Skip to main content

Þ að er engin tilviljun að indónesíska eyjan Balí hefur um árabil verið einn allra vinsælasti áfangastaður ferðamanna. Heimsklassa strendur, fjölbreytt landslag og dýralíf, menning eyjaskeggja bæði framandi og heillandi og verðlag hæfir pyngjum allra.

Um það er engum blöðum að fletta; strendur Balí eru með þeim allra fallegustu. Mynd Suneva surfboards

Um það er engum blöðum að fletta; strendur Balí eru með þeim allra fallegustu. Mynd Suneva surfboards

Auðvelt er að gleyma sér á gullnum ströndunum dag eftir dag en þeir sem leggja á sig langt ferðalag hingað ættu þó að hafa þessa fimm hluti í huga fái fólk nóg af strandlífinu.

♥  Nudd og heilsulindir >> Einu gildir hvar á Balí fólk er statt; aldrei er langt í næstu heilsulind. Þá er ekki endilega um að ræða einhverjar lúxus heilsulindir keðjuhótela þó nóg sé af þeim. Frægustu staðirnir eru efalítið Seminyak og Ubud og þar hægt að njóta lífsins í súkkulaðibaði, hunangsmjólk eða velta sér um í avacado safa allan liðlangan daginn ef því er að skipta. Það síðastnefnda er ekkert minna en himneskt.

♥  Golf >> Ekki er neinn verulegur fjöldi golfvalla á Balí en þeir sem hér eru til staðar eru fyrsta flokks og hannaðir af ekki minni spámönnum en Greg Norman og félögum. Það er einmitt hann sem hannaði vinsælasta golfvöll eyjunnar, Nirwana, sem hefur alla tíð verið í hópi allra bestu golfvalla í Asíu. Eins og gengur með vörur þar sem eftirspurn er mun meiri en framboð er þó fjarri því ódýrt að taka átján holur hér. Á Nirwana spilar enginn hring undir 25 þúsund krónum eða svo en reyndar eru aðrir golfvellir hér aðeins ódýrari.

♥  Matur og mjöður >> Ólíkt því sem gerist á vinsælum ströndum við Miðjarðahaf svo dæmi sé tekið þar sem raunverulega góðir veitingastaðir eru jafn algengir og geirfuglar á Íslandi er annað uppi á teningnum á vinsælli stöðum á Balí. Þó finna megi þessa lúnu ferðamannastaði er líka stutt í alvöru staði sem annaðhvort bjóða heimalagaða rétti með stæl ellegar hafa fræga kokka við stjórnvölinn. Helst er að finna þá í Ubud þar sem til dæmis má finna Mozaic sem er frægasti veitingastaður eyjunnar. Ekki láta hjá líða að prófa babi guling eða bebek betutu.

♥  Köfun >> Varla þarf að hafa mörg orð um köfun eða snorkling hér. Sjórinn bæði ljúfur og tær eins og íslensk fjallalind og krökkt af litríku sjávarlífi og smærri kóröllum víða. Nægi það ekki til að njóta er töluvert um skipsflök hér um slóðir og þar frægast allra birgðaflutningaskipið Liberty sem hér sökk rétt við ströndina í Tulamben í Seinni heimsstyrjöldinni. Fjölmargir aðilar bjóða köfunarferðir og verðlag gott.