T vennt er það sem spænska borgin Pamplóna er þekkt fyrir utan landsteinanna; nautahlaup og Jakobsveginn, og verður að viðurkennast að fyrir fróðleiksfúsa og forvitna ferðamenn er ekki ýkja margt annað heillandi í borginni.

Pamplóna státar jú af sínum gamla bæ sem er jafn yndislegur að aðrir slíkir gamaldags miðbæir eru jafnan í bæjum og borgum á Spáni. Þröngar göturnar er frábær staður til að eyða tímanum á göngu eða setjast niður með bjór og smárétti á einhverjum af börunum sem gömlu miðborgina prýða. Og enginn staður er betri fyrir baskneska smárétti, pintxos, en Pamplóna ef frá eru taldar borgirnar San Sebastían og Bilbao.

Er þó áberandi minni kurteisi og gott viðmót gagnvart ferðamönnum hér en sunnar á Spáni. Skrifa má það að einhverjum hluta á almennan kulda í basknesku fólki en að öðrum hluta sökum þess að hér eru ótrúlega margir á þönum líkt og í stórborgum annars staðar í heiminum. Enda er Pamplóna ein af ríkari borgum landsins og uppgangur hér töluverður.

Í næsta nágrenni við Pamplóna eru náttúrulega falleg Pírineafjöllin þar sem göngufólk getur aldrei fengið nægju sína. Þá er líka í nágrenninu að finna nokkra afar fallega hella og sveitirnar á þessu svæði eru skógi vaxin og heillandi fyrir Frónbúa sem sjaldan sjá slíkt á hefðbundnum stöðum á Spáni.

Til og frá

Pamplóna státar af einum litlum flugvelli í grenndinni en sá er að mestu notaður til innanlandsflugs og því í raun ekki möguleiki að fljúga hingað beint enn sem komið er. Verða áhugasamir annaðhvort að nýta sér flugvellina í Zaragosa eða Bilbao eða alþjóðvöllinn í Biarritz í Frakklandi sem reyndar er styst frá Pamplóna.

Aeropuerto de Pamplona er því ekki ýkja góður kostur fyrir ferðafólk en sé flogið hingað er ekki annað í boði en taka leigubíl inn í bæinn sem kostar vart undir 2.200 krónum eða bíða eftir strætisvagni númer 16 en stoppustöð hans er 800 metrum frá flugvallarbyggingunni. Sá gengur frá 06:30 til 22:30 alla daga. Hér eru þó líka bílaleigur sem þó eru ekki alltaf opnar nema bíll hafi verið pantaður með fyrirvara.

Langflestir ferðalangar til Pamplóna koma hingað með lestum en þær ganga hingað frá Madríd, Barcelona, Vitoría, Galisíu og Asturías. Eru fargjöld lestarfyrirtækisins Renfe þó ekki alveg ókeypis. Miðaverð aðra leiðina frá Madríd sem dæmi kostar til að mynda rúmar 9.000 krónur en sú ferð tekur rúmar þrjár klukkustundir. Lestarstöðin. Estación de Renfe er staðsett norðvestur frá miðborginni við Plaza de la Estación og er spottkorn inn í miðborg þaðan.

Ódýrasta leiðin til Pamplóna er með rútum og þær koma hingað frá flestum stærri borgum Spánar. Fargjald aðra leiðina frá Barcelona sem dæmi kostar tæp 4.000 krónur. Rútustöðin, Estación de Autobuses de Pamplona, er staðsett örskammt frá miðborginni við Calle Yanguas Miranda en milli fimm og tíu mínútur tekur að rölta þaðan inn í miðborgarhlutann.

Til umhugsunar: Borgaryfirvöld hafa undanfarin ár rekið færanlega upplýsingaskrifstofu fyrir ferðafólk í gamla bænum. Er það vagn á hjólum og þangað má sækja kort og ýmsar upplýsingar aðrar hvenær sem er til 20 á kvöldin á sumrin. Upplýsingavagninn er alltaf í gamla bænum en ekki alltaf á sama stað.

Samgöngur og skottúrar

Pamplóna er ekki stór og sá hluti sem aðkomufólk gæti dást að er nánast eingöngu einskorðaður við gamla miðbæinn ef frá eru taldir örfáir aðrir staðir sem einnig eru í göngufæri þó lengra sé.

Standi engu að síður vilji til að skoða borgina alla er hér ágætt strætisvagnakerfi, Transporte Urbano Comarcal, og samastendur leiðakerfið af 23 leiðum. Næturvagnar ganga helstu leiðir.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Catedral de Pamplona) – Eins og velflestar dómkirkjur á Spáni er þessi stór og mikil en að sama skapi ekki ýkja tilþrifamikil fyrr en inn er komið. Mögulega helgast það af þeirri staðreynd að kirkjan er næsta falin í gömlu miðborginni, við Calle Dormitalería, og margir rekast ekki á hana nema fyrir tilviljun á röltinu um þröngar göturnar. Markverðast inni er klausturhluti kirkjunnar frá þrettándu öld en sú er afar fallega skreytt. Hafði rithöfundurinn Victor Hugo þau orð uppi að fallegri klaustur hefði hann aldrei séð. Viðgerðir hafa staðið þar yfir um margra ára skeið og gerðu enn sumarið 2011 en þó er hún opin til skoðunar utan messutíma. Hluti kirkjunnar er nú safn en inngangur í það er við Calle Dormitalería 3-5. Museo Catadrelacio er þó lítt spennandi. Ókeypis er að skoða kirkjuna en punga þarf út 850 krónum til að skoða safnið. Það er opið 10 – 16 alla daga nema sunnudaga. Heimasíðan.

>> Pamplóna virkið (Ciudadela de Pamplona) – Virki Pamplóna fer ekki fram hjá neinum sem stígur út úr rútu í borginni við rútustöðin er við hlið þess. Þar er nú stór og fallegur garður allt í kring og úr lofti má sjá að garðarnir og virkið mynda stjörnu en þannig var virkið byggt í upphafi. Aðeins hluti þess er enn standandi en vel varðveitt og er staðurinn vinsæll til útiveru um helgar. Virkið er á skrá sem þjóðargersemi Spánar. Ókeypis skoðunarferðir með leiðsögn eiga sér stað virka daga á sumrin milli 18:30 og 21 og um helgar milli 12 og 14.

>> Kirkja heilags Nikulásar (Iglesia de San Nicolás) – Önnur kirkja í borginni sem er verð skoðunar fyrir áhugasama er þessi en hún er jafnframt sú eina með rómversku sniði. Tiltölulega einföld í allri hönnun en þó sterkbyggð því nýta átti hana ef til þess kæmi að Frakkar gerðu árás á borgina. Calle San Miguel í gamla bænum. Opin daglega 9:30 til 12:30 og aftur seinnipartinn frá 18 til 20. Aðgangur ókeypis.

>> Virrey höllin (Palacio de Virrey o de Capitánia) – Elsta höllin í borginni er þessi hér frá tólftu öld en hér var bústaður tveggja konunga Navarra héraðs á öldum áður. Höllin er þó aðeins uppistandandi að hluta en við hana hefur verið byggt nýlega á nútímalegan hátt og er forvitnilegt að sjá hvernig til hefur tekist. Hér er nú konunglegt þjóðskjalasafn Navarra. Höllin stendur við Calle Dos de Mayo og er opin 10 til 18 virka daga nema mánudaga. Aðgangur ókeypis.

>> Borgarvirkið (Murallas de Pamplona) – Borgin var ekki aðeins varin fyrir Frökkum með stórkostlegu virki sem nú stendur í miðri borg heldur og einnig með miklum borgarveggjum. Ágætt fjallaútsýni er frá þeim hluta sem enn standa og eru veggirnir heillegir víða. Finnið götuna Paseo de Ronda en eftir henni gengu á öldum áður varðmenn borgarinnar og höfðu auga með öllu.

>> Navarra safnið (Museo de Navarra) – Mikilvægasta safn í Pamplóna og Navarra héraði öllu er þetta hér. Ýmsir gripir, nýir og gamlir, til sýnis hér og fróðlegt fyrir alla sem vilja vita meira um sögu borgarinnar og héraðsins alls. Safnið stendur við Santo Domingo stræti og er opið frá 10 til 14 og 17 til 19 virka daga nema mánudaga og 11 til 14 um helgar. Aðgangur 400 krónur. Heimasíðan.

>> Oteiza safnið (Fundación Museo Jorge Oteiza) – Ágætt safn tileinkað listamanninum Jorge Oteiza sem bæði gerði sjálfur fjölda verka og safnaði öðrum. Það er staðsett níu kílómetra utan við borgina á hæð einni í Alzuza en þaðan er líka dágott útsýni yfir borgina og fjöllin í fjarska. Opið virka daga nema mánudaga 10 – 15 og milli 11 og 17 á laugardögum. Miðaverð 650 krónur. Heimasíðan.

>> Yamaguchi garður (Parque de Yamaguchi) – Í suðvesturhluta borgarinnar er að finna, mörgum að óvörum, stóran og mikinn japanskan garð með tilheyrandi dvergtrjám og plöntum sem koma undarlega fyrir sjónir í fjallaborg á Spáni. Skýringanna er að finna í að japanska borgin Yamaguchi sem er skammt frá Hiroshima er systurborg Pamplóna en garðurinn var gerður árið 1997 og er þegar orðinn afar vinsæll til útiveru heimamanna. Garðurinn er auðfundinn á kortum en stendur við Jardines Calle de la Rioja.

>> San Fermín hátíðin (Sanfermines) – Borgarhátíð Pamplóna er Sanfermines og stendur sú rúma viku árlega. Ýmislegt er þá til dundurs gert en aðalatriðið hefur náð heimsfrægð og má segja að sú Pamplóna sem ferðafólk upplifir yfir hátíðina sé töluvert frábrugðin hinni hefðbundnu Pamplóna. Hér er að sjálfsögðu átt við nautahlaupið margfræga, Encierro, sem dregur að þessa dagana of marga ferðamenn til að hægt sé að njóta borgarinnar ýkja vel. Þá verður allt töluvert mikið dýrara yfir Sanfermines og er borgin þó dýr fyrir. Allt um nautahlaupið hér.

>> Jakobsvegurinn (Camino de Santiago) – Syndaaflausn bíður ekki lengur þeirra sem þramma Jakobsveginn svokallaða en það er ferðalag á tveimur jafnfljótum til borgarinnar Santiago de Compostela í Galisíu. Pamplóna er nú á dögum vinsæll upphafsstaður ferðalagsins en sá hluti sem genginn er hér nær frá Magdalenubrú, gegnum Franska hliðið til Calle Carmen í gamla miðbænum. Meira um Jakobsveginn hér.

>> Taconera garðurinn (La Taconera) – Í rösklega tíu mínútna göngufæri frá gamla miðbænum er að finna elsta og líflegasta garð borgarinnar. La Taconera heitir sá og er óvíða betra að hvíla rass og læri eftir göngutúra yfir sumartímann en þar.

>> Háskólinn í Navarra (Universidad de Navarra) – Pamplóna er ungur bær þrátt fyrir allar hefðir og ástæða þess einfaldlega sú að þetta er háskólabær. Þrír háskólar eru hér í borginni en þekktastur þeirra er Háskólinn í Navarra sem nánast tekur undir sig allan suðurhluta borgarinnar sökum stærðar. Sá þykir líka vera hjúpaður ákveðinni mistík því hann er í eigu Opus Dei. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Nei! Er auðvelt að svara því til að enginn Íslendingur mun gera hér ýkja góð kaup á vörum eða þjónustu. Pamplóna er meðal dýrustu borgar Spánar og þarf ekki lengi að gramsa í verslunum til að sjá það. Þá er vöruúrvalið ekkert stórkostlegt enda hér engar stórar verslunarmiðstöðvar þó nóg sé af smærri verslunum.

Þá skal hafa í huga að borgaryfirvöld hafa reynt að bæla niður þá áráttu verslunareigenda að hækka verð sín aukalega yfir Sanfermines hátíðina en það er nánast regla frekar en undantekning og gildir sama um veitingastaði og gistihús.

Sé þörf á að eyða seðlum burtséð frá verðlagningu er málið að taka stefnuna á Avenida Carlos III sem er langbesta og stærsta verslunargata borgarinnar. Minjagripi er víða hægt að fá í smábúllum í gamla bænum.

Allnokkrir hefðbundnir markaðir eru í borginni en engir bjóða ýkja mikið umfram matvæli og annað slíkt sem ferðafólk alla jafna pakkar ekki í ferðatöskur.

Matur og mjöður

Ekki þarf að fara mörgum orðum um góð vín í boði hér enda Navarra eitt af betri vínræktarhéruðum Spánar og gefur nágrannahéraði La Rioja lítið eftir. Þá eiga heimamenn sinn eigin drykk, Patxaran, sem annaðhvort venst eða ekki. Aspas frá Navarra héraði þykir sá besti á Spáni.

Hvað veitingastaði áhrærir gera engir smárétti, pinchos eða pintxos, eins og Baskar og í Pamplóna eru nokkrir slíkir staðir. Fremstur meðal jafningja er án efa Cafe Bar Gaucho en þær upplýsingar fást seint og illa upp úr heimamönnum sem vilja hafa þennan bar út af fyrir sig. Sá stendur við Calle Espoz y Mina og mun ekki bregðast. Annar sem eðalgóður þykir er Bar Baviera.

Til umhugsunar: Ernest Hemingway eyddi töluverðum tíma hér í Pamplona á sínum tíma og eru ýmsir staðir sem gera enn út á að þar hafi hann gist eða étið eða orðið fullur. Bók hans Og sólin rennur upp er að mestu leyti byggð á ævintýrum hans frá Navarra og Pamplóna.

Þar sem íbúar Pamplóna eru flestir vel settir eru hér raunverulega góðir hefðbundnir veitingastaðir og engir eru hér staðir eins og finnast á suður Spáni þar sem gólfið lítur út fyrir að hafa verið þrifið með matnum og maturinn tekinn upp af gólfinu.

Ritstjórn Fararheill.is mælir alla jafna ekki með veitingastöðum enda smekkur manna misjafn og veitingastaðir koma og fara. Tveir sem eru þó þess virði að prófa eru Casa Otano og Restaurante Alhambra Bergamín. Á þó enginn sem röltir um borgina að eiga í erfiðleikum með að finna víða hreint ágæta staði víðast hvar.

Líf og limir

Stöku vasaþjófar eru hér eins og annars staðar og fregnir hafa borist að konur séu áreittar annars lagið í görðum borgarinnar eftir að dimma tekur. Þess utan er eina hættan af nautunum ef þú tekur sjénsinn að taka þátt í því ágæta hlaupi.

View Larger Map