Enska ströndin, Playa del Inglés, hefur um árabil verið einn vinsælasti erlendi áfangastaður Íslendinga og annarra norrænna manna og fátt kannski sem hægt er að segja um þann stað sem ekki er á allra vitorði. Það fer þó ekkert á milli mála að þeim stað fer mjög hnignandi ár frá ári.

Hnignandi í þeirri merkingu að hér fer ferðafólki fækkandi ár frá ári. Hnignandi líka sökum þess að hér finnst nánast ekkert ungt fólk að samkynhneigðum frátöldum og ekki hvað síst hnignandi vegna þess að allt hérna er einhvern veginn útlifað og dálítið komið fram yfir síðasta söludag ef svo má að orði komast.

Auðvelt er að færa sönnur á þetta. Það ætti að nægja að segja að þeir þrír staðir sem gegnum tíðina hafa trekkt að fólk í massavís hér í borg gera það ekki lengur. Verslunarmiðstöðvarnar Cita, Kasbah og Yumbo Center hafa um 40 ára skeið verið gósenland fyrir allt og ekkert á Playa del Inglés. Skemmtanir, upplyftingu, afþreyingu og félagsskap. Á þeim öllum hefur oftast nær verið hægt að ganga að iðandi mannlífi vísu alla daga ársins. Ekki lengur nema yfir háannatíma á sumrin. Þess utan geta allar þrjár verslunarmiðstöðvar verið tómlegar og þreyttar og það meira að segja á besta tíma um helgar. Verslunar- og veitingahúsaeigendur kenna tvennu um: því að ferðafólk almennt er með minna milli handanna en áður var og því að sífellt fleiri hótel hér bjóða upp á allt-innifalið pakka. Skýr tenging virðist milli þess og minnkandi aðsóknar í verslunarkjarnana.

Ofangreint þarf ekkert endilega að þýða að Playa del Inglés sé verri fyrir vikið. Þegar allt kemur til alls erum við jú að sækja hingað til að fá varma í kropp og helst smá brúnku með. Skemmtanir eru aukaatriði og vissulega eru hér ennþá kunnir samastaðir þar sem ganga má að Íslendingum vísum.

Að því sögðu og þeirri staðreynd að þeim fjölgar flugfélögunum sem bjóða beint flug hingað er varla verra að sóla sig hér en á öðrum vinsælum strandstöðum og óvíða betra yfir háveturinn.

*Hér er eingöngu fjallað um Ensku Ströndina, Playa del Inglés.

Til og frá

Sáraeinfalt að þvælast um Kanarí og þar með talinn 20 mínútna spottinn milli flugvallarins og Playa del Inglés. Leigubílar fara með fólk á milli fyrir 35 til 50 evrur eða svo en ef stressið er ekki að drepa þig er ráð að taka rútu. Túr með þeim kostar rúmar fjórar evrur og vagninn stoppar víða bæði í Playa del Inglés en líka í San Augustin og Maspalomas ef einhver gistir þar.

Loftslag og ljúflegheit

Ekki þarf að hafa mörg orð um það. Hér er hiti og sól allan ársins hring. Hitastigið að meðaltali 26 gráður yfir sumarmánuðina en 18 gráður þegar vetur tekur yfir. Heitustu dagar fara þó auðveldlega yfir 30 gráður og á köflum gott betur. Sem betur fer er þó undantekningarlítið alltaf vindur af hafi á Playa del Inglés sem kælir heita kroppa.

Söfn og sjónarspil

Almennt er fólk ekki hingað komið til að njóta lista og menningar og af því leiðir að lítið sem ekkert finnst hér af söfnum né öðrum ýkja forvitnilegum hlutum.

Hið eina sem er virkilega forvitnilegt hér um slóðir eru sandölur Maspalomas, Dunas de Maspalomas, sem gróflega skipta svæði Playa del Inglés og Maspalomas frá ströndinni. Sandöldurnar eru bæði fallegar og sérstakar því hvergi annars staðar á Kanarí hefur sandur frá hafi myndað vísi að eyðimörk svo langt upp á land. Stærsti hluti sandanna er friðaður og nær Maspalomas er þar gróðurvin fyrir fuglalíf.

Ströndin sjálf er svo kapituli út af fyrir sig. Hún bæði falleg og löng og þar nægt pláss fyrir tugþúsundir í einu. Þar líka ýmis afþreying í boði fyrir ævintýragjarna. Ágætt að hafa í huga að ströndinni er skipt niður í svæði. Tvö þeirra tiltekin fyrir samkynhneigða og tvö önnur fyrir strípalinga. Um 20 til 30 mínútur tekur að labba ströndina frá Playa del Inglés að Faro vitahúsinu í Maspalomas.

Verslun og viðskipti

Hér erum við að tala saman. Eigi fólk peninga til að eyða er Playa del Inglés ekki verri staður en hver annar á Kanarí. Kannski með þeim formerkjum þó að hér bráðvantar nútímalega verslunarmiðstöð. Þær þrjár sem hér hafa löngum drottnað: Yumbo Center, Citi og Kasbah hafa aldrei þótt nógu góðar fyrir þekktari verslunarkeðjur. Þú finnur því ekki Zöru, H&M eða Massimo Dutti í neinni þessara miðstöðva. Í staðinn er ógrynni smásala sem selja glingur og drasl af öllu tagi. Sumt á góðu verði en annað ekki eins og gengur.

Til að finna stórar þekktari verslunarkeðjur þarf að yfirgefa Playa del Inglés og halda í nýlegar verslunarmiðstöðvar sem rísa nokkuð reglulega hér á Kanarí. Ein þokkalega vinsæl er El Tablero á mörkum hverfanna Sonnenland og El Tablero til norðvesturs frá Playa del Inglés. Tvær ágætar finnast á Meloneras ströndinni, vestan af Maspalomas. Það eru Faro Boulevard og Bellavista.

Plúsinn við skort á „alvöru“ verslunum í Playa del Inglés er þó sá að hér er yfirleitt alltaf hægt að prútta. Bolurinn sem á að kosta 12€ fæst líklega niður í sex til átta evrur ef fólk er nógu sniðugt og hefur gaman af prútti.

PS: Það kann að hljóma kjánalega þegar þúsundir verslana eru að bjóða meira og minna sama glingrið en við mælum með að fólk labbi á milli áður en kaup eru gerð. Bæði eru verð merkilega mismunandi og sums staðar auðveldara að prútta niður en annars staðar.

Djamm og djúserí

Annað sem enginn skortur er á hér eru barir og næturklúbbar og slíkir staðir á hverju strái um alla borg. Mjög margir þeirra reknir af útlendingum sem reyna þá oftar en ekki að trekkja sitt fólk. Þannig eru hér „sænskir“ staðir og „norskir“ og „írskir“ og slatti af „finnskum“ börum.

Íslendingar áttu lengi vel sinn eigin bar hér líka. Hinn frægi Klörubar í Yumbo Center var fjölsóttur af landanum um áratugaskeið og eiga margir glaðar minningar þaðan. Sá bar var seldur fyrir fáum árum. Landinn var þó ekki lengi að finna aðra samastaði og þeir hlið við hlið. Annars vegar Sportbarinn og svo Manni bar sem oft er líka kallaður Nonna bar af gárungum. Báðir eru staðsettir nánast við hlið hins þekkta „Íslendingahótels“ El Roque Nublo og bak við Yumbo Center við Avenida Provisionales. Fyrir ókunnuga nægir oftast nær að ganga á hljóðið þegar líða tekur á kvöld. Á Sportbarnum er hægt að dansa ef sá gállinn er á fólki.

Samkynhneigðir ættu að geta fundið talsvert við hæfi í suðurhluta Yumbo Center en þar eru nánast á sama bletti einir sjö barir sem gera nánast eingöngu út á samkynhneigða. Samkynhneigðir karlmenn eru reyndar mjög áberandi alls staðar á Playa del Inglés.

Algengt verð á stórum bjór á börum hér rokkar frá 260 krónum og upp í 500 krónur þegar verst lætur. Algengt verð á öðrum sterkari drykkjum frá 600 til 700 krónur.

Afþreying og upplyfting

Allnokkrir ágætir skemmtigarðar finnast hér um slóðir eins og Palmitos Park og Aqualand vatnsleikjagarðurinn. Báðir þessir eru staðsettir í Maspalomas en báðir heimsóknar virði ef tími er nægur og sérstaklega ef smáfólk er með í för.

Annar gamalkunnur skemmtigarður er Sioux City til austurs frá Playa del Inglés. Þetta er kúrekabær eins og þeir gerast bestir og ýmsar ágætar sýningar fara hér fram. Hann er þó, eins og margt annað hér, orðinn dálítið lúinn og þreyttur. Ókeypis ferð er til og frá þeim garði frá nokkrum stöðum á Playa del Inglés. Einnig til austurs við San Augustín má finna gókartbraut eina ágæta ef það heillar ungmennin.

Bátsferðir er skemmtilegur ferðamáti. Nokkrir aðilar sigla með fólk frá ensku ströndinni til vesturs til Puerto Rico og Puerto de Mogan. Það er ágæt tilbreyting í stað þess að taka strætisvagn eða leigubíl og fólk fær aðra og betri sýn á eynna.

Líf og limir

Það verður að segjast eins og er að svæðið allt er merkilega öruggur staður. Lögregla er ekki mjög áberandi hér en ef frá eru taldir þessir hefðbundnu vasaþjófar sem alls staðar eru í einhverjum mæli er hér mjög öruggt að vera og þvælast um það jafnvel vel eftir miðnætti.
Aðeins er um ágenga sölumenn á götum hér í borg en þeir flestir aðeins að reyna að framfleyta sér og hættan lítil nema þá helst að kaupa falsvörur sem þeir undantekningarlaust ota að þér.