sem hvað mest auglýsir og fær hvað mest af heimsóknum erlendra gesta er Andalúsía en það fallega hérað lendir í neðsta sæti hvað þjónustustig varðar samkvæmt úttekt spænskra ferðamálayfirvalda á síðasta ári.

Fær Andalúsía 8,3 í einkunn af 10 mögulegum sem kann að virðast fínasta einkunn en er sú lakasta í öllu landinu. Sömu einkunn fær höfuðborgin Madríd.

Þeir staðir aftur á móti sem besta einkunn fá hjá ferðafólki eru mikið til lítið sóttir staðir fjarri sólarströndum. Asturías hérað fær bestu einkunnina 9,4 meðan Navarra fær 9,1 og Extremadura nælir sér í 9.

Af allra vinsælustu áfangastöðum ferðafólks á Spáni telst vera hvað liprust þjónustan á Kanaríeyjum og í Valencia en báðir staðir fá einkunnina 8,7.