F ararheill hefur áður komið inn á að langfallegasti hluti Kanarí er fjalllendið fyrir miðju eyjarinnar og þar er bærinn Tejeda sennilega fremstur jafningja hvað fegurð varðar.
Sjálfur er bærinn per se hvorki mjög fallegur né skemmtilegur en staðsetningin, að hluta ofan í gömlum gosgíg er mögnuð. Sömuleiðis kvartar enginn yfir útsýninu enda víðsýnt hér og nokkuð auðvelt að ganga héðan að nokkrum þekktustu tindum Kanarí. Þar með talda hina frægu Roque Nublo og Bentayga tinda sem hvor um sig eru tákn Kanarí. Það ætti því ekki að koma á óvart að útivistarfólk kemur hérna í hrönnum allan ársins hring.
Roque Nublo sérstaklega er vinsæll staður en það er jafnframt einn hæsti tindur Kanarí í um tvö þúsund metra hæð. Ganga þangað er tiltölulega stutt en bratt að fara. Tvær til þrjár klukkustundir þarf í það svo vel sé frá Tejeda
Tejeda er svona næst því að vera hjarta Kanarí því héðan er nokkuð jafn langt í allar áttir en hins vegar misjafnlega gott að komast á milli. Vegir hér ágætir en þröngir og best að fara hér um með mikilli gát.
Innan bæjarins er hægt að kaupa minjagripi eins og annars staðar. Hér er líka ágætt safn, Museo de Tejeda, sem sýnir sögu fjallabúa og bæjarins. Annað ágætt safn hér er Centro de Plantas Medicinales þar sem safnað hefur verið saman jurtum ýmsum sem taldar eru hafa lækningamátt. Margt forvitnilegt sem ber hér fyrir augu.
Örlítið norður af bænum sjálfum er að finna Cruz de Tejeda. Það kallast vegamót nokkurra þeirra fjallvega sem hér stika landið. Hér eru heimamenn að selja vörur sínar, þrír veitingastaðir og einasta Parador hótelið á Kanaríeyjunum öllum. Parador eru ríkisrekin hótel á Spáni sem eiga það sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti menningarsögulegum arfi. Ekki ósvipað og Skriðuklaustur heima á Íslandi. Þetta ákveðna hótel er ekki mjög gamalt reyndar og ekki fer mikið fyrir menningu innan veggja þess. En glæsilegt útsýnið og einstök staðsetningin gera það að verkum að Fararheill mælir heils hugar með nótt eða tveimur hér.