S é ekið framhjá virðist bærinn Priego de Córdoba í Andalúsíu ekki vera ýkja frábrugðinn mörgum svipuðum bæjum víða í kring. Ívið stærri kannski en þeir margir og mögulega meira landslag í kring en kannski ekki þess virði að stoppa mikið.
En það ætti fólk þó að gera því bær þessi er að íbúafjölda svipaður að stærð og Kópavogur þó himin og haf sé milli stærðar þeirra. Miðbær Priego með þeim fallegri af smábæjum Andalúsíu og aðaltorgið, Plaza de la Conceptión, afar heillandi til að hvíla rass, grípa eitthvað kælandi og taka inn mannlífið um stund. Við það torg er ráðhús bæjarins og í sama húsi upplýsingaþjónusta ferðamanna. Sú er þó lokuð milli 14 og 17 eins og velflest annað á Spáni þann tíma.
Og hvað varðar eitthvað heillandi að sjá þá pakkar Priego Kópavogi þar saman jafnvel þó í Priego sé ekki margt vert sérstakrar skoðunar. Enda afar fátt skoðunar virði í Kópavogi.
Fyrst kemur ferðafólki venjulega á óvart að hér var einn mesti textíliðnaður í allri Andalúsíu um tíma og enn má sjá hér leifar verksmiðja er framleiddu fatnað og klæði sem þóttu af bera meðal Spánverja. Sérstaklega þótti silki unnið í Priego eftirsóknarvert.
Sú tíð tilheyrir fortíðinni og engar fata- eða textílverksmiðjur er að finna hér lengur. Hins vegar dregur fólk hér andann rólega, loftið er ferskara en víða á Spáni þar sem Priego stendur tiltölulega hátt og enginn sem hér stoppar fær ástæðu til að sjá eftir því.
Til og frá
Til Priego er aðeins komist keyrandi en þangað er um klukkustundar akstur frá hinum merku borgum Cordóba og Granada. Frá Sevilla er hingað komist á rúmum tveimur klukkustundum og svipað frá Malaga. Rútur keyra hingað frá þeim tveimur fyrstnefndu.
Priego de Córdoba verðskuldar sennilega ekki sérstaka heimsókn en sé fólk á ferð hér um slóðir er stopp sannarlega þess virði. Gisting er í raun einnig þess virði eina nótt eða svo þó ferðamenn á flugi geti nú séð allt markvert á tveimur tímum eða svo.
Söfn og sjónarspil
> Fæðingarkirkjan(Iglesia de la Asunción) – Fyrir óvígða í kirkjubyggingarfræðum er máski ekki ýkja margt sem virðist merkilegra við þessa kirkju en svo margar aðrar á Spáni. Hún er þó velþekkt meðal Spánverja vegna þess að ekki aðeins er hún byggð upp við gamlan arabískan kastala sem ekkert stendur eftir af nema turn einn heldur og vegna þess að hún er skreytt á sérstaklega elegant máta. En þessi kirkja státar líka af altari frá Endurreisnartímanum og þykir það altari það fallegasta á öllum Spáni. Eru það ekki lítil meðmæli í landi þar sem kirkjur eru jafn algengar og fé á fjöllum heima á Fróni. Opin skoðunar virka daga 10 – 14 og 17 – 18.
> Brunnur Neptúnusar (Funte de Rey) – Eins lítið og til er af vatni í Andalúsíu og vatnsskömmtun ekki óþekkt vandamál í sumum borgum og bæjum þá mætti halda að í Priego væru menn beinlínutengdir við Vatnsveitu Reykjavíkur. Hér er vart til svæði stærra en tíu fermetrar þar sem ekki finnast heillandi gosbrunnar eða vatnsbrunnar þar sem gestir og gangandi geta svalað þorsta ef túrinn tekur á. Og það er hér við Brunn Neptúnesar sem finna má stóra laug með samtals 139 litlum brunnum og tveimur fallegum styttum. Því miður er umhverfið ekki á pari við þetta magnaða listaverk sem brunnarnir eru en vel þess virði að sjá og tylla sér oggustund. Og ef 139 gosbrunnar nægja ekki til er styttan í miðju af hinum gríska guðinum Neptúnus ekki amaleg. Brunnur þessi er skráður ein af þjóðargersemum Spánar. Fylgja þarf Calle Nueva götunni á enda.
> Gamli bærinn (Barrio de la Villa) – Fegursti hluti Priego de Cordóba er vafalítið elsti hluti bæjarins þar sem götur eru þrengri en nýjustu Levi´s gallabuxur en fallegri en nakin hrein mey að velta sér upp úr dögg á Jónsmessu. Þetta er sá hluti sem er heillandi því að öll húsin eru hvítmáluð, vel við haldið og meðfram öllum götum eru blómstrandi blóm í pottum hangandi á öllum húsum. Engir eru hér bílar því ekki er pláss og rúsínan í pylsuendanum er að frá Calle Balcon de Aldarve er fögur útsýn til fjalla enda stendur þessi hluti bæjarins hátt. Meðfram Balcon de Alderva eru þorstabrunnar og sérstakir útsýnispallar og rómantískari gata er vandfundin á Spáni öllum. Þetta er í raun einn af þeim stöðum sem eigi er hægt með góðu móti að lýsa með texta.
> Arabíska baðhúsið (Casa Baños de la Ville) – Í Calle Real 23 í Barro de la Villa er að finna hús eitt nauðalíkt öðrum húsum með þeirri undantekningu þó að eitt af betri arabísku baðhúsum sem finna má á Spáni er þar til húsa. Ritstjórn Fararheill getur tekið undir það og ómissandi að taka bunu þar og jafnvel nudd með ef dvalist er í Priego. Panta þarf með dags fyrirvara að minnsta kosti. Opið daglega 10 til 23 en lokað milli 14 og 17. Calle Real 63 í Barrio de la Villa. Heimasíðan.
> Kastalinn (El Castillo) – Ekki er ýkja mikið eftir af þessum arabíska kastala sem byggður var á þrettándu öld. Þó standa turnar hans og veggir að hluta en lítið er í raun að dást að. Helst er þess virði að fara upp í turnana og sjá vel yfir bæinn og nærsveitir.
> Stjórnarskrártorgið (Plaza de la Constitución) – Aðaltorg Priego de Córdoba er þetta skemmtilega miðbæjartorg sem fer létt með að blása allt sem Kópavogur býður upp á út í hafsauga. Hér er mannlíf alla daga, hér stendur glimrandi falleg bygging sem brúkast sem ráðhús bæjarins og hér er kaffihús og gosbrunnur og það sem kannski mest er um vert; hér er upplýsingaþjónusta ferðamanna í sama húsi og ráðhúsið.
> Möndlusafnið (Museo de la Almendra) – Það er ekki að finna sérstakt möndlusafn í mörgum bæjum heims en eitt slíkt er hér. Safnið er gömul möndluverksmiðja og hér vinna bændur enn möndlur sínar og hafa gert í um 60 ár. Safnið er staðsett í fjallabænum Zamoranos sem er skammt frá Priego. Opið þriðjudaga til laugardaga 10 til 14 og 17 til 20. Heimasíðan.
Matur og mjöður
Eins og gerist á öllum alvöru veitingastöðum í Andalúsíu, að Sevilla frátalinni, fær fólk hér smárétti, tapa, með keyptum drykkjum. Á stundum eru þeir smáréttir nóg til að fylla mallakút og gott betur.
Þá er enginn skortur á veitingastöðum hér því hér eru alls um 50 slíkir þó fæstir þeirra fari í bækur Íslendingar sem ekta veitingastaðir. Þessir eru meira af spænska kyninu þar sem meira er gert úr matnum en dýrum og áferðarfallegum innréttingum. Enginn er hér þó skyndibitastaður á borð við KFC eða McDonalds.
Fjórir sem ritstjórn Fararheill.is getur mælt með á alla kanta eru El Aljibe, Balcón de Adarve, Zahorí og Resturante Rafi.
Lokaorð
Priego er fallegur og að mörgu leyti yndislegur lítill bær. Sérstaklega elsti hluti hans. Hér er ákjósanlegt stopp í einn eða tvo daga sé fólk í lengri ferð um Andalúsíu.
View Áhugaverðir staðir í Priego de Cordoba in a larger map