Áhugakylfingar eru æði spennandi markhópur fyrir innlendar ferðaskrifstofur og ástæðurnar margvíslegar. Slíkt fólk á oftar en ekki peninga til að eyða og er svo gegnumsýrt af golfbakteríunni að það gerir nánast hvað sem er til að komast á völlinn.

Golf á Lingfield Park er ekki leiðinleg iðja

Golf á Lingfield Park er ekki leiðinleg iðja

GB Ferðir hafa verið hvað ötullastir við að bjóða landanum styttri golfferðir til Englands eða Skotlands og á vef þeirra nú má sjá að þeirra ódýrasta ferð þetta haustið, flug, gisting og golf á Lingfield Park í Surrey er meira eða minna uppseld. Sú þriggja daga ferð með fjórum hringjum kostar 99 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman og er barasta dágott miðað við margt annað.

En þó það hljómi bærilega kostar þessi pakki kannski nokkuð meira en meðaljóninn má missa og hvað er þá til ráða?

Þessa stundina er Wow Air til dæmis með tilboð til London á 12.900 krónur og ferðatíminn í lok ágúst og fram í byrjun september. Tveir vinir, tvær vinkonur eða par gæti bókað þar flug fram og aftur til Gatwick fyrir 26.700 á mann plús sex þúsund krónur fyrir golfsettið á mann eða samtals fyrir 32.700 krónur á mann og 65.400 fram og aftur.

Strax í kjölfar þess er hægt að fara inn á síður hótela í eða við London sem bjóða upp á golfpakka og skoða hvað í boði sé en langflest bjóða einhver tilboð flestum stundum.

Svo við tökum Lingfield Park sem dæmi er þar hægt að fá herbergi tvær nætur og þrjá golfhringi plús þríréttaðan kvöldverð og morgunmat á sérkjörum nú eða fyrir 38.900 krónur á mann miðað við tvo saman. Samtals kostnaður fyrir tvo því 77.800 krónur.

Flugið, gistingin og golfið fæst með þessu móti á alls krónur 143.200 krónur fyrir báða aðila í stað 198 þúsund króna hjá GB Ferðum. Vissulega nótt skemur og einum hring minna en ferð GB Ferða en séu vasar eða bankabókin ekki troðin er þetta ein leið til að leyfa sér smá lúxus án þess að eyða alltaf formúgum til.

Svo má vitaskuld finna ódýrari hótel og golfvelli en Lingfield Park ef út í það er farið.