Skip to main content

Þ ó frægð Coimbra hafi lítt borist til Íslands gegnum aldanna rás er borgin afar vel þekkt víðast í Evrópu og það í raun af þeirri ástæðu einni að þar er besti háskóli Portúgal og bærinn sjálfur tekur mjög mið af því með miklum fjölda ungs fólks og áhugaverðum uppákomum á degi hverjum tengdum þeim aldurshóp.

Coimbra var um tíma á miðöldum höfuðborg Portúgal en þar búa í dag rétt liðlega hundrað þúsund manns í borginni sjálfri. Er því einn þriðji hluti allra borgarbúa nemar við skólann yfir vetrartímann. Það segir sig sjálft að slíkur fjöldi ungs fólks setur svip á borgina. Borgin er í raun þriðji mikilvægasta borg landsins á eftir Porto og Lissabon enda er miðhluta Portúgal meira eða minna stjórnað héðan.

Coimbra stendur við bakka Mondego árinnar.

Til og frá

Hingað er aðeins komist með lest, rútu eða einkabifreið þar sem enginn flugvöllur er í grenndinni.

Langflestir taka lestina enda er Coimbra á leiðinni milli Porto og Lissabon og tekur klukkustund að fara hingað frá þeirri fyrrnefndu en rúma eina og hálfa klukkustund frá þeim síðarnefnda. Hafa skal í huga að í Coimbra eru tvær lestarstöðvar, A og B, en A er inni í miðbænum en hin fyrir utan bæinn.

Sama gildir um rúturnar. Reglulegar ferðir eru hingað og til stærri borganna til norðurs og suðurs og velflestra annarra bæja og borga. Rútustöðin er staðsett við Avenida Fernão de Magalhães en er spottakorn frá miðbænum. Strætisvagnar ganga reglulega um bæinn og vandamálið er ekkert.

Það er flókið að aka hér um sökum þess að borgin hefur byggst upp kringum gamlar minjar. Það er auðvelt að villast og heimamenn hafa litla þolinmæði fyrir fölbleikum Íslendingum sem stöðva umferð meðan þeir rýna í kort. Ef fólk er á bíl  er hann best geymdur á hótelinu meðan rölt er um gamla borgarhlutann.

Samgöngur og skottúrar

Hér er ágætt samgöngukerfi en fyrir ferðafólk er lítil þörf á slíku. Hér er gamli bærinn það eina sem heillar og sá hluti er ekki of stór til að taka röltið.

Söfn og sjónarspil

>> Háskólinn í Coimbra (Universidade de Coimbra) – Elsta menntastofnun í Portúgal og ein elsta mennstofnun heims sem starfað hefur óslitið. Stofnsettur skömmu eftir að Ingólfur Arnarson var enn að leita að öndvegissúlum á Fróni árið 1290. Margar bygginga háskólans eru enn uppistandandi þó viðhald hafi vissulega átt sér stað. Hér kringum 20 þúsund nemendur er nánast hægt að anda inn miðöldum við gamlar byggingarnar. Er auðvelt að skoða þær sem uppistandandi eru og rústir annarra má sjá víða. Háskólinn sér um rekstur fjögurra safna sem dreifð eru á skólalóðinni. Heimasíðan.

>> Grasagarðurinn (Jardim Botânico da UC) – Þessi gamli garður við Calçada Martim de Freitas er á framfæri Háskólans og hefur verið ræktaður frá árinu 1772. Þó er aðeins nýlega sem hann var opnaður almenningi að fullu en þar má sjá yfir 1.200 tegundir af flóru landsins og reyndar flóru mun víðar að. Opið virka daga frá 10 – 12 og 14 – 17. Heimasíðan.

>> Fornleifasafnið (Museu Nacional Machado de Castro) – Áður en til var borgin Coimbra var hér byggð Rómverja sem kallaðist Aeminium. Þetta safn rekur sögu borgarinnar frá þessum tíma og til sýnis eru margir þeir munir sem fundist hafa við uppgröft hér og teljast til sögunnar. Þegar þetta er skrifað standa yfir miklar endurbætur á safninu. Sjá heimasíðuna fyrir nýjustu upplýsingar um aðgengi og kostnað. Heimasíðan.

>> Gamla dómkirkjan (Sé Velha de Coimbra) – Ein allra mikilvægasta byggingin frá tímum Rómverja í Portúgal. Byggingin sjálf fær engin fegurðarverðlaun en stendur fyrir sínu sem dómkirkja. Bygging hennar er talin hafa hafist árið 1177.

>> Nýja dómkirkjan (Sé Nova de Coimbra) – „Nýja“ kirkjan er ekki nema tæplega 500 ára gömul og er ekki síðri smíð en sú gamla. Aftur ekki stórkostleg á neinn hátt en þess virði að kíkja inn.

>> Kirkja hins heilaga Kross (Igreja de Santa Cruz) – Enn ein kirkjan í miðborginni en þessi í það minnsta tiltölulega falleg. Heimasíðan.

>> Garður hafmeyjunnar (Jardim da Sereia) – Afar yndislegur og auðfundinn garður í gamla borgarhlutanum.

>> Syrgðarklettur (Penado da Saudade) – Annar garður í miðborginni en þessi á hæð sem gefur bærilegt útsýni yfir hluta borgarinnar. Hér syrgði áttundi konungur Portúgals, D.Pedro, sína heittelskuðu og er talið að þaðan sé nafnið komið. Vinsæll staður í dag fyrir unga elskendur.

Til umhugsunar: Það er líka við Syrgðarklett sem margir rekja upphaf hinnar portúgölsku Fado tónlistar sem margir þekkja. Um tvær tegundir er að ræða af slíkri tónlist. Önnur er kennd við Lissabon en hin við Coimbra og stemmir héðan enda komu hingað syrgjandi einstaklingar og sungu óð til elskenda sinna.

>> Portúgal smáfólksins (Portugal dos Pequenitos) – Vinsæll skemmtigarður og svo nefndur þar sem hér má sjá eftirmyndir af mörgum frægustu byggingum landsins í töluvert smærri skala en fyrirmyndirnar. Afar skemmtilegur. Opið 9 – 20 alla daga. Aðgangseyrir 860 krónur. Heimasíðan.

>> Akademíusafnið (Museu Academico) – Þetta safn tengist háskólanum en hér er að finna öll helstu plögg sem standa upp úr úr starfi þessa fjörgamla háskóla. Fremur óspennandi fyrir alla þá sem ekki hafa sérstakan áhuga á skólanum og ekki tala tungumálið. Opið virka daga 10 – 12 og 14 – 17. Heimasíðan.

>>Vísindasafnið (Museu da Ciência) – Annað safn háskólans og þetta öllu fróðlegra en Akademíusafnið. Margvíslegir hlutir til sýnis hér bæði nýir og gamlir. Það skiptir niður í marga mismunandi hluta og hér ættu allir að finna eitthvað forvitnilegt á hvaða aldri sem er. Opið daglega 10 -12 og 14 – 17. Heimasíðan.

>> Gamli bærinn (Cidade Alta) – Djásn Coimbra er gamli borgarhlutinn og fátt er betra í lífinu en rölta hér um stefnulaust og njóta lífs og þess sem fyrir augu ber. Margt er að sjá sem ekki er sérstaklega tiltekið í ferðahandbókum og margt annað sem heillar eins og rólegheitin í bæjarbúum hér. Barir og veitingastaðir eru á hverju götuhorni og verslanir eru hér allnokkrar inn á milli. Stórkostlegur staður.

>> Morais safnið (Colecção Telo de Morais) – Listasafn í eigu borgarinnar. Byggingin sem safnið hýsir sérstök og innifyrir dágott safn málverka og skúlptúra sem hin moldríka Morais ætt safnaði á löngum tíma. Strætisvagn 42 að Rua Ferreira Borges. Opið 10 – 18 virka daga nema mánudaga og laugardaga milli 10 – 12 og 14 – 17. Miðaverð 280 krónur.

>> Almedina turninn (Torre de Almedina) – Forðum daga var þetta helsti varðturn borgarinnar og hluti af borgarvirki Coimbra sem því miður sést ekki mjög víða nú um stundir. Við Pátio do Castilho.

>> Könnunarsafnið (Exploratório) – Þetta safn í Mondego garðinum er skemmilegt fyrir smáfólkið. Þarna er vísindi heimsins skýrð á afar einfaldan hátt og geta börnin sjálf prófað hitt og þetta tengt merkilegum uppgötvunum gegnum tíðina. Opið daglega 10 – 17:30. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Coimbra er ekki verslunarborg í þeirri merkingu að hér sé ógrynni verslana og miðstöðva sem selja varning. Er það reyndar merkilega heillandi hvað lítið fer fyrir verslunarmiðstöðvum og stressuðu fólki á götum borgarinnar.

Að því sögðu má hér finna ýmislegt forvitnilegt í búðum og nóg úrval er af tískufatnaði til handa þeim þúsundum nema sem hér búa.

Helstu verslunarkjarnar eru Coimbra Shopping, Forum Coimbra og Dolce Vita. Í og við gamla borgarhlutann eru gjarnan markaðir á sumrin og töluvert er um minni verslanir hér og þar. Hluti þeirra gerir út á viðskipti við ferðafólk og prísinn eftir því en almennt er verðlag hér mjög hagstætt fyrir Íslendinga og reyndar hagstæðara en í stóru borgunum sem þó eru ekki dýrar á íslenskan mælikvarða.

Matur og mjöður

Tonn af fínum matsölustöðum víða um borgina. Þeir eru því ódýrari, og að mati sumra betri, því fjær sem dregur frá gamla miðbænum. Á matseðlum portúgalskra staða er að finna rétti sem ekki finnast víða annars staðar í landinu og getur ritstjórn vottað að flestir eru þeir afar góðir.

Gnótt er af börum og skemmtistöðum fyrir unga fólkið víða um borgina en þó sýnu mest í nágrenni við háskólann. Tvær vinsælar stúdentahátíðir, Festa das Latas og Queima das Fitas, eru miklar samkomur þar sem drykkja og skemmtun er númer eitt, tvö og þrjú.

Margir betri barir bjóða uppákomur á kvöldin og þá oft trúbadora og fado söngvara. Oftar en ekki er frítt inn á slíkar samkomur.

Prófaðu vínið frá héraðinu en Bairrada vínið er frábrugðið öðrum víntegundum í landinu. Drykkirnir Licor beirao og Aqua Ardente eru vinsælir og koma héðan.

Líf og limir

Heilbrigð skynsemi tryggir að dvöl í Coimbra verður áfallalaus. Eitthvað er um smáþjófnaði hér sem annars staðar en alvarlegri glæpir næsta óþekktir.

View Larger Map