Skip to main content

P orto er ekki ýkja auðveldlega lýst. Einfalt væri að segja að hún sé önnur stærsta og mikilvægasta borg Portúgal þó innfæddir væru fljótir að leiðrétta það og fullyrða að hún sé mikilvægasta borg landsins. Þeir hefðu að vissu leyti rétt fyrir sér. Porto á nefninlega margt skylt með Barcelona á Spáni að því leyti að þriðjungur þjóðarframleiðslu landsins á sér stað í þessari einu borg og að því leyti heldur hún uppi efnahag landsins.

Porto ber þess vissulega nokkur merki að þar eru talsverðir peningar í umferð á yfirborðinu en sú skoðun breytist fljótt þegar farið er að rölta um elsta og jafnframt mikilvægasta borgarhluta hennar við ánna Porto. Þá rennur fljótt upp ljós að vel getur nóg verið um peninga á þessum slóðum en þeir eru að fara í vasa annarra en borgaryfirvalda.

Seint verður hægt að lýsa frati á gamla borgarhlutann í Porto. Þröngar og dimmar götur, öngstræti og húrrandi brattar rennusteinsgöturnar auk hávaða og hlátraskalla úr stöku veitingastað eða bar. Nálægðin við ánna og mynni Atlantshafsins þýðir að hér er ávallt nettur andvari svo hiti er aldrei drepandi mikill. Nógu var gamla borgin allavega heillandi til að komast árið 1987 á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

En hversu fullir nefndarmenn voru þegar borgin var skoðuð er stór spurning líka. Afskaplega stór hluti hennar er í hræðilegri niðurníðslu. Dimm strætin eru mörg hver myrkuð því enginn býr í niðurníddum húsunum og engin er lýsing á götum. Brotnir gluggar og halloka útveggir eru regla fremur en undantekning. Meira að segja sá hluti gamla borgarhlutans sem allir þeir ferðamenn er árlega sækja borgina heim sjá við höfnina hefur séð sína bestu daga fyrir mörgum áratugum síðan.

Það breytir ekki því að Porto er lifandi, skemmtileg og yndisleg borg í flesta aðra staði. Hún kemur oftar en ekki á óvart og fólk hér er almennt vinsamlegra gagnvart ferðamönnum en fólk sunnar í landinu. Fjölmargir garðar eru víða í borginni og margir þeirra með frábæra skúlptúra og risastór minnismerki en komast varla á blað flestra ferðahandbóka um Porto.

Að síðustu er Porto frábær blanda þess gamla og liðna og þess unga og ferska því borgin hefur á síðustu tveimur áratugum orðið að einstaklega vinsælli háskólaborg og fjöldi ungs fólks í borginni er vel yfir meðaltali annars staðar í Portúgal. Að sama skapi ríkir gamall andi yfir henni sem gefur henni visku og þroska og miðað við ekki stærri borg er fjölbreytni hennar með ólíkindum.

Til umhugsunar: Borgin Porto samanstóð í upphafi aðeins af því sem þekkt er sem gamli bærinn í dag. Porto nútímans er stærri en töluverður hluti hennar er þó annar bæjarhluti sem runnið hefur í eitt sökum uppsveiflu síðustu áratuga. Sá hluti borgarinnar sem er sunnanmegin Douro árinnar er ekki Porto svo dæmi sé tekið heldur heitir hún Vila Nova de Gaia. Þá er risastórt hafnarsvæði borgarinnar strangt til tekið í bænum Matesinhos en ekki í Porto.

Til og frá

Aðalflugvöllur Porto heitir Sá Carneiro en er jafnan kallaður flugvöllur Porto. Er hann staðsettur fimmtán kílómetra frá borginni sjálfri og er bæði nýtískulegur og fallegur af flugvelli að vera. Þar við útgang er starfrækt 24 stunda þjónustubás ætlaður ferðamönnum. Þar er hægt að verða sér úti um góð ókeypis kort af borginni meðal annars.

Þrjár leiðir eru færar til og frá vellinum. Leigubíll, jarðlest eða strætó.

Nóg er af leigubílum beint fyrir utan flugstöðina öllum stundum. Með leigubíl tekur ferð inn í miðbæ Porto röskar 25 mínútur. Allir leigubílar notast við gjaldmæli en 20 prósent álag ofan á hefðbundin gjald er sett á kvöld og helgar og hátíðisdaga. Þá er ennfremur 300 króna gjald fyrir stóran farangur og metur bílstjórinn það yfirleitt sjálfur hvort svo sé. Algent verð inni í miðbæ rokkar frá 4000 krónum á daginn og yfir 5000 um kvöld og helgar.

Rútur, AeroBus, fara reglulega milli flugvallarins og helstu ferðamannastaða yfir daginn. AeroBus stöð fyrirfinnst fyrir utan flugstöðina. Farið kostar 1400 krónur. Sjá nánar hér.

Þrír hefðbundnir strætisvagnar stoppa við flugstöðina og fara allir áleiðis niður í bæ þó ólíkar leiðir séu farnar. Vagnarnir eru númer 601, 602 og 604. Stakt far með þeim kostar 280 krónur. Leiðarkerfi þeirra og annarra vagna í Porto má sjá hér.

Jarðlestin, Metro do Porto, er sennilega einfaldasta leiðin til og frá. Stakt far kostar það sama og með strætisvagni en leið jarðlestarinnar er tiltölulega bein og greið beint niður í bæ og reyndar gott betur. Leiðarkort má sjá á heimasíðunni undir mapa de rede en það er leið 5, dökkblá lína,  sem fer til og frá flugvellinum. Tekur ferðin um 30 mínútur alls.

Þó léttlestakerfi sé hér til staðar hanga heimamenn enn á tveimur gamaldags sporvögnum sem aka tvær leiðir úr og í gamla bæjarhlutann. Heimamenn nota þá ennþá þótt fyrst og fremst starfi þeir áfram til að heilla ferðamenn.

Ratvísi

Borgin atarna er ekki sú einfaldasta að rata um enda virðast upprunalegir hönnuðir ekki hafa haft vit á hvað bein lína er. Engu að síður er áin Douro og dalurinn sem hún rennur eftir oftast nær í þokkalegri nálægð í miðbænum.

Til umhugsunar: Borgin heitir ekki Oporto eins og algengt er að kalla hana í enskumælandi löndum. Nafnið Oporto er tilkomið vegna þess að fyrr á öldum var gjarnan kallað O´Porto, Höfnin, þegar skip komu að landi. Aðeins Bretum hefði dottið í hug að smíða úr því Oporto. Heimamönnum þykir það kjánalegt og niðrandi.

Samgöngur og skottúrar

Eru hér fyrsta flokks í alla staði og einfalt og öruggt að þvælast um með þeim. Öðru gegnir um umferðina hér. Hún gengur ágætlega en aðeins vegna þess að ökumenn þekkja vegina og siði og venjur. Fjölmargar götur í Porto eru einstefnugötur og auðvelt að  ruglast. Þá eru umferðartafir algengar árla morguns og síðdegis; svo algengar að heimamenn kippa sér vart upp við þær lengur. Sérstaklega getur verið flókið að aka um í elstu hverfunum Ribeira og Baixa. Göturnar brattar, steinlagðar, þröngar og langflestar liggja í einstefnu.

Jarðlestakerfi Porto er algjörlega fyrsta flokks og vagnarnir líka. Kerfið er tiltölulega ungt og samanstendur af fimm línum. Í raun er það ekki jarðlestakerfi í orðsins fyllstu heldur blanda jarðlesta- og léttlestakerfis. Engin vafa er á að það er einfaldasta leiðin milli staða í borginni ef það er í boði á annað borð því enn dekkar kerfið ekki öll hverfi. Stakt far kostar 280 krónur og greiðist ávallt fyrir ferð. Sjálfsalar eru við allar stöðvar og víðar. Stakt far kallast andante en einnig er hægt að kaupa rafrænt fleiri miða í einu eða kort sem gildir ákveðin tíma. Stakur miði gildir í klukkustund innan þess svæðis sem hann gildir og hægt að fara víða á þeim tíma á sama miða.

Sama kerfi gildir um strætisvagna og enginn skortur er á þeim hér. Biðskýli finnast nánast í öllum götum og aldrei langt að bíða vagna. Miða er hægt að kaupa í vögnunum.

Leigubílar eru eðlilega hér líka en það verður að segjast eins og er að miðað við aðra samgöngumöguleika eru þeir fokdýrir. Lágmarksgjald er um 600 krónur.

Í gömlu borginni eru ennfremur tveir nýtískulegir kláfar til taks enda brattinn í gamla hverfi Porto síst minni en brattar brekkur í Lissabon. Eina evru kostar í hvora um sig en miðar úr strætó eða jarðlest í kláfana duga hér og því er ókeypis í kláfana séu þeir notaðir áður en miðinn ógildist. Um er að ræða Funicular dos Guindais en hún færir fólk frá Ribeira og upp að dómkirkju Porto í Baixa. Hin, Ascensor da Ribeira, er meira lyfta en kláfur og liggur bakvið Ribeira. Hún er sjáanleg frá bryggusporðinum.

Söfn og sjónarspil

>> Nútímasafn Serralves (Museu de Arte Contemporanea de Serralves) – Ómissandi safn með öllu. Blanda af safni og garði þar sem listaverk ýmissa listamanna eru til sýnis. Byggingin og garðurinn stórkostleg mjög og í eigu Serralves stofnunarinnar sem gerir sér far um að safna verkum eftir portúgalska listamenn. Hér er frábært að koma á fallegum degi og leggjast í grasið og leyfa listinni að ná tökum á sér. Garðurinn var fyrsti garður í einkaeign í öllu landinu og hver einasti Portúgali þekkir til hans. Lágmark hálfur dagur hér. Lokað mánudaga en aðra daga opið 10 – 18. Miðaverð er misjafn eftir því hvaða sýningar eru í gangi hverju sinni. Sjá nánar heimasíðu safnsins. Heimasíðan.

>> Nútímalistasafnið Soares dos Reis (Museu Nacional Soares dos Reis) – Annað nútímalistasafn sem virði er að skoða. Þetta er staðsett í miðborginni í Palacio das Carancas nálægt háskóla borgarinnar og tileinka listamanninum Antonio Soares dos Reis sem er einn af dáðustu listamönnum landsins. Verk hans sem annarra hér að finna bæði á striga og í skúltúrum. Safnið stendur við Rua don Manuel götu. Opið alla daga nema mánudaga frá 9 – 12:30 og aftur frá 14 til 17:30.

>> Ljósmyndasafn Portúgal (Centro Portugues de Fotografia) – Porto er talin vagga ljósmyndarinnar í Portúgal og nafnið því ekki út í bláinn. Fjöldi ljósmynda hér til sýnis og skipt reglulega svo sjaldan eru sömu myndir til sýnis. Safnið sjálft er hýst í gömlu fangelsi, Cadeia de Relacao, sem út af fyrir sig er forvitnilegt líka. Opið daglega nema mánudaga frá 9 – 12 og aftur milli 15 og 19. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Portvínssafnið (Museu do Vinho do Porto) – Sennilega frægasta og vinsælasta safn Porto. Borgin og héraðið allt þekkt fyrir hin frægu portvín sem borgin dregur nafn sitt af og hér er allt mögulegt til sýnis hvað vínin varðar. Mismunandi tegundir, framleiðslan og ferlið, sagan og þá er hægt að smakka hér í gríð og erg. Strætisvagnar 1 og 500 eða jarðlest. Opið þriðju- til laugardaga milli 10 og 12:30 og aftur milli 14 og 17:30. Aðeins 14 – 17:30 á sunnudögum. Aðgangseyrir 400 krónur en frítt um helgar.

>> Sporvagnasafn Porto (Museu do Carro Electrico) – Sé til staðar áhugi á lestum eða almenningssamgöngum til forna er hér margt forvitnilegt að sjá. Enn eru sporvagnar notaðir í Porto þó vissulega sé það meira vegna ferðamanna en heimamanna þó þeir síðarnefndu noti þá að staðaldri. Þó eru leiðirnar aðeins tvær. Hér er saga þeirra í máli og myndum og nokkrir vel skreyttir vagnar til sýnis. Safnið stendur við Cais do Bicalho götuna sem liggur samsíða Douro ánni frá miðborginni og langt til vesturs. Opið virka daga milli 9 og 13 og 14:30 og 18. Heimasíðan.

>> Sædýrasafn Porto (SeaLife Porto) – Engin borg kallar sig borg fyrr en sædýrasafn er á staðnum og eitt slíkt er í Porto. Ekkert stórkostlegt fyrir vana menn en öll sædýrasöfn eru mikilfengleg fyrir þá sem þau ekki þekkja. Smáfólkið unir sér vel hér. Opið alla daga frá 10 til 17:15. Heimasíðan.

>> Rómantíska safnið (Museu Romantica) – Rómantíkin flæddi yfir Portúgal eins og aðra staði í Evrópu á miðöldum og þetta safn er tileinkað þeim tíma. Fjöldi muna og listaverka til sýnis og ennfremur saga því hér dvaldist konungur Ítalíu þegar sá var sendur í útlegð á sínum tíma. Opið 10 til 12:30 og 14 til 17:30 þriðju- til laugardaga. Aðeins seinnipartinn á sunnudögum. Prísinn 400 krónur en frítt um helgar.

>> Portvínshúsið (Solar Vinho do Porto) – Ekki safn í eiginlegri merkingu heldur einhver íburðarmesti staðurinn í borginni til að njóta þeirra guðaveiga sem borgin er þekkt fyrir; portvín. Gríðarlegt úrval og smakk af öllum mögulegum tegundum portvíns í boði gegn vægu verði. Portvínshúsið er í sömu byggingu og Rómantíska safnið en byggingin er fyrrum aðalshús og íburður í hólf og gólf. Þá er garður Portvínshússins óumdeilanlega einn af þeim yndislegustu stöðum sem hægt er að planta sér á í allri borginni. Bæði er garðurinn lítill en afar fallegur en hér er útsýni yfir ánna fyrsta flokks. Strætisvagn 3, 56 eða 78. Opið daglega frá 14 til miðnættis. Heimasíðan.

Porto er kjaftfull af forvitnilegum hlutum að sjá og upplifa. Fyrst er sennilega að nefna Ribeira hverfið sem er gamli bærinn í borginni. Sá er ekki ýkja stór og tveggja stunda göngutúr nær að dekka það helsta. Byggingar margar illa farnar og hverfið allt nokkuð niðurnítt en engu að síður ástæða fyrir að þessi hluti er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem eitt af gersemum mannkyns. Það er líka héðan sem sérkennilegir fljótabátar Porto flytja ferðamenn í styttri eða lengri ferðir upp Douro ánna en bátarnir eru eftirlíking af þeim tegundum báta sem notaðir voru í fyrndinni til að ferja vínámur til og frá. Takið eftir að á byggingunni beint fyrir ofan þá bryggju er lítið mátt skilti af íslenska fánanum. Þar er til húsa á þriðju hæð íslenski ræðismaðurinn.

Einar sex brýr tengja Porto við suðurhluta landsins yfir Douro ánna og eru þær hver annarri fallegri. Allar gefa frábært útsýni yfir gömlu borgina og víðar til sjávar. Stórfenglegust af öllum er þó hin 172 metra langa Ponte de Dom Luís sem var á sínum tíma lengsta brú veraldar. Það er líka eitthvað afskaplega kunnuglegt við brúnna sjálfa og flestir átta sig á líkingu við Eiffel turninn í París. Enda byggði brúnna einn af aðstoðarmönnum Eiffel hins franska. Stór gangvegur er á efra palli þessarar brúar og hvergi fæst flottara útsýni.

Skiptar skoðanir eru meðal borgarbúa á Tónlistarhúsinu, Casa de Música, í Bóavista hverfinu til vesturs frá gamla bænum. Missa margir arkitektar andann yfir því enda sérstætt hús í alla staði og hönnun þess hlotið fjölda verðlauna. Vissulega er magnað að labba um ranghala hússins sem er alla jafna opið fólki að kostnaðarlausu en sennilega þarf að vera arkitektúrlega sinnaður til að missa sig yfir þessu undarlega húsi. Hér má hins vegar reglulega sjá heimsklassa listamenn leika listir sínar. Þar er líka veitingastaður sem kostar sitt. Sjá nánar á heimsíðunni hér.

Á hæðinni fyrir ofan Ribeira má finna afar fallegt útsýni og þrennt sem þess virði er að skoða. Þar stendur tignarleg helsta kirkja Porto, São Francisco kirkja, sem vissulega er ágæt að sjá en hún er öllu glæsilegri að innan. Kirkjan sem er í gotneskum stíl og reist á fjórtándu öld er ekki lengur notuð undir þjónustur. Undir kirkjunni er safn kennt við hana og er það ómissandi einnig. Var það áður katakomba og er talið að um 30 þúsund lík hafi verið grafin þar gegnum tíðina. Margt forvitnilega þarna að sjá annað. Léttlest 1. Opið daglega 9 – 18. Aðgangur 500 krónur bæði að kirkjunni og safninu.

Örskammt frá kirkjunni er Palacio de Bolsa, kauphöll borgarinnar í orðsins fyllstu. Er þetta tilkomumikil bygging og innviðir hennar ótrúlega fallegir. Þar er meðal annars víðfrægt arabískt herbergi en byggingin öll er á meðal þjóðargersema Portúgal. Kauphöllin er opin til skoðunar alla daga milli 9 og 19.

Þá er einnig þarna í grennd dómkirkja borgarinnar, , sem er ágæt til brúksins og útsýnið gott yfir ánna en sjálf fer kirkjan ekki í kirkjubækur fyrir sérstök stórkostlegheit.

Í tíu mínútna fjarlægð er svo komið í eiginlegan miðbæ Porto, Trindade, sem í sjálfu sér býr yfir litlu sérstaklega áhugaverðu nema tignarlegum opinberum byggingum.  Hér er einnig helsta verslunarhverfi borgarinnar og mest úrval smærri verslana í borginni.

Stór og mikill markaður er starfræktur í miðbænum. Mercado do Bolhão er bændamarkaður eins og þeir gerast bestir. Úrvalið mikið og samkeppni rík og finna má angan ferskvörunnar um allt. Heimasíðan.

Margt annað er að sjá í miðbænum sem þjáist nokkuð fyrir að vera meira verslunarrými en heillandi svæði til mannlífs. Háskólasvæðið er fornvitnilegt og mikið þar um að vera. Eitt kíkk inn í bókabúðina Livraria Lello er innilega þess virði enda innviðir bókabúðar þessarar stórmerkilegir. Ekki er síður gaman að rölta inn í borgargarðinn Pavilhão Rosa Mota sem er stór og mikill og þar er falleg bygging sem kallast Kristalshöllin. Skúlptúr og dýralíf og kaffihús er þar líka. Úr garðinum er hægt að njóta góðs útsýnis yfir Douro ánna. Þá er auðvelt að koma auga á Clérigos klukkuturninn, Torre dos Clérigos, við kirkju sem ber sama nafn. Turninn var byggður árið 1754 og var lengi vel hæsta mannvirki í Portúgal en turninn er 76 metra hár. Er hann opinn ferðamönnum og útsýnið frá toppnum engu líkt. Kostar það 300 krónur fyrir einstaklinginn.

Mælt er sterklega með að eyða tíma til að labba úr gamla miðbænum alla leið til hafs eftir Douro ánni. Vestasti hluti Porto við Atlantshafið kallast Foz do Douro og er ríkasti hluti borgarinnar. Á leiðinni er þó einnig gengið framhjá einhverjum fátækustu hlutum hennar líka og samanburðurinn afar ljós. Ekki aðeins er göngutúrinn atarna yndislegur heldur er áhrifaríkt að labba undir hinar miklu brýr yfir ánna og meðfram þeim tugum sem veiða meðfram bakkanum öllum. Í mynni árinnar má jafnvel sjá stangveiðimenn á litlum trébátum reyna sig í ölduganginum sem til verður þar sem áin og Atlantshafið mætast. Þá er einnig áberandi, sama hvernig veður er, hversu ferskur andvari berst frá hafinu um leið og það kemst í augsýn á leiðinni.

Á vesturströndinni sjálfri má sjá Felgueiras vitann og undantekningarlítið ber Atlantshafið hart á ströndinni. Enn vestar taka svo við klettóttar sandstrendur fleiri kílómetra vegalengd en þar er pakkað öll sumur. Barir og veitingastaðir margir hér líka. Ólíkt flestum öðrum ströndum sunnar í landinu sér hafstraumurinn frá köldu Atlantshafinu til þess að hér sálast enginn úr hita.

Annað áhugavert

♥  Bátsferð, styttri eða lengri, upp Douro ánna er ógleymanleg. Þær styttri sökum þess að staðsetning borgarinnar er einstök og afskaplega falleg en þær lengri vegna þess að því ofar sem ánna er farið breytist landslagið og vínekrur eins langt og auga eygir sjást í meira mæli. Passa samt sólvörn ef á ferð um hásumarið.

♥ Knattspyrnulið Porto er heimsþekkt og séu menn á ferð hér að veturnar er fjandi skemmtilegt að sækja einn leik eða svo. Ekki síst sé verið að mæta liði frá Lissabon en rígur milli þessara tveggja borga er ekki síðri en rígurinn milli Madrid og Barcelona í nágrannalandinu. Léttlestir stoppa beint fyrir utan leikvang liðsins Dragão. Heimasíða Porto hér.

♥  Ekki yfirgefa Porto án þess að valsa um Vila Nova de Gaia gengt Porto. Þar eru til húsa fjölmörg brugghús og mörg þeirra bjóða skoðunarferðir. Heldur ekki láta hjá líða að fara til Matesinhos þar sem veitingastaðir þykja hvað bestir í öllu landinu og margir þeirra grilla matinn á stórum opnum grillum á götum úti. Ströndin þar líka eðalfín þótt reyndar setji nokkurn blett á þennan bæ hvað risastór olíuhreinsistöð er nálægt. Á ströndinni má finna gamalt virki, Castelo do Queijo, sem forvitnilegt er að skoða.

Verslun og viðskipti

Verslun í Portúgal hefur alltaf verið ódýr fyrir Íslendinga og þrátt fyrir gengisfall krónunnar er landið enn tiltölulega hagkvæmt til verslunar og sennilega hagkvæmasta land Evrópu eins og sakir standa. Porto er reyndar dýrasta borgin í landinu og því vænlegra að fara annað en engu að síður er hægt að gera hér fínustu kaup og úrvalið er ágætt. Portúgalar eru mjög framarlega í framleiðslu fatnaðar og portúgalskir skór eru engu ómerkilegri en ítalskir.

Miðbærinn er mekka verslunar hér og svæðið allt kringum Mercado do Bolhão er afskaplega iðandi og lifandi af kaupglöðum flesta daga ársins. Sérstaklega er Santa Catarina stræti vinsæl enda sannarlega Laugavegur þeirra í Porto. Ekki láta samt hjá líða að kíkja í allar helstu hliðargötur út frá henni því margar af forvitnilegustu verslununum eru ekki nógu þekktar til að hafa efni á að koma sér fyrir í Santa Catarina og eru því í hliðargötum. Aðrar skemmtilegar verslunargötur eru Boavista og Cedofeita.

Verslunarmiðstöðvar eru hér eins og annars staðar. Þær helstu eru:

Matur og mjöður

Drykkina er auðvelt að afgreiða hér. Portvín, portvín og portvín. Auðvitað fæst allt annað hér líka en portvíni vex mjög ásmegin þegar dvalið er í Porto. Önnur tegund sem hér er drukkið nokkuð stíft er grænvín, Vinho Verde, sem lýsa má sem blöndu hvítvíns og freyðivíns. Grænvínið er aðeins framleitt í einu héraði Portúgal, Minho, sem er skammt fyrir norðan Porto.

Matsölustaðir hér almennt eru bærilegir. Margir smærri staðir bjóða rétti sem ferðafólk kannast lítið við en eru flestir aldeilis ágætir. Helsti réttur heimamanna hér sem annars staðar í landinu er saltfiskur, bacalhau, og er forvitnilegt fyrir Frónbúa að prófa einhverja af þeim tugum vinsælu saltfiskrétta sem fást á öllum betri veitingahúsum.

Til umhugsunar: Sé fólk að ferðast virkilega ódýrt munar töluverðu á að panta sér stöku rétti og að panta sér rétt dagsins, menú do día. Allir staðir bjóða slíkt og er réttur dagsins alltaf tvírétta og oft þrírétta. Hann er einnig allt að helmingi ódýrari kostur en að panta stakan rétt.

Umfram allt eru íbúar Porto þó þekktir fyrir ást sína á vömbum. Vambir, tripas, eru í boði á öllum eðlilegum veitingastöðum og sjálfsagt mál að prófa enda geta vambirnar, séu þær rétt matreiddar, verið herramannsmatur. Þær eru þó engan veginn fyrir alla og ekki ýkja spennandi að sjá.

Að síðustu er algjörlega ómissandi að rölta inn í eitt af brauðbúðum borgarinnar, pastelerrías. Úrvalið af sætabrauði og ýmsum fyrirtaks réttum sem aldrei hafa sést á Íslandi er mikið og megnið það gott að þeir sem prófa vilja gjarnan koma aftur.

Enginn þvælist til Porto og smakkar ekki portvín enda væri það svipað og heimsækja Reykjavík og fá sér ekki að reykja. Sökum þess að portvín eru ekki á borðum Íslendinga er ekki úr vegi að lista tegundirnar og muninn milli þeirra. Portvín er venjulega með kringum 20 prósent alkohólmagn og er framleitt með því að blanda brandíi við vínið á ákveðnum tíma. Helstu tegundir eru eftirtaldar:

♦  Vintage – Allra besta portvínið fær þennan stimpil og þetta kostar líka skildinginn.

♦  Late Bottled Vintage – Eftirlíking af Vintage en vínið er geymt lengur en venjulega í tunnunum. Mun ódýrara en Vintage.

♦  Tawny – Fullorðin vín fá þennan stimpil en aldur þeirra er aldrei minni en tíu ár og getur verið 40 ár.

♦  Ruby – Yngsta portvínið með djúpan rauðan lit.

♦  White – Þetta afbrigði portvíns er ekki ýkja þekkt en er afar sérstakt. Yfirleitt sætara og þurrara en hefðbundið portvín.

Líf og limir

Helsta ógnin hér eru veskjaþjófar sem ætíð eru á ferð í mannþröng. Þá getur verið skelfilegt að labba um mest niðurníddu göturnar í gamla hverfinu enda dimmt og í myrkri er ólíklegasta fólk líklegt til ógnarverka. Það er þó afar sjaldgæft að ráðist sé á ferðafólk.

Neyðarnúmer lögreglu eða sjúkraliðs er 112.

View Larger Map