F imm milljónir ferðalanga heimsækja Mallorca ár hvert og margir heillast svo mjög að þeir kaupa sér eignir á eyjunni og ílengjast. Má þannig finna víða á eyjunni finna heilu byggðirnar undirlagðar af Þjóðverjum, Svíum, Rússum og Bretum. Vilja reyndar sumir meina að fleiri útlendingar eigi eignir á þessari stærstu eyju Spánar en Spánverjar sjálfir.

Vinsældirnar helgast af sól, hita og 554 kílómetrum af strandlengju en Mallorca var einn fyrsti staðurinn á Spáni þar sem nútímalegur ferðamannaiðnaður þróaðist og eyjan var um tíma allra heitasti áfangastaður fræga fólksins og annarra sem efni höfðu á að ferðast í heiminum öllum.

Þó Mallorca heilli enn stöku stórstjörnur og enn sé ferðamennskan langstærsti atvinnuvegurinn á eynni hefur vegur hennar minnkað jafnt og þétt. Tilkoma fleiri áfangastaða og betri samgangna haft þar áhrif en mörgum finnst einnig sem hin raunverulega Mallorca sé að mestu horfin bak risahótelum og skemmtigörðum á hverri spildu. Fátt sem er ekta og gerða eyjuna heillandi á sínum tíma er eftir.

Hafi menn áhuga á öðru og meira er helst að ferðast frá ströndunum þar sem enn má á stöku stað finna smáþorp og íbúa sem gefa lítið fyrir húllumhæið kringum ferðamenn.

Það breytir því þó ekki að margir staðir á eynni eru fyrirtaks áfangastaðir fyrir fjölskyldur enda úrval afþreyingar mikið og fyrir marga er það einfaldlega gott frí í hnotskurn.

Til og frá

Einn alþjóðaflugvöllur, Aeropuerto Palma Mallorca, er á eynni og er sá skammt frá höfuðborginni Palma eins og nafnið gefur til kynna. Velflestir ferðamenn koma hingað í skipulögðum ferðum og rútur bíða  þeirra flestra.

Á eynni er líka auðvelt að aka um og bílaleigubíll ekki fráleit hugmynd nema ef vera skyldi að fólk ætli sér aðeins að dveljast í höfuðborginni Palma. Fyrir hefðbundinn fjölskyldubíl með ótakmarkaðan akstur má ætla að fólk þurfi að greiða milli fimm og sjö þúsund krónur á dag.

Tvær rútur ferja fólk til og frá flugvellinum og inn í Palma. Eru það leiðir 1 og 21. Sú seinni stoppar víða á hótelum á leiðinni. Sjá nánar hér.

Rútur fara frá Plaza d´Espanya torginu í Palma til allra helstu þéttbýlisstaða á eynni. Þá eru tvær lestir sem einnig fara reglulega út á land. Önnur er gamaldags lest sem fer fram og til baka yfir Sierra de Tramuntana fjöllin til bæjarins Sóller vestanmegin á eynni og er leiðin falleg. Heimasíðan. Hin lestin fer beint yfir slétturnar til bæjarins Inca með stoppi í fjórum öðrum bæjum á leiðinni. Heimasíðan.

Loftslag og ljúflegheit

Það sem öðru fremur gerir Mallorca svo heillandi er að hitastigið á eynni fer afar sjaldan yfir 30 gráður á sumrin og hending er ef hitastig yfir vetrarmánuðina fer undir tíu gráður. Það skýrist eðlilega af því að hér er um eyju að ræða og sjórinn temprar hitastig á sumrin en bætir við það á veturna.

Verra er að rigning er hér svo sjaldgæf að heimamenn íhuga að setja upp safn með myndum af rigningu. Það þýðir að hér er allt skraufþurrt flesta mánuði ársins og gróður því lítill nema í görðum á hótelum og heimilum.

Allt og sumt

Palma de Mallorca er eina borgin á Mallorca og er höfuðstaður eyjarinnar. Borgin er lítil og fremur hektísk og martröð getur verið að keyra þar um á annatímum. Hér býr sami fjöldi og á Íslandi en borgin sjálf er ekki ýkja merkileg nema elsti hluti hennar innan borgarveggjanna. Þar er hægt að eyða nokkrum dögum í góðu yfirlæti en lengri dvöl hér er líkleg til að skapa vonbrigði.

Samgöngur eru hér fínar en fyrir fölbleikan Jón Jónsson og fjölskyldu frá Fróni er lítil þörf á þeim því það sem merkilegt er að sjá er allt innan borgarveggjanna í elsta hluta bæjarins og þar gæti fótalaus maður séð velflest merkilegt á tveimur dögum eða svo.

Töluvert er hér af verslunum og sé hugmyndin að gera góð kaup samhliða því að sleikja sól er Palma eini staðurinn til þess arna á eynni. Verðlag er þó ekki ýkja sérstakt á spænskan mælikvarða og varla hægt að tala um mikið úrval verslana heldur þó auðvitað séu hér allir hefðbundnu keðjuverslanirnar sem finnast í velflestum borgum.

Nokkuð gott úrval veitingastaða er hér að finna en engir í heimsklassa. Sjávarréttastaðir eru jafnan góðir hér enda er nokkur útvegur frá borginni. Þó eru ansi margir veitingastaðir miðsvæðis sem hafa þann tilgang einan virðist vera að rukka ferðamenn um stórfé. Gott ráð er að labba í einhverja átt út frá miðbænum og finna staði þar sem inni sitja eyjaskeggjar sjálfir. Slíkir staðir bregðast sjaldan og verðlag er yfirleitt mun eðlilegra en þar sem ferðamennirnir halda sig.

Söfn og sjónarspil

>> Ramblan (La Rambla) – Önnur helsta gatan í gamla bænum er Ramblan sem svo er kölluð. Hana er gaman að spássera eftir og taka inn það sem fyrir augu ber. Þar fer jafnan fram blómamarkaður á sumartíma og kaffihús og bari má sjá alls staðar. Þá endar hún á Plaza Mayor torginu sem er aðaltorgið í gamla borgarhlutanum.

>> Dómkirkjan (Catedral Mallorca) – Stórkostlegasta byggingin í Palma og reyndar Mallorca allri er tignarleg dómkirkjan sem er dómkirkja eyjarinnar allrar. Er hún meðal fallegri kirkja á Spáni og gjarnan kölluð La Seu meðal heimamanna. Byggð úr sandsteini og hófst bygging hennar árið 1230 en ekki var lokið við hana fyrr en á sautjándu öld. Þó kom hér maður einn snemma á síðustu öld og endurhannaði hana meira og minna að innan en sá var þá þegar orðinn frægur fyrir merkilegar smíðar sínar í Barcelona. Antoni Gaudí hét hann. Frá suðurveröld kirkjunnar er stórfengleg útsýn yfir Baleares hafið. Aðgangur að kirkjunni fæst aðeins gegnum safnið þar sem saga kirkjunnar og kaþólikka almennt á eynni er rifjuð upp. Þar má einnig sjá fjölmarga gripi sem varðveist hafa um aldaraðir og tengjast kirkjunni á einn eða annan hátt. Safnið og kirkjan eru opin alla virka daga milli 10 og 18. Hún sést víða að en strætisvagn 127 stoppar beint við hana. Aðgangur 650 krónur. Heimasíðan.

>> Miro safnið (Fundacion Pilar y Joan Miró) – Listamaðurinn frægi bjó hér í borginni og eftir dauða hans og konu hans var húsi þeirra breytt í þetta safn við götuna Carrer Joan de Saradikis. Líki mönnum verk hans er þetta möst stopp enda töluvert af verkum hins katalónska listamanns hér að finna. Strætisvagnar 3 eða 6. Opið 10 – 19 alla daga nema sunnudaga þegar safnið lokar klukkan 15. Lokað á mánudögum. Aðgangseyrir 950 krónur en frítt fyrir yngri en 16. ára. Heimasíðan.

>> Bellver kastalinn (Castillo de Bellver) – Í vesturhluta borgarinnar við Camilo José Cela götu er að finna þennan þrettándu aldar kastala sem mörgum þykir bera af öðrum. Er hann hringlaga sem gefur til kynna austurlensk áhrif við hönnunina og byggingu hans. Eru þeir ekki margir slíkir á Spáni. Héðan er ágætt útsýni yfir borgina og út á sjó og hluti kastalans er opinn ferðamönnum til skoðunar. Opið 8 – 21 daglega en frá 10 á sunnudögum.

>> Mallorca safnið (Museo de Mallorca) – Þetta safn þykir ágætt skoðunar hafi fólk áhuga á sögu Mallorca og eyjaskeggja en er engan veginn ómissandi að mati ritstjórnar Fararheill. Helstu dýrgripir safnsins eru munir sem fundust árið 1984 í helli á eynni og eru frá rómverskum tímum. Calle de la Portella örstutt frá Dómkirkjunni. Opið 10 – 19 alla daga nema sunnudaga þegar opnunartíminn er 10 – 15. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Spænska þorpið (Poble Espanyol) – Annað athyglivert í vesturhluta Palma er Spænska þorpið þó vissulega sé sterkur ferðamannafnykur af staðnum. Hér er búið að koma fyrir á litlu svæði eftirlíkingum af mörgum frægustu byggingum Spánar og hefur tekist bærilega til. Enn skemmtilegra er að í nokkrum þeirra hafa iðnverkamenn komið sér fyrir og vinna þar vinnu sína. Hingað aka svokallaðir túristastrætisvagnar. Opið 9 – 20 daglega.

>> Biskupssafnið (Museo de Diocesano) – Þvert gegnt Dómkirkjunni fallegu er fyrrum Biskupssetur Mallorca en því hefur verið breytt í safn. Hafi menn ekki fengið sig fullsadda af trúarlegum munum og minjum í kirkjunni sjálfri er þjóðráð að reka nefið inn hér. Opið mánudaga til laugardags frá 10 – 14. Aðgangseyrir 600 krónur.

Til umhugsunar: Bæði Spænska þorpið og Bellver kastalinn eru strangt til tekið í göngufæri frá miðbænum en það er nokkuð labb og töluvert upp í móti sem getur verið æði erfitt þegar sól er hátt á lofti. Ráð er að taka leigubíl þennan spotta.

>> Almudaina höllin (Palacio de la Amudaina) – Annað fyrirbæri vert skoðunar nálægt Dómkirkjunni er þessi höll sem var áður fyrr var dvalarstaður márískra fyrirmanna og síðar notað sem virki gegn Rómverjum. Enn síðar sat hér konungurinn þegar Mallorca var sjálfstætt konungsríki. Hluti hússins er opinn til skoðunar en byggingin heyrir undir spænska herinn í dag. Hér er líka Þjóðarsafnið, Museo Nacional, til húsa og garðarnir eru sannarlega yndislegir. Opið 10 – 18 virka daga. Miðaverð 800 krónur.

Í Palma eru ein fimm smærri listasöfn til viðbótar sem helst heilla áhugafólk en komast vart á kort hins hefðbundna ferðamanns sem vill aðeins rölta um borgina í hægðum sínum og njóta lífsins. Má þar nefna Case Oleo við Calle Almudaina, leifar gömlu arabísku baðanna í Casa Font y Roig eru skoðunar verð en þau finnast skammt frá Mallorca safninu við Calle Serra.

Þá er yndislegt að setjast niður í Sjávargarðinum, Parque del Mar, fyrir neðan dómkirkjuna en þar má meðal annars sjá stóra veggmynd eftir Miro. Við Plaza de San Francisco torgið er samnefnd kirkja sem heillar suma. Þá leggja sumir leið sína að ráðhúsi Palma, Ajuntamiento við Plaza Cort, en sú bygging er falleg. Allt ofantalið er að finna í göngufæri í gamla bæjarhlutanum.

Sædýrasafn borgarinnar er ágætt heimsóknar líka og ekki hvað síst ef smáfólk er með í för. Palma Aquarium er staðsett við Manuela de los Herreros götu og er í raun meira eins og sjávardýragarður en lokað safn. Miðaverð er 3.200 krónur fyrir alla yfir tólf ára aldri.

Verslun og viðskipti

Fjögur svæði eru hvað vænlegust til verslunar í Palma þó hafa beri í huga að verðlag er í hærri kantinum miðað við Spán almennt.

Mest úrval verslana og það þekktra er að finna milli Plaça Weyler og Avinguda Jaume III. Þar eru velflestar þær búðir sem finna má í öðrum borgum heims en þetta er einnig dýrasta svæðið. Sérstaklega er Carrer de Bonaire háklassa verslunargata.

Við Römbluna er sem áður segir töluvert úrval hefðbundinna verslana og nokkuð um götusala hér. Þar er líka Oliver markaðurinn þar sem vörur frá Mallorca eru seldar á yfirverði en úrvalið er gott. Ramblan er óumdeilanlega ein mest heillandi gata borgarinnar.

Sé handgerðir munir á kauplistanum er best að þvælast um göturnar við ráðhúsið en þar halda sig handverksmenn og margir vinna sína vinnu fyrir opnum dyrum. Sem fyrr er verðlag hátt enda fyrst og fremst verið að freista ferðamanna.

Skemmtilegast verslunarhverfið er að finna milli Plaça del Cort og Plaça de la Reina. Þar ægir saman hinum og þessum misþekktum verslunum.

Líf og limir

Borgin er örugg að flestu leyti ef notast er við heilbrigða skynsemi. Lögreglumenn eru áberandi í miðbænum og helsta hættan er stuldur sem eðlilega fyrirfinnst hér sem annars staðar. Peningabelti er sniðug hugmynd á röltinu en raunin er að þjófnaður er minni hér en víða annars staðar á Spáni.

Þægilegt eða þrúgandi

View Larger Map