Það er sannarlega raunin og það sem meira er; Brandenborgarhliðið við Luisenplatz í Potsdam er eldra en hið öllu þekktara Brandenborgarhlið við Unter den Linden og Ebertstraβe.
Og það er reyndar í Potsdam sem finna má ekki bara eitt heldur þrjú borgarhlið sem áður mörkuðu einu leiðirnar inn og út um bæinn Potsdam. Þar er einnig að finna töluvert glæsilegt borgarhlið á Nauener Tor og hið þriðja og það allra elsta er Jägertor við Hegalallee.
Potsdam tilheyrir fræðilega ekki Berlínarborg frekar en Hafnarfjörður tilheyrir Reykjavik en ferðafólk gerir lítinn greinarmun á.
Það sem gerir Potsdam sérstaklega merkilegt í sögulegu tilliti er sú staðreynd að þetta er borg sem byggðist upp alfarið kringum heri og hermenn en Potsdam var fyrr á öldum æfingasvæði fyrir prússneska hermenn. Þar er fjöldinn allur af merkilegum byggingum frá þeim tíma þó flestar hafi látið mikið á sjá.
Luisenplatz er miðborg Potsdam og þangað er komist með bæði S-bahn og ýmsum héraðslestum frá aðallestarstöðinni oft á dag. Túrinn tekur milli 25 og 45 mínútur eftir lestum.