Þ að kemur æði mörgum á óvart sem ekki vita að Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, er ekki hluti af neinu fylki eins og allir aðrir staðir í landinu. Það er vegna þess að borgin var sérstaklega reist til að vera sæti stjórnvalda í Bandaríkjunum og hver krókur og kimi í borginni afleiðing af því. Skammstöfunin D.C. merkir District of Columbia og margir Kanar brúka bara District nafnið þegar þeir vísa til höfuðborgar sinnar.
Að líkindum er það ástæða þess að borgin er talin vera ein evrópskasta borg Bandaríkjanna og það kunna Evrópubúar allir vel að meta. Bæði borgarskipulagið, arkitektúr víða og ekki síst samgöngur í borginni eru í evrópskum anda. Enda er reyndin sú að Washington er ein vinsælasti áfangastaður ferðamanna bæði innlendra og erlendra í landinu að hluta til þess vegna.
Fyrir utan að Washington, oft kennd við D.C. eða District of Columbia, er bæði sæti þings og forseta landsins er hún líka höfuðborg þessa mikla lands og sem afleiðing af því eru hér hundruðir stjórnvaldsbygginga af ýmsu tagi. Íbúarnir 600 þúsund hafa þó enga menn á þingi þar sem borgin er ekki undir fylkisstjórn.
Borgin sem sett var á stofn 1790 dregur nafn sitt af þáverandi forseta, George Washington, sem sjálfur ákvað staðsetningu borgarinnar við ánna Potomac. Borgin var teiknuð frá a til ö af frönskum arkitekt og finna má samanburð við franskar borgir ef grannt er skoðað. Þannig er mikið af breiðgötum hér, opnum grænum svæðum og síðast en ekki síst eru ekki mörg háhýsi í borginni. Er Washington líka með strangar reglur um hámarkshæð bygginga en slíkt finnst varla annars staðar í Bandaríkjunum.
Fáir geta því státað sig af því að vera innfæddir borgarbúar og borgin því skemmtilegur suðupottur mannlífs en gallinn við Washington er ægihá glæpatíðni sem einskorðast mikið til við austurhluta borgarinnar.
Til umhugsunar: Washington er tiltölulega lítil borg en mjög vinsæl til ráðstefnuhalds. Þannig er tiltölulega algengt að hótel hér og gistihús séu fullbókuð á stöku tímum ársins. Tryggja skal sér gistingu með góðum fyrirvara ef stór viðburður mun eiga sér stað í borginni meðan heimsókn varir.
Til og frá
Alls eru þrír alþjóðaflugvellir sem þjónustu Washington. Eru það Reagan National Airport, Baltimore-Washington International og Dulles International.
Frá Íslandi er aðeins flogið til Dulles flugvallar sem staðsettur er nálægt bænum Dulles í Virginíufylki. Er sá í 20 kílómetra fjarlægð frá Washington og tekur aldrei minna en 50 mínútur að komast á milli og lengur á annatímum kvölds og morgna.
Fljótlegast er yfirleitt að taka leigubíl í bæinn. Sá rúntur tekur um 50 mínútur og meðalverð til og frá miðborginni er kringum sjö þúsund krónur. Verðið er hærra ef ferðast er á annatíma. Gæta skal þess að fá að vita verð áður en lagt er í hann.
Ódýrari leiðir eru í boði og vænlegast að taka strætisvagn 5A sem fer milli Dulles og L’Enfant Plaza jarðlestarstöðina í miðborginni. Túrinn tekur 60 mínútur og kostar fargjaldið 470 krónur. Vagnar þessir fara frá flugstöðinni á 30 til 50 mínútna fresti allan daginn.
Önnur leið er með flugrútu, Washington Flyer, sem fer frá Dulles á 30 mínútna fresti áleiðis til jarðlestastöðvarinnar West Falls Church. Farið aðra leið kostar 1.200 krónur. Tekur sú leið 30 mínútur en þá þarf að taka jarðlestina inn í miðborg. Tekur það aðrar 30 mínútur plús gjald í lestina.
Sömu aðilar bjóða líka skutlur og stærri bíla sé hópur að ferðast saman.
Samgöngur og snatterí
Washington borg er skipt niður í fjóra hluta út frá Þinghúsinu. Norðvestur, northwest, Norðaustur, northeast, Suðaustur, southeast og Suðvestur, southwest. Allar götur sem liggja austur eða vestur merktar bókstöfum meðan þær er liggja norður og suður þekkjast á tölum. Götur eru því merktar á kortum og slíku með tilliti til þessarar skiptingar. Þannig er heiti götu til að mynda M Street NW svo dæmi sé tekið.
Er það Norðvesturhlutinn sem geymir flesta helstu staðina sem ferðamenn vilja sjá og skoða en allir fjórðungarnir eru þó skoðunar virði.
Um það eru flestir sammála er reynt hafa að fljótasta leiðin hingað og þangað í borginni er með almenningssamgöngum eða leigubílum. Washington Metropolitan Area Transit Authority rekur kerfið sem samanstendur af jarðlestum og strætisvögnum.
Jarðlestakerfið, Metro, samanstendur af fimm leiðum og þykir vera bæði öruggt og áreiðanlegt. Sjá kort hér. Hins vegar er fargjaldakerfið ansi flókið þar sem miðaverð er misjafnlega dýrt eftir tíma dags og lengd leiðar. Getur tekið tímann sinn að reikna út gjald alla leið á áfangastað. Gróflega kostar miðinn frá 195 til 530 krónum á annatímum milli 5 og 9:30 og frá 15 til 17 virka daga. Utan þess tíma rokkar miðaverðið milli 195 og 290 krónur. Miðar eru alltaf keyptir í sérstökum miðasölum í öllum stöðvum. Þar eiga líka að vera verðir sem hjálpa til við útreikninga ef á þarf að halda.
Fyrir ferðafólk er líklega tímasparandi að kaupa kort sem gilda ótakmarkað í ákveðna daga. Þá þarf ekki að eyða tíma í reikning á hverri stöð. Slíkir miðar fást einnig í miðasölum.
Metrobus kallast strætisvagnakerfi borgarinnar. Ólíkt jarðlestum er miðaverð í þá að mestu leyti flatt gjald eða 190 krónur. DC Circulator getur nýst ferðafólki vel því sá fer í miðbæinn úr fjórum mismunandi leiðum. Stakt fargjald með þeim vagni kostar aðeins 140 krónur. Leiðakerfi hér.
Leigubílar notast allir við mæla og lítið virðist vera um svindlara í þeirri stétt. Þeir eru þó ekki lengra á veg komnir að fæstir taka kreditkort og skal hafa það í huga.
Almennt miðað við borgir Bandaríkjanna er ekki flókið að aka um í Washington. Vegir og götur eru vel merktar og skipulagðar. Þó er sama vandamál hér og annars staðar að umferð er jafnan vel þung og sé tími af skornum skammti er engin spurning um að láta bíl alveg eiga sig.
Söfn og sjónarspil
>> Miðkjarninn (National Mall) – Segja má að nánast öll helstu söfn og minnisvarðar sem fróðlegt er að skoða í borginni séu öll meira eða minna á sama blettinum. National Mall kallast sá blettur og er Íslendingum væntanlega vel kunnugur úr ótal kvikmyndum gegnum tíðina. National Mall er nokkuð einstætt fyrirbæri í Bandaríkjunum öllum enda á litlu svæði bæði heimsklassa söfn, Hvíta húsið, merkilegar opinberar byggingar og minnisvarðar og garðar sem skipa merkan sess í bandarískri sögu. Að ótaldri þeirri staðreynd að óvíða í heiminum eru meiri völd samankomin en hér. Við National Mall má finna:
Til umhugsunar: Eðli málsins samkvæmt er hér pakkað af ferðafólki nánast allan ársins hring. Sérstaklega er Miðkjarninn vinsæll heimsóknar meðal Bandaríkjamanna sjálfra. Það er því ekki hlaupið að því að skoða allt í einu og reyndar alls ekki mælt með öðru en brúka tvo til þrjá daga hér að lágmarki og taka því rólega þó mannfjöldinn geti auðveldlega farið í taugarnar. Þá er og umtalsverð öryggisgæsla á svæðinu og ekki komist inn á söfnin án þess að fara gegnum öryggisleit. Það getur líka verið heldur leiðinleg reynsla. Sjá má kort með öllum eftirtöldum stöðum neðst í greininni.
>> Hvíta húsið (White House) – Embættisbústaður forseta Bandaríkjanna en einnig ein þekktasta bygging heims og engin smábygging. Húsið er sex hæðir með 132 herbergjum. Sá hluti hússins sem opinn er almenningi er lítill en glæsilegur. Hér er upplýsingaþjónusta þar sem allar helstu upplýsingar fást en verulega hefur verið hert á öryggisreglum og þarf að sækja um með fyrirvara að skoða húsið að innan. Auðveldast er að fá heimsóknarpassa gegnum ferðaþjónustuaðila. Aðgengi er þó ókeypis fáist leyfi á annað borð. Heimasíðan.
>> Þinghúsið (US Capitol) – Bandaríska þinghúsið er stór og glæsileg bygging sem fólk þekkir eflaust úr fjarlægð enda húsið verið notað í ótöldum kvikmyndum gegnum tíðina. Hér er upplýsingasetur fyrir ferðamenn og er það við East Front torgið. Þar er veitingastaður, minjaverslun og sýningarsvæði. Til að fá leyfi til að skoða húsið frekar þarf að verða sér úti um sérstakan passa fyrirfram og helst með nokkrum fyrirvara. Verður fólk þá að panta slíkt á netinu og framvísa við innganginn. Hægt er að bóka hér. Hefðbundinn túr tekur um klukkustund. Opið 8:30 til 16:30 alla daga nema sunnudaga. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.
>> Washington minnismerkið (Washington Monument) – Eitt þekktasta minnismerki borgarinnar til minningar um George Washington sem varð fyrsti forseti Bandaríkjanna. Turninn er jafnframt hæsta mannvirki heims sem eingöngu er úr grjóti en í turninn var notaður marmari, granít og blásteinn. Hægt er að fara upp í turninn en útsýnið þykir nú ekki í frásögur færandi og langar biðraðir eru gjarnan eftir miðum upp. Þarf þá að mæta afar snemma og bíða í allt að klukkustund til að fá miða en aðgangur er ókeypis þrátt fyrir það. Margir segja betra að skoða turninn úr fjarlægð en nærlægð. Opinn 9 til 22 á sumrin og 9 til 17 á veturna. Heimasíðan.
Til umhugsunar: Washington minnismerkið er lokað þegar þetta er skrifað sökum skemmda sem turninn varð fyrir í jarðskjálfta sem reið yfir Virginíufylki sumarið 2011.
>> Lincoln minnismerkið (Lincoln Memorial) – Annað þekkt minnismerki um enn einn forseta landsins. Hér situr karlinn í makindum á risastórum stól og er sjón að sjá. Opið allan sólarhringinn en leiðsögumenn eru aðeins á vappinu yfir daginn. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>>FDR minnismerkið (Franklin Delano Roosevelt Memorial) – Roosevelt greyið fær ekki jafn stórkostlegt minnismerki og fyrri forsetar. Situr stytta af karlinum úti undir beru lofti með hundinn sinn sér við hlið. Fallegt engu að síður. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Víetnam minnisvarðinn (Vietnam Memorial) – Enn eitt minnismerkið velþekkt úr kvikmyndum. Stór og mikill veggur með nöfnum þeirra Bandaríkjamanna er börðust og féllu í Víetnamstríðinu. Opinn allan sólarhringinn og aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Jefferson minnisvarðinn (Jefferson Memorial) – Þriðji forseti Bandaríkjanna og einn aðalhöfunda Sjálfstæðisyfirlýsingar landsins er heiðraður hér. Stytta af karli í fagurri byggingu með útsýn beint yfir að Washington minnismerkinu. Opið 24 stundir og aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Þjóðarlistasafnið (National Gallery of Art) – Eitt allra besta listasafn Bandaríkjanna er staðsett í National Mall milli 3. og 7. strætis á Constitucion Avenue. Það er sannarlega vert skoðunar því hér má sjá verk helstu meistara heims og það í fallegri byggingu á tveimur hæðum. Safninu er skipt niður eftir aldri verka og eins upprunastað verka. Þá er hér líka verslun, veitingastaður og ráðstefnuhöll. Jarðlest, rauða línan, að Judiciary torgi. Safnið opið daglega 10 til 17 og 11 til 18 á sunnudögum. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Flug- og Geimsafnið (Smithsonian National Air and Space Museum) – Fyrir flugkappa er þetta algjör Mekka. Hér eru til sýnis margar af þeim vélum loftsins er frægar hafa orðið í tímans rás. Leyndardómar himingeimsins skýrðir í máli og myndum, fjallað um undirstöðum geimvísinda og geimferðaáætlunar Bandaríkjamanna og svo má lengi telja. Stórkostlegt safn sem auðveldlega má gleyma sér yfir hálfan dag eða svo og vel það ef flugbakterían er til staðar. Safnið stendur eins og flest annað við National Mall á Independence Avenue við 6. stræti. Jarðlest, blá eða appelsínugul lína, að Smithsonian. Opið alla daga 10 til 17:30. Frír aðgangur. Heimasíðan.
>> Náttúrufræðisafnið (Smithsonian National Museum of Natural History) – Annað stórkostlegt safn sem einnig verðskuldar hálfan dag eða svo er þetta glæsilega safn sem tileinkað er lífinu og náttúrunni. Afar fjölbreyttar sýningar og tímabundnar sýningar algengar öllum stundum. Enn eitt safnið sem áhugafólk getur tekið svefnpoka með og dvalið löngum stundum en fyrir meðalmanninn er synd að taka ekki klukkustund eða tvær hér. Það stendur við National Mall við 10. stræti og Constitution. Jarðlest að Smithsonian á bláu eða appelsínugulu leiðunum. Opið 10 til 17:30 alla daga. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.
>> Helfararsafnið (Holocaust Museum) – Eins og nafnið gefur til kynna er hér allt um helför nasista gegn gyðingum og öðrum minnihlutahópum í Seinni heimsstyrjöldinni en safnið býður reyndar einnig reglulega upp á tímabundnar sýningar tengdar öðrum hryllilegum atburðum heimssögunnar. Ekki upplífgandi í neinni merkingu þess orðs en öllum hollt að sjá það sem hér ber fyrir augu. Opið daglega 10 – 17. Aðgangur er ókeypis en aðgengi er takmarkað yfir sumartímann þegar aðeins ákveðinn fjölda passa er afgreiddur á degi hverjum á meginsýningu safnsins. Slíkir passar fást við inngang safnsins en einnig er hægt að panta þá á netinu. Jarðlest að Smithsonian. Heimasíðan.
>> Njósnasafnið (International Spy Museum) – Njósnir fyrr og síðar, njósnatæki og njósnarar. Allt sem hægt er að vita um njósnir gegnum tíðina á þessu einstaka safni. Fyrir unga fólkið og einstaklega áhugasamt eldra fólk er einnig rekinn hér njósnaskóli þar sem kynnast má trixum í faginu. Opið 10 til 17 á veturna en 10 til 18 á sumrin. Jarðlest að Gallery Place/Chinatown. Aðgangseyrir 2.200 krónur. Heimasíðan.
>> Andlitsmyndasafnið (National Portrait Gallery) – Enn einn Smithsonian safnið og þetta tileinkað öllu því fólki sem tengst hefur sögu Bandaríkjanna eða haft áhrif á hana með einum eða öðrum hætti. Frá skáldum til forseta er hér fjöldi verka sem saman segja alla söguna. Jarðlest að Gallery Place/Chinatown. Opið daglega 11:30 til 19. Frír aðgangur. Heimasíðan.
>> Renwick galleríið (The Renwick Gallery) – Gott safn sem tileinkað er nýlegri verkum bandaríska listamanna frá 19,20 og 21. öldinni. Það stendur við Pennsylvania stræti. Opið daglega 10 til 17:30. Jarðlest að Farragut West. Ókeypis inn. Heimasíðan.
>> Afríska safnið (Museum of African Art) – Annað ágætt safn er þetta en hér er að finna mikinn fjölda verka eftir afríska listamenn frá allri þeirri álfu og margt skemmtilegt sem ber fyrir augu. Independene breiðgata. Jarðlest að Smithsonian. Opið 10 til 17:30. Frítt inn. Heimasíðan.
>> Frumbyggjasetrið (National Museum of the American Indian) – Enn eitt safnið í flóru Smithsonian og þetta tileinkað listum, lífi og menningu frumbyggja Bandaríkjanna; indjánanna. Þeirra saga er blóðug mjög enda stóðu þeir í vegi fyrir að hvíti aðkomumaðurinn gætu valsað um landið að vild. En margt forvitnilegt liggur fyrir um mismunandi ættbálka og þjóðir og óhætt að mæla með heimsókn hingað. 4. stræti og Independence. Jarðlest að L´Enfant Plaza. Opið daglega 10 til 17:30. Enginn aðgangseyrir. Heimasíðan.
>> Lista- og iðnaðarsafnið (Arts and Industries Building) – Þetta safn er í sama húsi og allra fyrsta Þjóðminjasafn Bandaríkjanna og á byggingin sjálf því nokkra sögu. Hér hafa menn leikið sér með kynningar á listum og jafnframt iðnaði í þessu öflugasta iðnríki heims. Útkoman er allgóð. Jefferson Drive. Jarðlest að Smithsonian. Ókeypis inn.
>> Kastalinn (Smithsonian Institute the Castle) – Höfuðstöðvar Smithsonian safnanna allra er hér í fallegri byggingu við Jefferson Drive. Hér fást allar upplýsingar um öll söfnin og því kjörinn staður til að hefja förina nema fólk hafi kynnt sér öll söfnin í þaula. Hér er einnig kaffihús og frítt netaðgengi. Jarðlest að Smithsonian. Ókeypis inn. Heimasíðan.
>> Vaxmyndasafn fröken Tussauds (Madame Tussauds) – Söfn fröken Tussaud þar sem sjá má vaxeftirmyndir af fræga fólkinu nýtur víða vinsælda. Eitt slíkt er hér ef vaxútgáfa af George Clooney skyldi heilla. Í göngufæri frá National Mall við hornið á 10. og F stræti. Jarðlest að Metro Center. Opið 12 til 18 virka daga og 10 til 18 um helgar. Miðaverð 2.700 fyrir fullorðna en 2.100 fyrir yngri en 14 ára. Heimasíðan.
>> Kennedyhöllin (Kennedy Center) – Ráðstefnu og tónleikahús borgarinnar númer eitt er þetta hér kennt við John F. Kennedy. Hér eru til húsa Sinfóníuhljómsveit borgarinnar, balletflokkur og það er einnig brúkað sem óperuhús. Listviðburður fara reglulega hér fram en ávallt þarf að panta miða fyrirfram. Hér er líka safn um þá gripi sem erlendir þjóðhöfðingjar hafa gefið höllinni, veitingastaður og minjagripaverslun. Höll Kennedy´s stendur á F stræti. Jarðlest að Smithsonian. Opið alla daga 10 og 23. Frítt inn nema á viðburði en þá má finna á vefnum. Heimasíðan.
>> Martin Luther King minnisvarðinn (Martin Luther King Jr. Memorial) – Nýjasta viðbótin við flóru minnisvarða í Miðkjarnanum er þessi höggmynd af blökkumannaleiðtoganum. Fimmtán ár tók að byggja verkið sem hefur fengið misjafna dóma og þykir vart mikið í frásögur færandi. Staðsettur skammt frá minnisvarðanum um Kóreustríðið.
>> Corcoran safnið (Corcoran Gallery of Art) – Eitt af betri listasöfnum borgarinnar sem eru hundrað prósent í einkaeigu. Fjölbreytt verk eftir ýmsa listamenn frá ýmsum þjóðum og verk af ýmsum gerðum. Safnið er nánast við hlið Hvíta hússins og auðfundið við 17. stræti NW. Opið miðviku- til sunnudaga milli 10 og 17 en fram á kvöld á fimmtudagskvöldum. Jarðlest að Farragut West. Miðaverð 1.300 krónur. Heimasíðan.
>> Fréttasafnið (Newseum) – Þetta safn er vert skoðunar en það er einstakt á heimsvísu. Hér eru stóru fréttir heimsins settar í samhengi og búning svo gestir geti áttað sig á samhengi þeirra og áhrifum þeirra á heimsmyndina. Öllu öðru tengt fréttamennsku og fréttaljósmyndun eru gerð góð skil og gestir geta fengið að prófa ýmsa leiki og tæki sem hér eru. Þetta safn var valið besta safnið fyrir börn og unglinga í borginni árið 2011. Það stendur við Pennsylvaníustræti 555. Jarðlest að Archives. Aðgangur 2.800 fyrir fullorðna en 1.800 fyrir börn og unglinga. Opið daglega 9 – 17. Heimasíðan.
>> Átthyrnda safnið (Octagon Museum) – Þó lítið fari kannski fyrir því í því safnafargani sem er í miðbæ Washington er þetta ákveðna safn það elsta í öllum Bandaríkjunum. Þetta var áður íbúðarhús og eftir að Bretar brenndu Hvíta húsið flutti fjórði forseti landsins, James Madison, hingað um tíma. Að auki eitt af fáum upprunalegum húsum Washington sem enn standa og er skráð sem þjóðargersemi. Safnið sjálft leggur áherslu á arkitektúr en nálægt þess við Hvíta húsið gerir þetta að fínu stoppi. Heimasíðan.
>> Safn byltingardætranna (Dar Museum) – Sængur, teppi, bollar, keramik, búningar, leikföng og margt fleira merkilegt að sjá á þessu merka safnið sem er til vitnis um þann heimaiðnað sem mæður og dætur hafa stundað hér á öldum áður. Flestir munirnir úr höndum kvenna en reglulega aðrir viðburðir þar sem kastljósinu er varpað á muni sem aðrir hafa átt þátt í að skapa. Stórfróðlegt safn fyrir handverkskonur frá öllum heimshornum. Jarðlest að Farragut West og 10 mínútna gangur þaðan. Opið 8:30 til 16 virka daga og 9 til 17 laugardaga en lokað á sunnudögum. Heimasíðan.
>> Þjóðardýragarðurinn (National Zoo) – Þessi dýragarður er bæði frábær og ókeypis. Fjöldi tengdra viðburða annars lagið. Jarðlest að Woodley Park. Opið 10 til 18 yfir sumartímann en 10 til 16:30 yfir vetrartímann. Heimasíðan.
>> Þjóðardómkirkjan (National Cathedral) – Þessi magnaða nýgotneska kirkja er skoðunar virði. Hún er ný og var fyrst kláruð árið 1990 en skemmdist reyndar illa í jarðskjálfta í ágúst 2011. Hún er öllum opin skoðunar virka daga og laugardaga milli 10 og 17. Hún stendur á horni Wisconsin og Massachusetts götum.
>> Sendiráðsstrætið (Embassy Row) – Ekki reyndar mikið að sjá per se en forvitnilegt að vita til þess að tæplega 60 erlend sendiráð eru staðsett við strangt til tekið eina götu í borginni. Rennur Sendiráðsstrætið gegnum Massachusetts breiðgötuna gegnum Dupont torgið og áfram eftir Woodland Park. Þetta sama hverfi, Georgetown, er án efa fallegasta hverfi borgarinnar enda hér mörg hús frá fyrstu árum borgarinnar.
>> Grjótárgarður (Rock Creek Park) – Án efa fallegasti almenningsgarður borgarinnar og algjört möst að koma við yfir sumartímann þegar allt er í hvað mestum blóma. Hér spranga um ýmis dýr og meira að segja hirtir eru nokkuð algengir. Þá er hér fjöldi göngu- og skokkleiða, leiktækja fyrir börnin og síðast en ekki síst fjöldi minnisvarða og leifa frá Borgarastyrjöldinni. Að auki er hér stjörnuskoðunarmiðstöð og golfvöllur er hér líka. Glover gata. Jarðlest að Van Ness stöð en þaðan er spottakorn inn í garðinn. Heimasíðan.
>> Phillips listasafnið (Phillips Collection) – Fyrsta nútímalistasafn Bandaríkjanna er þetta hér við 21.stræti skammt frá Dupont torginu. Þekktast fyrir ótrúlega mikið úrval verka í impressjónistastíl. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga en 11 til 18 á sunnudögum. Jarðlest að Dupont Circle. Miðaverð 1.800 krónur á sérstakar sýningar en tekið við framlögum að öðru leyti. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Eins og annars staðar í Bandaríkjunum er ekki nokkur skortur á verslunum. Reyndar er Washington yfir höfuð örlítið dýrari borg en almennt er raunin en ekki svo að hér sé ekki hægt að gera mun betri kaup en hjá fákeppnisaðilum heimafyrir.
Séu merkjavörur málið skal halda rakleitt til Chevy Chase hverfisins í norðurhluta borgarinnar. Þar eru allar dýrustu búðir heims á litlum bletti og einar sjö verslunarmiðstöðvar til að hýsa þær.
Mikið skemmtilegra svæði til verslunar er Georgetown hverfið nálægt samnefndum háskóla. Þar eru bæði verslanir sem þú kannast ekkert við í bland við hinar. Verð eru þó áfram í dýrari kantinum. Sérstaklega er mikið um verslanir í M stræti og Wisconsin breiðgötuna.
Töluverður fjöldi verslana er kringum Union stöðina og eins hefur fjölda verslana sprottið upp í Chinatown. Við bakka Potomac árinnar í Georgetown og meðfram Pennsylvania breiðgötunni fer ört fjölgandi verslunum og einhverja verslunarmiðstöðvar er þar að finna.
Séu minjagripir að heilla er gnótt af bæði götusölum og verslanir eru nánast í öllum söfnum borgarinnar. Sé fólk á höttunum eftir antík eða verslunum með notaðar vörur er ráð að bregða sér til U götu milli 12. og 18. strætis. Þá er töluvert af verslunum í Adams Morgan hverfinu.
Þá má ekki gleyma heldur að bæði Arlington og Maryland eru borgir skammt frá Washington og þar má líka finna nóg af fínum verslunum og verslunarhverfum.
Matur og mjöður
Enginn þarf að svelta hér nema þeir fátæku og enginn skortur er á þeim á ákveðnum stöðum í borginni. Fyrir okkur hin er ráð að planta rassi einhvers staðar í Georgetown, Dupont Circle eða Penn Quarter sé ætlunin að borða vel og mikið og greiða fyrir það tiltölulega dýru verði. Prísar fyrir tvo með víni á þessum stöðum eru gjarnan kringum tíu til tólf þúsund krónur.
Fyrir okkur sem ekki eiga búnka á bankabók er vænlegra að halda til Litlu Eþíópíu, Little Ethiopia, en íbúar kalla svæðið kringum 9. og U strætis því nafni þar sem er að finna á litlum bletti nokkra afríska veitingastaði sem bragð er að. Kínahverfið, Chinatown, er eðli málsins samkvæmt príma stopp fyrir aðdáendur kínversks matar og nálægt Columbia Heights má finna allmarka staði sem sérhæfa sig í Mið- og Suður Amerískum mat.
Bandarískur matur er lítt spennandi og af þeim sökum enginn albandarískur staður ef frá eru taldir pulsusalar borgarinnar. Þeir eru út um allt ef skyndibiti er málið til að fylla mallakút.
Mjöð er að finna víða og barir óteljandi í flestum hverfum borgarinnar. Washington á þó engan drykk per se.
Djamm og djúserí
Fyrir fólk sem fyrst vaknar til lífsins eftir miðnætti er líf í tuskum í Adams Morgan hverfinu, í grennd við Dupont torgið og á svæðinu við Logan Circle. Af þessum þremur stöðum er mesta lífið kringum Adams Morgan enda þar yngsta fólkið og flestir klúbbarnir. Við Dupont finnur fólk hins vegar eldri klúbba og bari þar sem sjá má fræga fólkið taka spor á dansgólfinu. Sá staður er þó lang dýrastur. Logan Circle er fínn líka en verð á bjór er nær því sem Íslendingar hafa efni á með góðu móti.
Þá eru líka klúbbar og betri barir við U stræti og þar eru líka sérhæfðir barir og klúbbar á borð við jazzbarinn Shaw´s sem er besta stoppið í borginni fyrir þannig tónlist. Einnig er töluvert næturlíf í Georgetown og þá gjarnan háskólafólk þar á ferð.
Annars þarf engar áhyggjur af hafa af því að lyfta sér upp. Öll hverfi eiga einhver blett þar sem finna má góða stemmningu flestum stundum.
Líf og limir
Við skulum ekki blekkja okkur neitt. Washingtonborg er ein versta borg Bandaríkjanna hvað glæpi varðar og ferðamenn verða fyrir þeim eins og aðrir. Það er því ekki ýkja sniðugt að velta drukkinn út af börum seint um nótt án þess að vera með leigubíl til reiðu.
Borgin er reyndar ekki lengur morðhöfuðborg landsins eins og hún var lengi vel á níunda áratug síðustu aldar og alvarlegum glæpum hefur fækkað. En margir ganga hér um með skotvopn eins og það sé eðlilegasti hlutur í heimi og sérstaklega er það raunin í norðaustur- og suðausturhluta borgarinnar.
Rán og þjófnaðir, og þá vopnuð, eru nokkuð algeng í nokkrum hverfum sem ferðafólk gæti fundið sig í og þá sérstaklega að kvöldi til. Fullan vara skal hafa á sér við Shaw eða U strætin og eins eru rán nokkuð tíð í Adams Morgan og Columbia Heights hverfunum.
Ekki er ráð að fara út að kvöldi til með neitt annað en seðla í vasa og eingöngu seðla. Skal undantekningarlaust láta allt af hendi ef rán á sér stað því ekkert gull og glingur kemur í staðinn fyrir líf þitt.
View Allir áhugaverðustu staðirnir í Washington DC í Bandaríkjunum in a larger map
I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.