Sá sem aldrei stígur fæti inn í bæinn Peso da Régua á bökkum Douro-árinnar er ekki að missa af neinu. Þetta er smábær eins og þeir gerast hvað verstir og ástæðan sú að íbúar hafa látið hefðbunda atvinnuvegi lönd og leið og starfa nú flestir við ferðamannaþjónustu.

Þó þjónusta við ferðamenn sé nauðsynleg þar sem ferðamenn eru á flakki þá tekur slíkt í massavís sálina líka úr þeim stöðum þar sem þetta á sér stað. Það er raunin í Régua eins og staðurinn er gjarnan kallaður. Ekki bætir úr skák að hér í gegn rennur fjölfarinn þjóðvegur með tilheyrandi umferð og malbiki.

Régua var eitt sinn „höfuðborg“ efri Douro en það var þegar hingað voru sendar uppskerurnar af vínökrum héraðsins ár hvert. Hluti þess unnin hér en hluti sendur niður ánna til Porto. Ekkert af því lifir og bærinn engin höfuðborg lengur nema ef vera skyldi höfuðborg farþegabáta og ferja því hér stoppa margir þeir fljótabátar á Douro-ánni sem ferja farþega og ferðamenn fram og aftur.

Til og frá

Hingað er þá auðvitað komist með fljótabáti annaðhvort frá sjó eða ofan úr landi. Annars verður fólk að gera sér að góðu að koma akandi. Fínar samgöngur hingað hvað það varðar og reyndar ljómandi indælt að keyra rólega með opna glugga um Douro héraðið allt.

Snatt og skottúrar

Bærinn sjálfur er pínkulítill og hægt að skoða hann í heild sinni af heilbrigðu fólki á innan við klukkutíma. Það sem er hér að sjá og skoða eru víngerðir hér í kring og þangað er spölkorn í flestum tilvikum. Stöku leigubílar sjást á ferðinni en oft verður fólk að koma sér sjálft á þá staði sem það vill skoða.

Söfn og sjónarspil

>> Douro safnið (Museu do Douro)  –  Þetta er ágætt lítið safn sem tileinkað er byggð og hefðum fólks sem búið hefur við Douro gegnum tíðina. Nátengt þeirri sögu er saga víngerðar en það er ekki mikið bitastætt þar að heyra eða sjá. Þó gefur hér að líta mörg tæki og tól sem hér hafa verið notuð við víngerð og vínflutninga gegnum tíðina. Auðfundið og vel merkt en stendur við Rua Marques de Pompâl. Aðgangseyrir 800 krónur. Heimasíðan.

>> Púrtvínsafnið (Solar do Vinho do Porto)  –  Annað safn í gömlu vöruhúsi hér er þetta þar sem áherslan er á sögu púrtvíns sem er vitaskuld nátengt sögu héraðsins alls. Þetta er þó slakt safn í samanburði við það sem finnst í Porto sjálfri en í boði að smakka nokkrar úrvalstegundir. Rua da Ferreirinho.

>> Douro stofnunin (Casa do Douro)  –  Þetta er ekki safn í neinni merkingu heldur höfuðstöðvar vínbænda við Douro-ánna. Hér er í góðu að reka inn nefið enda gefur hér að líta miklar myndir frá vínrækt og þeim iðnaði á steindum gluggum hvorki meira né minna. Opið 10 til 16 virka daga. Rua dos Camilos.

Verslun og viðskipti

Nei. Fátt markvert hér nema vín séu að heilla en jafnvel þá er ráð að versla í Porto þar sem úrvalið er bæði meira og betra og verð almennt lægri.

Matur og mjöður

Loks er hægt að fara að tala saman. Hér eru nefninlega merkilega fínir veitingastaðir þó fáir séu. Ekki þarf að spyrja að því að mjöðurinn er góður líka enda beint af kúnni.

  • Douro In heitir bar/veitingastaður sem hvað best orð fer af hér í bæ. Engin stórkostlegheit og ekki fær staðurinn háar einkunnir fyrir útlit en maturinn er æði ljúffengur.
  • Cacho d´Oiro er annar hér sem ágætur þykir og úrval vína gott.
  • Castas e Pratos er sá þriðji sem markverður er hér. Sá er staðsettur í gamalli járnbrautarstöð og umhverfið fengið aðeins að halda sér.

Líf og limir

Hættulaust hér að dvelja