Þ að er eins og oft áður. Við vitum voða lítið um voða lítið þegar allt kemur til alls. Ein allra ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum sólarinnar á líkama fólks leiðir í ljós að konur sem forðast sólböð eins og heitan eldinn eru tvöfalt líklegri til að deyja fyrir aldur fram en hinar sem sóla sig reglulega.

Hæfileg sólböð lengja lífið og hananú. Mynd Paul Adonis Hunter

Hæfileg sólböð lengja lífið og hananú. Mynd Paul Adonis Hunter

Aldeilis góðar fréttir fyrir allar þær konur sem eiga í erfiðleikum með að fá makann til að flatmaga á sólarströnd lengur en fimm mínútur eða svo. Nú geta þær bent á heilsubætandi áhrifin 😉

Um er að ræða viðamikla könnun á vegum Karólínska í Svíþjóð þar sem fylgst var með 30 þúsund konum yfir 20 ára tímabil. Niðurstöðurnar eru óyggjandi að þær sem njóta sólar í hæfilegu magni lifa lengur en hinar sem reyna að komast hjá sólinni.

Hér er ekki verið að tala um að sleikja sólina allan sólarhringinn alla daga enda verður sól strax hættuleg og bruni gerir vart við sig. En hæfileg sól er til góðs samkvæmt þessu. Hæfileg sól lengir lífið.

Þó rannsókn Svíanna hafi aðeins tekið til kvenna er ekki fráleitt að ætla að  hið sama eigi við um karlmenn enda þeir búnir til að mestu leyti úr sama efni og kvenfólkið 🙂

Rannsóknina í heild sinni má finna á vef Journal of Internal Medicine.