Tíðindi

Ný hraðtilboð Icelandair

  22/03/2012janúar 9th, 2015No Comments

Dagurinn er góður íslenskum neytendum í ferðahug. Fararheill hefur áður greint frá tilboðum Plúsferða og Heimsferða sem fóru í sölu í dag og næsta sólarhringinn bætist Icelandair í hópinn með fjögur hraðtilboð.

Að þessu sinni er boðið upp á ferðir til Bergen í Noregi, Helsinki í Finnlandi, Amsterdam í Hollandi og Halifax í Kanada á lægra verði en gengur og gerist.

Til Bergen er frá hádegi og næsta sólarhring komist til Bergen aðra leið fyrir 14.900 krónur og 28.500 báðar leiðir en fljúga verður milli 26. apríl og 6. júní. Óvitlaust er að planta rassi í þotu fyrir 17. maí sem er þjóðhátíðardagur Norðmanna og þá er húllumhæ á götum og torgum bæði í Bergen sem annars staðar.

Merkilegt nokk er sama verð í boði til Helsinki sem þó er talsvert lengra að fljúga. Önnur leiðin á 14.900 og báðar á 27.900 sem telst fantagott verð. Fljúga verður milli 11. apríl og 20. júní en þá er meðal annars hægt að troða sér á tónleika Michael Bublé í borginni þann 20. apríl.

Amsterdam er aðeins dýrari á 16.900 krónur önnur leiðin og 35.100 fram og til baka. Flugtíminn einnig takmarkaðri milli 17. maí og 30. júní. Hér stíga meðal annarra á stokk rokkhljómsveitin Pearl Jam þann 26. júní og til margir verri hlutir en berja þá sveit augum.

Halifax er dýrust að þessu sinni en önnur leiðin þangað býðst á 24.900 og báðar á 52.200. Hins vegar gefst færi á að sjá borgina í sumarskrúð því flugtími er einskorðaður milli 7. júní og 10. júlí. Þó Fararheill þyki ekki mikið til borgarinnar koma er aðra sögu að segja um Nova Scotia í heild og eðalfínt að þeysa þar um á óvélknúnu eða vélknúnu ökutæki og taka inn náttúruna sem svipar nokkuð til heimahagans.