Líkurnar á að ferðafólk villist til smábæjarins Ryomgård í Djursland héraði á Jótlandi verða að teljast litlar. Þessi bær með sína rúmlega tvö þúsund íbúa hefur fátt markvert til síns ágætis sem heillað gæti ferðafólk annað en vera afskaplega miðsvæðis í þessu vinsæla sumarleyfishéraði landsins.

Bærinn er nánast miðja vegu milli Grenå á austurströndinni og Árósa annars vegar og Randers hins vegar. Hér er ágætt að stoppa sé hugmyndin að skoða Djursland í þaula og dagskráin ekki þaulplönuð en þá er upptalið sem heillað getur hér.

Nema vitaskuld sjarmi lítils dansks smábæjar sem er æði mikill og ekki skemmir fyrir að hér er töluvert skóglendi og auðvitað stutt í margt það sem dregur fólk á þessar slóðir. Sjálfur státar bærinn af Járnbrautarsafni, Djursland Jernbanemuseum, sem er allsæmilegt fyrir áhugafólk en varla fyrir aðra.

Í grenndinni er að finna öllu vinsælli staði á borð við skemmtigarðinn Djurs Sommerland eða dýragarðinn Skandinavisk Dyrepark sem er verður heimsóknar. Þá er hægt að veiða hér í grennd og golfa og ekki er langt í flugvöll héraðsins þaðan sem komist er á fljótlegan hátt til Kaupmannahafnar meðal annars.

Til Ryomgård liggur vitaskuld vegur og hingað fara líka lestir frá Árósum. Öll helsta þjónusta er hér og hér um slóðir er gisting almennt ódýrari en gengur og gerist nær ströndinni.

View Allt sem þú vildir vita um bæinn Ryomgård í Danmörku in a larger map