Tíðindi

Myanmar funheitur áfangastaður

  22/03/2012janúar 9th, 2015No Comments

Gangi þér vel að finna gistingu í Myanmar þessa dagana. Hún finnst sennilega en þá líklega á verði sem er fjarri því sem ferðalangar eru vanir að greiða fyrir gistingu í suðaustur Asíu.

Myanmar hefur á örfáum mánuðum orðið einn heitasti ferðamannastaður heims enda skammt síðan yfirvöld þar léttu á takmörkunum til heimsóknar. Ekki furða því Myanmar hefur verið lokaðasta land Asíu um langt skeið og því orðið af öllum þeim tekjum sem ferðamenn færa.

Slíkir staðir sem eru enn lausir við fjöldatúrisma heilla æði marga enda fáir slíkir eftir. Svo marga raunar að flókið er að fá gistingu á verði sem er ekki út úr korti samkvæmt fréttum AP. Stríður straumur ferðamanna er nú til landsins og slík er eftirspurnin að meira að segja flugfélög sem þangað fljúga eru farin að setja fólk á biðlista.

Framundan eru fyrstu frjálsu kosningar í landinu um langt skeið og ljóst að ný stjórn, hver sem hún verður, verður að íhuga vandlega með hvaða hætti eigi að auka ferðamennsku í landinu. Skal fara leið Tælands sem margir tala um sem Spán Asía sökum þess hve túrismi tröllreið þar öllu á fimm mínútum eða svo eða reyna með einhverjum hætti að takmarka fjöldann áfram og selja þá þjónustu alla dýrari fyrir vikið?

Allavega er ljóst að hvorki hótel, gististaðir né ferðaþjónustufyrirtæki í landinu eru undir það búin að taka á móti þeim hundruðum þúsunda sem nú sækja landið heim og á meðan svo er geta allir þessir aðilar stórhækkað verð sín enda eftirspurn verulega umfram framboð. Á móti kemur að Myanmur nú og eftir nokkur ár verður líklega tvennt ólíkt og þess sennilega ekki langt að bíða að fyrst McDonalds eða Starbucks staðirnir hífi upp skilti í helstu borgum landsins.