S ynd er frá að segja en einn fróðlegasti staðurinn á allri Jamaíka eyju er í raun of hættulegur til að ferðamenn geti þar frjálst um höfuð strokið. Er þar átt við Spænska bæinn, Spanish Town, sem er í um15 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Kingston.

Það forvitnilega við Spanish Town er að sá var höfuðstaður eyjarinnar lengi vel þegar Bretar réðu hér ríkjum og þess vegna er menningarsögulegt gildi þessa bæjar verulegt og hvergi annars staðar sem finna má byggingar í Viktoríustíl og torg sem minntu hina ensku aðalsmenn á heimahagana hér áður fyrr.

Hér er að finna fallega dómkirkju, Cathedral of St.James, sem reist var 1714 og er elsta kirkjan á öllu Vestur-Indía svæðinu sem svo var kallað. Þá er hér fróðlegt fornleifasafn og í raun eina slíka safnið í landinu. Það er þó happa glappa hvort það er opið alla jafna.

Það er þó svo að bláfátækir íbúar hér eru lítt hrifnir af erlendu ferðafólki og enginn stendur kyrr þar í margar mínútur áður en einhver heimamaður forvitnast og margir þeirra eru helst til ógnandi. Ekki aðeins lenti ritstjórn Fararheill.is í kröppum dansi hér. Það gerði líka rithöfundurinn og Íslandsvinurinn Michael Crichton sem lendi í mikilli lífsreynslu í Spanish Town einmitt við skoðun á fyrrnefndu fornleifasafni. Skýrir hann frá því atviki í bók sinni Travels. Hingað ætti enginn að fara á eigin spýtur heldur eingöngu með hópi og jafnvel þá hafa allan vara á sér.