Skip to main content

T vennum sögum fer af borginni Napolí meðal þeirra sem þar hafa dvalið til lengri eða skemmri tíma. Ýmsum þykir borgin bæði falleg og andrúmsloftið almennt mjög gott meðan aðrir setja fyrir sig óhreinindi og háa glæpatíðni.

Napolí hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Lengi vel var samasemmerki milli Napolí og Amalfi strandar þegar sá staður þótti einn sá heitasti meðal flotta og fræga fólksins á sjöunda og áttunda áratugnum. Og víst er nóg að hafa og upplifa í borginni og hér þarf engum að leiðast nema hann sjálfur kjósi.

Borgin hefur þó tekið leiðinlegum breytingum í áranna rás og ekki síst síðastliðinn 30 ár eða svo. Glæpir eru tíðir og undir yfirborðinu ráða hér mafíósar ýkja miklu um verslun og viðskipti í borginni.

Napolí er höfuðborg Campania héraðsins og er langstærsta borgin í suðurhluta Ítalíu. Hún byggðist fyrst sjö öldum fyrir Krist af Grikkjum og kallaðist þá Neapolis eða Nýborg.

Napolí stendur við afskaplega fallegan samnefndan flóa og í fjarska stendur hið volduga eldfjall Vesúvíus og minnir borgarbúa sýknt og heilagt á að allt er skyndilegum breytingum háð. Það er eina eldfjallið á meginlandi Evrópu sem gosið hefur síðastliðin hundrað ár eða svo.

Borgin sjálf hefur töluverðan sjarma og þá allra mest gamli hluti hennar sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Töluvert hefur verið gert undanfarin ár til að laða að fleiri ferðamenn en það aðeins tekist upp að vissu marki því enn flestir sem hingað koma dúlla sér  meira í smáþorpum við Amalfi strönd og láta styttri dagsferðir til borgarinnar sjálfrar duga.

Þá er og merkilegt að innfæddir tala mállýsku sem engir aðrir á Ítalíu tala. Það er blanda ítölsku og Napulato en síðarnefnda málið er arfleifð frá gömlum tímum þegar Spánverjar, Frakkar og Grikkir voru hér á vappi. Napulato er svo mikið til tungumál þeirra sem sunnan fyrir Napolí búa.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Napolí er Capodichino og er nánast inni í borginni í aðeins sjö kílómetra fjarlægð frá miðborginni til norðausturs. Völlurinn sjálfur er meðalstór og nokkuð annríki þar flestum stundum.

Ágætar samgöngur eru inn í borgina héðan. Leigubílar fyrir utan í stríðum straumum og rúlla fólki inn í miðborg fyrir 3.500 krónur ef farið er eftir mæli en í Napolí er yfirleitt hægt að prútta um alla skapaða hluti og ekki síst við leigubílstjóra. Far niður í bæinn ætti þó aldrei að fara yfir 4.000 krónur.

Flugskutlur eru hér líka og kannski þægilegri ef margir eru saman eða farangur mikill. Þar má semja líka en varla komist neðar en 6.000 krónur fyrir fullan bíl af fólki.

Tveir strætisvagnar fara í miðbæ Napolí reglulega. Svokallaður Alibus fer að Piazza Garibaldi sem er mjög miðsvæðis við aðallestarstöð borgarinnar. Farið kostar 650 krónur og vagninn er fljótur í ferðum því lítið er stoppað á leiðinni. Strætisvagn C58 fer einnig að Piazza Garibaldi en sá fer krókaleiðir og stoppar víða og er því lengur á ferð. Fargjaldið er þó ódýrara eða um 400 krónur.

Samgöngur og skottúrar

Sé einhver regla á umferðinni í Napolí er það ennþá vel geymt leyndarmál og þeir eru fáir erlendu ferðamennirnir sem hafa þor til að setjast undir stýri í borginni. Umferðin hér er vægast sagt geðveik, hávaði gríðarlegur, engin virðing borin fyrir neinum og vanfundinn er heimamaður sem fer eftir umferðarreglum eða umferðarljósum. Það er því í stuttu máli tómt rugl að fara um í borginni á bíl.

Það er reyndar mikið heilræði til fótgangandi líka að hafa mikla varúð á sér þegar farið er yfir götur því fáir ökumenn sýna því minnstu viðbrögð þó lifandi manneskja verði á vegi þeirra. Að þessu sögðu er hægt að skoða borgina með ýmsum hætti.

Hér eru bæði lestir og neðanjarðarlestir, strætisvagnar, kláfar, bátar, ferjur og svifnökknar sem þvælast um með borgarbúa öllu jöfnu.

Sé asi á fólki eru leigubílar fljótastir um borgina en þeir eru þó almennt fremur dýrir og allmargir þeirra eins ólöglegir og hægt er. Gæta skal þess að taka aðeins skráða leigubíla með borgarmerkinu á hurðum og mæli sem virkar. En auðvitað er alltaf hægt að prútta.

Sökum þess að mismunandi fyrirtæki reka mismunandi leiðir er nokkuð flókið að átta sig á samgöngukerfinu í Napolí og virðast Ítalir ekki nenna að drusla eins og leiðakorti á netið svo vel sé. Hér má þó sjá strætisvagnaleiðir þó fólk verði reyndar að þekkja götunöfn til að nýta sér það í þaula. Og hér eru næturvagnar ef einhver skyldi vakna á ókunnum stað um miðja nótt. Allan vara skal hafa á í vögnunum enda vasaþjófar fremur algengir. Enn verra er að vagnarnir eru oftar en ekki troðfullir og sæti alls ekki gefin þó komist sé um borð.

Til umhugsunar: Stakir farmiðar gilda í öll samgöngutæki í 90 mínútur og kosta 190 krónur. Vænlegra er dagspassi sem einnig gildir í allt allan daginn og kostar 550 krónur. Fæst hann víða í borginni.

Lestarkerfið er gagnslítið fyrir ferðafólk hér nema til að yfirgefa borgina eða heimsækja úthverfi en jarðlestakerfi borgarinnar er ágætt og öruggara en aðrir samgöngumöguleikar. Það samanstendur þó aðeins af tveimur línum, 1 og 6, en línur 2,3,4 og 5 eiga við um kláfa sem ferja fólk einnig milli staða í borginni. Er það Metronapoli sem rekur kerfið og má finna leiðalýsingar á vef þeirra hér. Gróflega má segja að Linea 1 tengi miðborgina við hverfin í hæðunum meðan Linea 6 tengi miðborgina við úthverfi til vesturs.

Kláfarnir fjórir fara aðeins stuttar leiðir og nýtast ferðafólki lítið Fjórir sporvagnar að auki þvæla fólki um borgina. Leiðakerfið þeirra hér.

Allnokkrar ferjur, farþegaskip og svifnökkvar fara reglulegar ferðir frá höfninni í Napolí til nálægra borga eða eyja og sumar lengri ferðir. Ferjurnar fara nánast allar frá Molo Beverello eða Pozzuoli.

Söfn og sjónarspil

Napolí er sannarlega stútfull af forvitnilegum minjum og byggingum. Margt er líka að sjá í næsta nágrenni borgarinnar. Amalfi ströndin er stórkostleg og ekki má gleyma hinum grafna bæa Pompeii sem auðvelt er að heimsækja héðan.

Til umhugsunar: Campania kortið sem hægt er að kaupa víða í borginni veitir ferðafólki frían aðgang að mörgum helstu söfnum og merkisstöðum í borginni að Pompeii meðtaldri. Sum þeirra korta gilda einnig í öll samgöngutæki borgarinnar.

>> Eggjakastalinn (Castel dell´Ovo) – Þessi skrýtni kastali við suðvesturhöfnina í borginni dregur nafn sitt af þjóðsögu sem segir að frægt skáld fyrri tíma hafi í grunni kastalans falið töfraegg eitt. Verði það fyrir skemmdum hrynur kastalinn. Hann er enn á sínum stað og er vinsæll hjá elskendum í borginni enda rómantískur baðaður ljósum á kvöldin þó deila megi um fegurðargildið á daginn. Hann stendur á þeim stað sem fyrst var byggðist eftir komu grískra landnema en þeir settust einnig að á eynni Ischia rétt fyrir utan borgina.

>> Nýi kastalinn (Castel Nuovo) – Nýi kastalinn er ekki alveg spánnýr því hann var upprunalega byggður á elleftu öld en hefur verið endurbyggður nokkrum síðum síðan. Töluvert áhrifameiri en Eggjakastalinn og er tákn byggingalistar í Napolí fyrr á öldum. Annar plús í kladdann er að hér er til húsa helsta þjóðminjasafn borgarinnar, Museo Civico di Castelnuovo, sem hýsir fjölda verka en helst þó eftir ítalska listmálara frá 19. öld. Er það kjörið til að skoða kastalann í leiðinni. Opið daglega nema mánudaga 9 – 19. Aðgangseyrir 850 krónur. Heimasíðan.

>> Capodimonte safnið (Museo Nazionale di Capodimont) – Eitt allra besta safn borgarinnar og reyndar Ítalíu allrar. Safnið er formlega borgarsafn Napolí og stútfullt af verkum eftir marga af helstu listmálurum Ítalíu og sérstaklega þeim frá Campania héraði. Það stendur við Via Miano götu og þangað er komist með strætisvögnum 24 eða C65. Miðaverð 1.400 krónur. Heimasíðan.

>> Borgarminjasafnið (Museo Archeologico Nazionale) – Það er hér sem hið opinbera Þjóðminjasafn Ítalíu er til húsa og það er ekki síður fróðlegt skoðunar eins og gefur að skilja í þessu landi með alla þessa sögu. Mest er þó áherslan á muni frá Campania héraði og má hér meðal annars sjá fjölda muna sem grafnir hafa verið upp eftir eldgosið í Pompeii. Fróðlegt mjög og jarðlest beint á staðinn. Safnið stendur við samnefnt torg Piazza Museo Nazionale og er opið 9 – 19:30 alla daga nema þriðjudaga. Aðgangur kostar 1.600 krónur. Heimasíðan.

>> San Martino safnið (Certosa e Museo di San Martino) – Fallegt fyrrum munkaklaustur sem breytt hefur verið í safn um borgina og sögu hennar. Klaustrið sjálft fallegt og flott útsýn yfir borgina frá görðum þess. Safnið sjálft merkilegt enda saga Napolí forvitnileg mjög. Klaustrið stendur við Largo San Martino götu. Opið daglega 8:30 til 19. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.

>> Minningargarðurinn (Parco Virgiliano) – Ys og lætin í Napolí geta farið í taugarnar á allra slakasta fólki og þá er þessi garður í Posillipo príma stopp enda tiltölulega fallegur og rólegur. Best er þó fagurt útsýnið yfir borgina enda stendur garðurinn hátt og er þetta einn af fáum stöðum þar sem sjá má allan Napolí flóann. Það er annar garður sem ber sama nafn í miðborginni en sá er lítt yndislegur.

>> Torg hins nýja Jesú (Piazza del Gesú) – Lítið innilokað torg í vesturhluta gamla borgarhlutans þar sem sjá má þrjá staði í borginni sem merkilega má telja. Fyrst og fremst er það Kirkja hins nýja Jesú, Gesú Nuovo, sem var höll aðalsmanns áður en regla Jésúíta lagði bygginguna undir sig. Er framhlið kirkjunnar merkileg í barrokk stíl og er upprunaleg frá 1470. Gengt kirkjunni er svo Santa Chiara klaustrið sem þykir merkilegt fyrir afar fallegan garð og skreytingar. Síðast en ekki síst er hér að finna San Severo kapelluna með þekktum skúlptúrum úr marmara um alla byggingu.

>> Undirgöng Napolí (Napoli Sotterranea) – Djúpt undir miðaldakirkjunni San Lorenzo Maggiore við Vico S. Anna di Palazzo strætið er að finna mikil undirgöng í allar áttir en þar má meðal annars finna leifar hinnar rómversku borgar sem nútímaborgin var byggð á. Göngin gengdu líka hlutverki sprengjuskýlis fyrir íbúa í Seinni heimsstyrjöldinni. Eingöngu hægt að skoða með leiðsögn þrívegis á dag og hittist hópurinn í Bar Gambrinus við Trieste e Trento torgi. Tekur rúnturinn klukkustund. Heimasíðan.

>> Capodimonte katakomburnar (Catacombe di San Gennero) – Napolí eins og aðrar gamlar borgir Ítalíu á sínar katakombur í iðrum jarðar þar sem látnir voru lagðir á miðöldum. Þessar katakombur þó sérstakar að því leyti að þær eru eru á tveimur hæðum og á þeirri efri er merkileg basilíka hogginn djúpt inn í vegginn. Tvær aðrar minni katakombur er einnig að finna í borginni. Í boði er leiðsögn um þær allar og það að kvöldlagi ef einhver þorir. Skoðunarferðir annars á klukkustundarfresti 9 til 17 alla daga nema sunnudaga. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Duomo di Napoli) – Þessi mikilvægasta kirkja borgarinnar og sæti erkibiskups í landinu er einnig þekkt meðal heimamanna sem Cattedrale di San Gennaro. Kirkjan sú er ekki ýkja stór en falleg og áberandi á götu sem ber sama nafn. Innifyrir er mikið safn dýrgripa og muna sem vert er að líta augum. Kirkjan er opin daglega 8 til 12 og aftur sídegis frá 17 til 20. Á sunnudögum aðeins milli 9 og 12. Heimasíðan.

>> Girolamini safnið (Quadrería dei Girolamini) – Lítið en afar fjölbreytt listasafn sem staðsett er gengt dómkirkjunni á efri hæð klausturs Oratoríureglunnar. Fjöldi verka ítalskra listamanna með áherslu á barrokktímann. Aðgangur ókeypis sem skemmir aldrei. Heimasíðan.

>> Konungshöllin (Palazzo Reale) – Mikil og stór bygging við Plebiscito torgið, Palazzo dei Plebiscito, vekur athygli gesta en þar er um að ræða gömlu konungshöllina frá þeim tíma þegar konungar réðu hér ríkjum. Ekki kannski ýkja falleg utanfrá en það breytist þegar inn er komið enda fáir kóngar sem sættu sig við minna en stórkostlegt í húsakynnum sínum. Höllin er opin skoðunar alla daga milli 9 og 19 en þó lokað í hádeginu. Heimasíðan.

>> San Gennaro safnið (Museo del Tesoro di San Gennaro) – Við hlið dómkirkjunnar er að finna þetta ágæta safn en hér má meðal annars sjá marga af þeim merkari hlutum er áður voru í dómkirkjunni sjálfri. Jarðlest 1 að Cavouri. Opið daglega nema sunnudaga 9 til 17. Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.

>> San Carlo óperuhúsið (Teatro San Carlo) – Eitt frægasta óperuhús heims stendur hér við samnefnda götu nálægt höfninni. Hægt er að skoða það að hluta til daglega milli 9 og 12 og aftur milli 16 og 18 þegar miðasalan er opin. Er húsið allt hið glæsilegasta utan sem innan. Strætisvagn að Molo Beverello. Gæta skal þess að tryggja sér miða í tíma ef vilji er til að fara á sýningu því hér er oftar en ekki kjaftfullt. Heimasíðan.

>> Hafsögusafnið (Museo del Mare) – Stórt og mikið safn um sæfarendur fyrri tíma og nýrra. Napolí hefur alltaf átt mikið undir hafinu og óvíða borða menn meiri fisk á Ítalíu en hér sökum þess. Opið alla daga nema sunnudaga milli 9 og 13 og aftur 15 og 17. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Kirkja hinna miskunnsömu (Pio Monte della Misericordia) – Ein frægasta kirkja Napolí er lítt merkileg nema fyrir þær sakir að hér er að finna ótrúlega listaverk og sækja hingað listnemar í stríðum straumum. Ekki síst er aðdráttaraflið hið merka verk Caravaggios: Góðverkin sjö. Kirkjan stendur við Tribunali stræti. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Sameiningartorgið (Piazza del Plebiscite) – Eitt stærsta torg borgarinnar fyrir framan áburðarmikla kirkja heilags Francesco af Paola en hér er líka Konungshöllin staðsett.

>> Fornsögusafnið (Museo di Palentologica) – Þetta safn er eitt margra í umsjón vísindaakademíu Napolí háskóla. Hér eru geymdar gersemir fyrri alda og aldaraða víðs vegar að úr heiminum. Vel þess virði að kíkja. Heimasíðan.

>> Kastali heilags Elmo – Stórt og mikið varnarvirki eða kastali sem stendur hátt og gefur fínt útsýni yfir hluta borgarinnar.

Verslun og viðskipti

Verðlag í suðurhluta Ítalíu er töluvert frábrugðið verðlagi í norðurhlutanum sem helgast af því að almenn launakjör suðurfrá eru töluvert lægri en norðar í landinu. Má gróflega segja að Róm sé þarna mitt á milli. Ofar en það greiðir fólk almennt meira fyrir mat, fatnað og annað en það gerir sunnan fyrir Róm.

Napolí er því á ítalskan mælikvarða tiltölulega ódýr þegar kemur að verslun og hér er ekki útilokað að prútta í mörgum verslunum þó litið sé hornauga á alla sem það reyna í Flórens eða Mílanó.

Þetta gildir að mestu yfir línuna en ferðamenn gera sennilega best kaup á fatnaði, leðurvörum og skóm. Allt slíkt er ódýrara hér ef frá eru taldar lúxusverslanir á borð við Gucci eða Burberry þar sem verðlag er það sama alls staðar.

Gata númer eitt, tvö og líklega þrjú hvað verslun varðar er Vía Toledo en þar er fjöldi verslana sem selja allan andskotann. Hér er líka staðsett verslunarkjarninn Galleria Umberto I sem er nýklassískum stíl og fremur heillandi verslunarmiðstöð. Jarðlest 1 að Piazza Dante.

Séu vasar fullir seðla á ferð um borgina gæti heillað meira að halda strax til Vía Chiaia og Vía dei Mille. Hér er blanda dýrari verslana og minna þekktra en forvitnilegra. Vænlegast að taka jarðlest 2 að Piazza Amadeo.

Tveir aðrir staðir í borginni gætu heillað verslunarglaða einstaklinga. Annars vegar Vía San Gregorio Armeno þar sem minjagripa- og listaverkasalar hafa margir búið um sig. Inn á milli má finna hönnunarbúðir og glingursala. Hins vegar er það Vía Scarlatti í Vomero borgarhlutanum í hæðunum. Hér er verðlag hærra en gengur og gerist en þægilegra að þvælast um enda sjaldan troðið hér af fólki.

Til umhugsunar: Frá Vomero hæðum er auðvelt að komast inn í gömlu borgina aftur með kláfi sem þar fer á milli. Fer Funicolore Centrale alla leið að Vía Toledo.

Matur og mjöður

Napolí hefur einhvern veginn aldrei notið þess að vera fæðingarstaður hinnar vinsælu flatböku en þaðan kemur pizzan upprunalega. Margir eðal pizzastaðir eru í borginni og þeir betri eru fjarri ferðamannastöðunum en hitt. Tveir sem ár eftir ár fá toppdóma og eru kjaftfullir af heimafólki eru Da Michele þar sem pizzubakstur hófst árið 1870 og Trianon a Forcella við Vía P.Colletta.

Hér er fjöldi betri veitingastaða og sérhæfi sig margir í sjávarréttum enda ferskt hráefni að fá hvern dag. Fjórir staðir sem fá toppeinkunn hjá Michelin eru:

Til umhugsunar: Ekki aðeins er pizzan héðan frá Napoli heldur er þetta mekka mozzarella ostsins sem er hér framleiddur víða. Algjört möst að prófa nýjan mozzarella til að átta sig á hversu döpur varan er heima á fróni. Þá er um að gera að smakka Tár Krists, Lacryma Christi del Vesuvio, sem er vín framleitt í hlíðum Vesúvíus fjalls og er það sem næst kemur víni borgarinnar. Það er ekki slæmt vín heldur.

Djamm og djúserí

Kappnóg er hér af diskótekum og dansbúllum, börum og knæpum af öllum toga. Hér er fjörugt næturlíf og það yfirleitt fram til fimm um morguninn. Vinsælustu svæðin til næturlífs er í og við Piazza Bellini, Piazza Santa Maria la Nova og Piazza Domenico Maggiore.

Líf og limir

Napolí er hættulegri borg en velflestar aðrar í Evrópu. Margir hlutar borgarinnar eru í niðurníðslu og íbúar þeirra hverfa bláfátækir. Þá er Napolí og hefur verið lengi ásamt Palermo á Sikiley ein helsta miðstöð ítölsku mafíunnar. Fróðlegt er að lesa bókina Comorra áður en borgin er heimsótt en sú fjallar um veröldina í Napolí þegar mafían var sem stórtækust hér. Þetta hefur þó lagast til muna.

Undir engum kringumstæðum vera með skart á ferð um borgina. Alls ekki því það er 90 prósent víst að þjófar munu reyna að stela slíku. Heldur ekki setja verðmæti á borð á veitingastöðum eða börum því þá er það horfið. Þá hvetja borgaryfirvöld konur til að vera ekki með veski því þjófar á vespum eru snillingar að hrifsa slíkt þegar minnst varir.

Að síðustu er óráð að vera á ferli um illa lýstar götur að kvöldlagi og hafa skal varann á gagnvart öllum sem þig nálgast. Allir vilja peninga fyrir hvert einasta heilræði og hér eru sumir eftirlits- og lögreglumenn alls ekki eftirlits- eða lögreglumenn.

Svæðið kringum aðallestarstöðina, Piazza Garibaldo, er almennt versta svæðið af þeim stöðum sem ferðamenn halda sig. Þar er fjöldi þjófa og eiturlyfjaneytenda öllum stundum. Þá er spænska hverfið, Quartieri Spagnoli, lítt spennandi sökum sömu aðila.

View Napolí á Ítalíu in a larger map