L íklegt má telja að flestir klóri sér í haus aðspurðir um borgina Namur í Belgíu, Nameur á máli innfæddra, enda ekki farið hátt fyrir eitt né neitt. Hún er þó alveg heimsóknar virði dagstund eða svo en borgin er titluð höfuðstaður Walloniu héraðsins í landinu. Þar af leiðir að hér er nánast eingöngu töluð franska.

Það gerir Namur sérstaka að hún er sæti elstu minja sem fundist hafa í Belgíu og ástæða þess er sennilegast sú að borgin stendur á mótum tveggja áa, Meuse og Sambre, sem gefa vitaskuld borginni svip sinn.

Þetta er iðnaðarborg með rúmlega hundrað þúsund íbúa og fyrir utan massíft borgarvirki er dálítið eins og fara 70 ár aftur í tímann að rölta hér um götur. Namur viðheldur nefninlega sjarma sínum frá fyrri árum fjandi vel.

Til og frá

Hingað er komist með lest og rútum víðast hvaðanæva að í Belgíu og ekki er langt til Lúxemborgar heldur. Einnig er hingað komist með bátum og smærri skipum á ánum. Rösklega klukkustund tekur að fara til Brussel og miðaverð aðra leiðina 1.400 krónur.

Innanbæjar nægja fætur til að þvælast. Borgin er lítil og áhugaverðustu svæðin í gamla miðbænum.

Söfn og sjónarspil

>> Borgarvirkið (Cittedelle) – Borgarbúar eru stoltir af borgarvirki sínu sem ýmsir segja að sé hið mikilfenglegasta í Evrópu allri. Tökum slíku með varúð en tilþrifamikið er það þar sem það stendur gegnt borginni á lítill hæð. Borgarvirki þetta hefur þó tvívegis verið jafnað við jörðu af innrásarherjum en byggt að nýju jafnóðum. Sérstök bílalest ekur áhugasömum um virkið sem er stórt og mikið og því auðvelt að skoða jafnvel þó þreyta sé í limum.

>> Fornlistasafnið (Musée provincial des Arts Anciens) – Helsta safnið í bænum er tileinkað listmunum fyrri tíma og byggingin sjálf komin til ára sinna. Margt fallegra muna að sjá hér sem bæði hafa verið framleiddir í borginni eða hafa fundist hér við fornleifagröft. Safnið stendur Rue de Fer. Opið 10 til 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 600 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Jarðarberjasafnið (Musée de la Fraise) – Þá sjaldan menn rekast á söfn sem bera önnur nöfn en þessi hefðbundu um víða veröld er þjóðráð að tölta inn og gera sig heimakominn. Jarðarberjasafnið er reyndar ekki jafn tilkomumikið og maður vonar og ekki er hér safn jarðarberja heldur er hér allt um þessi bragðgóðu ber. Ræktun þeirra, afbrigði og sögu og smakk er í boði á réttum árstíma. Það stendur við Chaussée de Dinant. Opið daglega 14 – 18 frá apríl og fram í október. Inngangseyrir litlar 700 krónur. Heimasíðan.

>> Vopntæknisafnið (Musée du Génie) – Hvernig virkuðu öll þessi hernaðartól fyrri tíma? Svör við því fást á þessu einstaka safni þar sem til sýnis eru fjöldi hertóla bæði frá fyrri öldum en ekki síður frá Fyrri og Seinni heimstyrjöldunum. Namur var einmitt um tíma hertekin af Þjóðverjum og skildu eftir fjölda tækja við brottför sína. Safnið stendur við Chemin du Masuage. Aðeins opið á miðvikudögum yfir sumartímann milli 13:30 og 17. Miðinn kostar 450 krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Cathedrale Saint Aubain) – Glæsileg dómkirkja frá átjándu öld sem verð er skoðunar en hún er ásamt klukkuturni sínum á Heimsminjaskrá SÞ. Sú stendur við Place Saint Aubain. Opin skoðunar virka daga milli 13 og 17.

>> Notre Dame nunnuklaustrið (Couvent des Soeurs de Notre Dame) – Í nunnuklaustri þessu er að finna ótrúlega viðamikið safn trúarlegra muna úr safni Hugo d´Oignies. Ómissandi fyrir heittrúaða að koma við hér.

Verslun og viðskipti

Neibbs! Þó hér séu nokkrar yndislegar litlar verslanir er þess ekki að vænta að Íslendingar geri hér súperkaup nema þá kannski á minjagripum

Hátíðir og húllumhæ

Nokkrar smærri hátíðir fara fram í Namur ár hvert. Ein þeirra er forvitnilegri en aðrar. Það eru Veisludagar Wallóníu, Fêtes de Wallonie, sem fram fara í september ár hvert. Þá lifnar öll borgin við eina helgina og hver viðburðurinn rekur annan víðs vegar í borginni. Sjá nánar hér.

Líf og limir

Eins óhætt að þvælast um hér og hægt er í Evrópu. Helsta hættan er að tapa seðlum í fjárhættuspilum en í Namur eru nokkur spilavíti og staðurinn þekktur fyrir það.