Þ ó bærinn Randers sé tiltölulega stór á danskan mælikvarða er ekki margt sem kallar á langt stopp fyrir forvitna ferðamenn. Þar búa rúmlega 60 þúsund manns sem gerir bæinn að sjötta stærsta þéttbýlisstaðnum í Danaveldi.
Frægð sína og frama getur bærinn þakkað staðsetningunni en hann er að heita miðja vegu milli stranda sem gerði bæinn að náttúrulegum samkomustað fyrir bændur og búalið sem hingað kom með vörur sínar og seldi. Þá var og hingað fært með smærri bátum inn Randersfjörð og alla leið til Silkeborg og Viborg. Randers varð því snemma miðstöð viðskipta og landbúnaðar.
Í dag hefur bærinn ekki mikið upp á að bjóða þó reynt hafi verið að breyta því af hálfu borgaryfirvalda. Helsta aðdráttaraflið er vafalaust dýragarðurinn Randers Regnskov en það er stærsti manngerði regnskógargarður í Norður Evrópu. Má þar sjá við „náttúrulegar“ aðstæður um 350 tegundir dýra og gróðurs sem öllu jöfnu þrífast aðeins í hitabeltinu.
Annað markvert til skoðunar er listasafn borgarinnar, Randers Kunstmuseum, en aðgangur er ókeypis og sérstaklega indælt að kíkja þangað á sunnudögum þegar boðið er upp á kaffi og kökur með listaverkunum algjörlega frítt. Safnið stendur við Stenmannsgade í Kúltúrhúsinu en í sömu byggingu er menningarsafnið, Kulturhistorisk Museum, og bókasafn borgarinnar.
Menn eru stórhuga í bænum og fyrirhuguð er bygginga gríðarstórrar brúar hér sem einnig verður skíðasvæði. Það verður mikið aðdráttarafl þegar og ef en einhver ár eru þangað til það verður að veruleika.
Áhrifamikið og merkilegt er líka að sjá hér búgarðinn hans Elvis Presley. Allavega nákvæma eftirlíkingu af búgarði poppstjörnunnar sálugu sem eldheitur aðdáandi hefur reist hér í bæ. Þar gefur að líta húsið sjálft vitaskuld, stórt safn minningargripa um karlinn og fyrirhugað að bæta við gosbrunnum og styttum fyrr en síðar. Randers Graceland er opið allt árið