A ð öðrum ólöstuðum er danska borgin Odense með eitt fallegasta íslenska nafn sem ein borg getur mögulega átt. Nafnið Óðinsvé er ekki aðeins dularfullt heldur og kynngimagnað og það lýsir barasta nokkuð vel þessari skemmtilegu dönsku borg.
Óðinsvé er stærsta borgin á eyjunni Fjóni og jafnframt höfuðborg þess hluta Danmerkur. Hún er einnig þriðja stærsta borgin í landinu á eftir Kaupmannahöfn og Árósum og stendur rösklega miðja vegu milli Jótlands og Sjálands.
Ekki eru til ýkja gamlar heimildir um borgina en þó hafa fundist víkingaleifar við fornleifagröft á eynni og því ljóst að hér voru menn að vega hvern annan að þeirra sið á öldum áður. Fyrstu skriflegu heimildirnar sem varðveist hafa eru þó aðeins frá árinu 988. Nafnið er þó talið koma frá víkingum er tilbáðu Óðinn.
Ekkert minnir þó á víkinga í þessari nútímalegu borg sem hefur þann sjarma fyrir Frónbúa frá strjálbýlu landi að hún er þægilega stór. Hér búa nógu margir til að líf er í menningu og á götum og verslanir fínar en ekki of stór til að ekki sé með góðu móti hægt að kynnast fólki sísona. Hér búa rösklega jafnmargir og á Íslandi ef frá eru talin ungmenni undir fimmtán ára aldri eða 185 þúsund manns.
Út á við er borgin þó fyrst og fremst þekkt fyrir einn einasta hlut. Hún er fæðingarstaður hins mikla ævintýraskálds H.C. Andersen.
Til og frá
Hér er lítill flugvöllur en hann er ekki brúkaður til neins nema einkaflugs. Hingað er því aðeins komist bílandi eða mest lest eða rútu frá Kaupmannahöfn eða Billund sé fólk að koma frá Íslandi.
Frá Kastrup flugvelli ganga IC lestir gegnum Kaupmannahöfn og áfram til Sjálands. Stoppað er í Óðinsvé og tekur ferðin þangað rúmar tvær klukkustundir frá flugvellinum. Miðaverð aðra leiðina er 6.300 krónur fyrir manninn. Vefur DSB, dönsku járnbrautanna, hér.
Frá Billund er engin lest alla leiðina svo fara verður á bíl eða með rútu til bæjanna Kolding eða Vejle og þaðan taka lestina til Óðinsvé. Tekur það ferðalag allt aldrei skemur en tvær klukkustundir.
Þriðji möguleikinn er að leigja bílaleigubíl og ólíkt mörgum öðrum löndum Evrópu er leikur einn að keyra um í Danmörku. Það gildir líka um borgir og bæi og þarf enginn að óttast neitt annað en góðvild í umferðinni. Með bíl er komist til Óðinsvé frá Billund á klukkustund en eina og hálfa stund þarf frá Kaupmannahöfn.
Til umhugsunar: Þeir sem keyra frá Kaupmannahöfn hafi í huga að það er tollur á Stórubeltisbrúnni sem tengir Sjáland og Fjón. Sá tollur er 4.300 krónur.
Söfn og sjónarspil
Þótt Óðinsvé sé ekki í neinum heimsklassa hvað listir og menningu varðar þá skal hafa kyrfilega í huga að hér líður langflestum afskaplega vel. Það er þessi mátuleg-stærð-af-skemmtilegri-borg stemmning sem erfitt er að lýsa í orðum en auðvelt að upplifa á eigin skinni. Segja má að í allt markvert hvort sem það eru verslanir, barir eða sjónarspil þá er það allt saman í tíu til fimmtán mínútna gönguradíus frá miðbænum.
>> Klæðafabrikka Brandts (Brandts Klædefabrik) – Lista- og menningarmiðstöð borgarinnar er fabrikkan hans Brandts í miðborginni. Reglulegar og mismunandi sýningar á verkum hinna og þessara og auk þess sérverslanir, kvikmyndahús og barir í sömu byggingu. Eðalstopp alveg. Heimasíðan.
>> Carl Nielsen safnið (Carl Nielsen Museet) – Carl Nielsen er eitt af vinsælustu klassísku tónskáldum Dana og hér er lífi hans og verkum gerð góð skil en karlinn fæddist í grenndinni. Reglulegir viðburðir hér í gangi og hér spilar Sinfóníuhljómsveit borgarinnar. Claus Bergs götu númer 9. Heimasíðan.
>> Járnbrautasafnið (Jernbanemuseum) – Fjögurra stjörnu safn að mati safnarhaldara sjálfra en það á sennilega aðeins við um þá sem áhuga hafa á sögu dönsku járnbrautanna og að skoða gamlar og nýjar lestir og önnur þau farartæki sem notuð voru til að ferja fólk milli staða. Inngangur við Dannebrogsgötu. Opið 10 til 16 alla daga. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.
>> Hús H.C. Andersens (H.C. Andersens Hus) – Við Bangs Böder götu númer 29 er fyrrum fæðingarheimili skáldsins vinsæla og er það langvinsælasti áfangastaður ferðamanna í Óðinsvé. Reyndar er deilt um hvort karlinn hafi fæðst hér og aldrei staðfesti hann það sjálfur þegar hann var og lifði. Ekkert frámunalega stórkostlegt enda full túristalegt en þó forvitnilegt að sjá muni sem karlinn átti og notaði. Þá eru hér reglulega viðburðir aðrir. Opið 10 til 16 á veturna en 10 til 17 á sumrin. Aðgöngumiði 1.300 krónur. Heimasíðan.
>>Dýragarðurinn (Odense Zoo) – Einn af betri dýragörðum landsins er í Óðinsvéum. Ákjósanlegt stopp sé smáfólk með í för. Garðurinn er aðeins fyrir utan borgina en hægt er að sigla þangað frá Óðinsvé. Söndre Boulevard. Opið 10 til 16 yfir veturinn en 9 til 18 á sumrin. Aðgangur frá 2.800 til 3.500 eftir árstíma. Heimasíðan.
>> Dómkirkjan (Odense Domkirke) – Þurfi fólk á andlegum stuðningi að halda á ferð sinni um Óðinsvé er hægt að bregða sér inn í dómkirkju borgarinnar. Sú er ágæt til brúksins en hér er ekkert sem fer á póstkortið heim. Klosterbakken 2. Opin daglega. Frítt inn. Heimasíðan.
>> Fjónski bærinn (Den Fynske Landsby) – Þetta er að öðrum ólöstuðum merkilegasta safnið á Fjóni. Hér undir beru lofti er búið að koma upp hefðbundnu þorpi frá átjándu öld komplett með vindmyllu og göngustígum. Sérstök stemmning að labba hér um og auðvelt að ímynda sér hvernig hlutirnir voru og þakka sínum sæla fyrir að vera uppi í dag. Safnið er í 30 kílómetra fjarlægð frá borginni en yndislegast að fara þangað með báti frá Munke Mose í borginni. Einnig er komist með strætisvögnum 110 og 111. Fyrir göngufólk er ljúft að rölta að safninu eftir Odense ánni en sá túr tekur um 40 mínútur. Sejerskovvej 20. Opið 10 til 17 alla daga. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.
>> Egeskov kastalinn (Egeskov Slot) – Einn heillegasti og fallegasti kastali í landinu er Egeskov kastalinn sem er í 30 kílómetra fjarlægð frá Óðinsvé. Það sem meira er hér er sett á svið miðaldastemmning með leikjum og uppákomum yfir sumartímann og starfsmenn allir í fatnaði þess tíma. Sjálfur er kastalinn afar fallegur. Lest að Kværndrup og strætisvagn 920 þaðan til kastalans. Opinn 10 til 18 daglega. Aðgangseyrir 1.600 krónur. Heimasíðan.
>> Golfklúbbur Óðinsvé (Odense Golfklub) – Til suðurs af borginni er ágætur golfvöllur við Hestehaven. Þangað er aðeins komist með bíl en keyrslan stutt. Hringurinn kostar frá 7.500 til 8.500. Ekki er tekið við kreditkortum. Heimasíðan.
>> Ævintýragarður H.C. Andersen (Eventyrhaven) – Garður tileinkaður minningu rithöfundarins vinsæla. Hér er stytta af karli í fullum herklæðum og leiktæki fyrir smáfólkið.
Verslun og viðskipti
Eftir fall íslensku krónunnar 2008 hefur Danmörk öll orðið dýrari og dýrari með hverju árinu og eðlilega gildir það sama um Óðinsvé. Hér er bærilegt úrval af verslunum og meira að segja er hér stærsta verslunarmiðstöð í landinu; Rosengårdcentret við Ørbækvej. Þar eru 145 verslanir undir einu þaki.
Þess utan er fjöldi smærri verslana um allan miðbæ og af nógu að taka ef verðlagið væri kannski örlítið meira Íslendingum í hag.
Líf og limir
Borgin er tiltölulega örugg eins og velflestar borgir Danmerkur. Á stöku svæðum halda sig fíkniefnaneytendur og rónar en það er ekki í alfararleið. Er þó sjálfsagt mál að hafa varann á sér og sérstaklega þegar kvölda tekur.
View Allt það áhugaverðasta í Óðinsvé í Danmörku in a larger map