A ð frátalinni allsæmilegri sandströnd og því eftirsóknarverða hitastigi sem Íslendingar sækja gjarnan í á Spáni er fátt eitt ýkja spennandi við Albir á Spáni eins og íslenskar ferðaskrifstofur auglýsa þann stað. Albir heitir þó í raun L´Albir og má kynna sem litla bróður nágrannaborgarinnar Benídorm.
Velflestir strandbæir og borgir á Costa Blanca á Spáni eiga það sameiginlegt að vera að mestu sálarlausir túristastaðir. Það er að segja að þangað er fátt eitt að sækja nema sól og sand, misjafna bari og veitingastaði, marflöt diskótek og jú, þar er líka töluvert af glingur- og glysverslunum í viðbót við harkara á götum úti.
Það kemur alltaf upp um staði á borð við Albir að aðdráttarafl þeirra er oftast nær bundið við staði sem eru í talsverðri fjarlægð og oftar en ekki manngerðir. Þannig auglýsir ferðamálaráð Albir staði á borð við skemmtigarðinn Terra Mitica og Vergel safarígarðinn. Sá fyrri tilheyrir Benídorm og töluverður spotti er í þann síðarnefnda.
Til og frá
Til Albir er komist með flugi annaðhvort til Alicante eða Valencía. Frá Alicante velli tekur um 50 mínútur að keyra hingað en um einn og hálfan tíma frá Valencía.
Rútur eru í boði frá Alicante flugvelli alla leið til Albir en velflestar eiga þær lokastopp í Benídorm og þaðan þarf að taka leigubíl. Eru rúturnar kyrfilega merktar og gjaldið fyrir túrinn aðra leiðina til Benídorm er 1.600 krónur. Frá Benídorm kostar leigubíll síðustu tíu mínúturnar kringum 1.700 krónur. Hafa skal í huga að þær rútur sem fara alla leið stoppa víða í Benídorm á leiðinni og þannig eykst ferðatíminn yfirleitt nokkuð.
Leigubíll aðra leiðina kostar ekki undir 14.000 krónum en þeim kostnaði er hægt að deila milli fjögurra aðila svo lengi sem farangur kemst vel fyrir í bílnum. Um að gera að semja við leigubílstjórann um fast verð til Albir því mælaverð getur verið töluvert hærra. Flestir taka þó fegins hendi langa túra til Albir og veita því afslátt.
Nóg er af bílaleigubílum í Alicante og sömuleiðis er auðvelt að leigja bíl í Albir. Það er þó peningaeyðsla nema fólk ætli sér að sjá og skoða Valencíu héraðið.
Að síðustu er hægt að leigja skutlur til að ferja sig á milli. Það getur verið ódýrari kostur en leigubíll ef nokkrir eru saman. Skutlurnar er sömuleiðis að finna við flugvöllinn í Alicante en vænlegast þó að panta slíkt fyrirfram gegnum vefinn.
Til umhugsunar: Hætt er við að jafnvel þolinmóðasta fólk verði þreytt á rólegheitunum í Albir. Benda má á að strætó fer til bæði Benidorm og Altea til norðurs á fimmtán til tuttugu mínútna fresti frá Albir alla daga milli 10 og 22. Miðaverð er aðeins 150 krónur á mann.
Söfn og sjónarspil
>> Ströndin (Playa de Racó de l´Albir) – Að fallegri sex hundruð metra langri ströndinni frátalinni er afskaplega fátt í bænum sem þú mátt ekki missa af. Þetta er strandbær í eiginlegri merkingu og líkt og annars staðar í slíkum bæjum Spánar er stór hluti íbúa erlendir sem hingað koma hluta úr ári og leigja út restina. Velflestir starfa með einum eða öðrum hætti við ferðamennsku. Ströndin sjálf er þó falleg og hrein og lífverðir á vappi öllum stundum yfir sumartímann.
>> Albir vitinn (Faro de l´Albir) – Sumum kann að finnast viti bæjarins merkilegur en ritstjórn Fararheill er ekki endilega sammála því. Bærilegur er betra orð. Hins vegar er aðeins að honum komist fótgangandi síðasta spölinn en leiðin sú er ágæt og gefur ágætt útsýni yfir flóann og yfir til bæjarins Calpe hinu megin. Það getur þó tekið heila klukkustund að labba frá bænum sjálfum og varast skal hitann. Vitinn sjálfur er ekki opinn en útsýnið er þess virði.
Matur og mjöður
Enginn skortur á bæði hörmulegum og miðlungs veitingastöðum í Albir og þaðan af síður er skortur á knæpum af ýmsum toga. Slíkir staðir eru víða í bænum en mest úrvalið í og við ströndina.
Verslun og viðskipti
Í Albir sjálfum er lítið sem ekkert að finna af betri verslunum. Til þess verður að gera sér ferð til Benídorm þar sem finna má bæði merkjaverslanir og betri vörumarkaði.
Líf og limir
Albir er friðsæll staður á Costa Blanca mælikvarðann og á stundum hægt að heyra saumnál detta. Hingað sækja fyrst og fremst fjölskyldur meðan ungmennin kjósa heldur stuðið og lætin sem finnast á Benídorm. Fátt að óttast hér.
View Albir á Spáni in a larger map