Skip to main content

Á n þess að fullyrða neitt má gera ráð fyrir að borgina Murcia í samnefndu héraði á Spáni þekki fjölmargir Íslendingar enda skipta þeir þúsundum orðið sem þar eiga villur í grenndinni og borgin ekki langt frá  Torrevieja sem er hin eiginlega Íslendinganýlenda á Spáni.

Þrátt fyrir að borgin virðist ekki vera svo ýkja stór úr fjarska er hún sjötta stærsta borg landsins en sökum þess að hún er dreifðari en margar aðrar gerir fólk sér ekki svo glatt grein fyrir því. Hér búa um 450 þúsund manns og þetta er sú stórborg Spánar þar sem útlendingar eru hvað stærsti hluti borgarbúa. Spænska hagstofan segir að um fjórtán prósent íbúa hennar séu erlendir aðilar.

Undir flestum kringumstæðum myndi það þýða að borgin væri fjölbreytt og skemmtileg enda státa fjölmenningarborgir heims jafnan af slíku en því er ekki fyrir að fara hér. Ástæðan sú að stór hluti þeirra útlendinga sem hér búa um sig eru ellilífeyrisþegar eða fólk sem er hér að njóta ævidaganna. Á það bæði við um útlendingana og Murcia er vinsæl líka meðal eldri Spánverja sjálfra.

Sömuleiðis eru íbúar borgarinnar ótrúlega kaþólskir í þeirri merkingu að trú skipar enn ótrúlega stóran sess hér ólíkt því sem gerist í fjölda annarra spænskra borga. Þetta er sérstaklega áberandi í páskavikunni en hátíðarhöldin í Murcia yfir þann tíma þykja hátíðlegri og stærri en annars staðar í landinu.

Murcia fer því ekki í sérstakar bækur fyrir gleði og gaman en að öðru leyti er hún ágæt heimsóknar. Nema helst yfir hásumartímann þegar hitastigið fer oftar en ekki í 40 gráður. Það vill vera fullmikið fyrir saklausa Frónbúa.

Til og frá

Íslendingar flestir hverjir allavega koma hingað frá Alicante en þar er næsti flugvöllur þangað sem reglulega er flogið frá Íslandi. Murcia á samt sinn eigin flugvöll þó lítill sé og dugi lítt nema fyrir innanlandsflug. Sá völlur, Murcia San Javier, er þó staðsettur við ströndina eða jafnlangt frá Murcia borg og frá Torrevieja. Túrinn frá Murcia flugvelli yrði því aðeins hálftíma styttri en frá Alicante jafnvel þó flogið væri beint þangað héðan.

Til umhugsunar: Bygging nýs flugvallar fyrir Murcia og nágrenni er langt komin en sá er staðsettur við bæinn Corvera sem er í hálftíma fjarlægð frá Murcia. Miklar tafir hafa orðið á opnun þess vallar en þegar þetta er skrifað stendur til að opna hann 2013 eða 2014. Til hans verður flogið beint frá Bretlandi og það styttir ferðina um klukkustund búi fólk í Murcia.

Þangað til verður fólk að láta nægja að lenda í Alicante en þaðan er um 50 mínútna akstur til Murcia. Best er að leigja bíl á þessum slóðum enda auðvelt að aka hér um en áætlunarrútur fara einnig reglulega frá Alicante til Murcia og öfugt.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Iglesia Catedral de Santa María en Murcia) – Þekktasta kennimerki Murcia er án alls efa dómkirkja borgarinnar sem stendur hátt, blasir víða við er og sérstaklega vel við haldið. Hún er byggð að hluta til í spænskum barrokkstíl en aðrir hlutar hennar í gotneskum stíl. Sérstaklega eru gotnesku áhrifin áberandi inni í kirkjunni. Sérstaklega þykir framhlið hennar falleg. Kirkjan stendur við Plaza Cardenal Belluga en þar má jafnframt sjá Biskupssetrið og Ráðhús Murcia  sem einnig eru tilkomumiklar byggingar. Æði gott að slaka hér á við einhver af mörgum kaffihúsum sem hér eru en hafa skal í huga að verðlag er hærra hér en í nálægum götum. Kirkjan sjálf er opin skoðunar alla daga nema þegar messur standa yfir á sunnudögum. Frír aðgangur.

>> Salzillo safnið (Museo Salzillo) – Francisco Salzillo hét myndhöggvari einn vinsæll sem uppi var á átjándu öldinni og skildi eftir sig ógrynni fallegra skúlptúra sem þykja æði myndarlegir. Á þessu safni má sjá brot af því besta frá kallinum sem sérhæfði sig í trúarlegum verkum og þá kaþólskum sérstaklega. Byggingin sjálf er æði falleg í þokkabót. Strætisvagnar 3,8, eða 9 að Plaza de San Augustin. Opið 10 til 17 daglega á sumrin en 10 til 14 yfir vetrarmánuðina. Aðgangur 800 krónur. Heimasíðan.

>> Romea leikhúsið (Teatro Romea) – Önnur falleg bygging í borginni er þetta gamla leikhús við samnefnt torg. Hér fara enn fram leiksýningar annars lagið og boðið upp á skoðun undir leiðsögn yfir sumartímann. Torgið sjálft lifandi og nokkur fín veitinga- og kaffihús hér. Heimasíðan.

>> Fornleifasafnið (Museo de Arqueologico) – Murcia á það sameiginlegt með til dæmis Granada og Cordóba að borgin er tilkomin vegna Mára sem réðu ríkjum á stórum hluta Spánar á öldum áður. Hér má því sjá óvenju mikinn fjölda leifa fornra tíma og kærkomið fyrir áhugafólk þó aðrir láti sér kannski fátt um finnast. Opið daglega nema mánudaga milli 10 og 14 og aftur milli 17 og 20. Avenida Alfonso X. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Konunglega klaustursafnið (Museo Monasterio de Santa Clara la Real) – Það fer ekki mikið fyrir þessu safni sem er sennilegast einna forvitnilegast í allri borginni. Þetta er gamalt klaustur heilagrar Klöru en innandyra má jafnframt berja augum leifar konungshalla fyrri alda og það bæði höll kaþólsku konunga Spánar og höll þá er byggð var af Márum fyrir sinn konung. Merkilegt safn og klaustursstemmningin skemmir ekkert fyrir. Opið daglega nema mánudaga frá 10 til 13 og frá 16 til 18:30 en bóka þarf skoðun með fyrirvara enda fer enginn hér inn án leiðsögumanns. Um að gera að grípa tækifærið enda aðgangur frír. Það er staðsett á besta stað við Paseo Alfonso X í grennd við El Corte Inglés verslunarmiðstöðina. Heimasíðan.

>> Listasafn Murcia (Museo de Bellas Artes de Murcia) – Eina raunverulega listasafnið í allri borginni er þetta hér rekið af borgaryfirvöldum sjálfum. Engar stórvægilegar perlur á veggjum hér en safnið sérhæfir sig í spænskri list frá fimmtándu öld og síðar. Allt í lagi stopp en engan veginn ómissandi. Calle Obispo Frutos. Opið 10 til 14 og 17 til 20 daglega nema mánudaga. Frítt inn. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Lengi hefur staðið til að byggja rétt utan borgarinnar risastóran skemmtigarð, Paramount Park, en efnahagshrunið setti stórt strik í þann reikning. Engu að síður er stefnt að því að garðurinn verði opnaður eigi síðar en 2016.

Verslun og viðskipti

Almennt miðað við aðrar borgir landsins er hægt að gera allbærileg kaup í Murcia. Það helgast sennilega af því að hún er ekki í þeirri merkingu túristaborg og þótt hér finnist tonn af ferðafólki skapar það fólk ekki ýkja stóran hluta af tekjum borgarinnar eða borgarbúa.

Hér eins og víða annars staðar er verslunarmiðstöð El Corte Inglés aðalstoppið. Sú er þó í dýrari kantinum og verðlag í þeim verslunum alls staðar það sama. Bak við þá byggingu er yfir sumartímann og reglulega um helgar á öðrum tímum ársins ágætan markað þar sem bæði fást nýir og notaðir hlutir.

Í grenndinni er líka Calle Jaboneras sem er fyrsta stopp fyrir merkjavörur aðrar en þær sem fást í El Corte Inglés. Inn á milli þeirra eru lúxusverslanir. Sé eitthvað matarkyns á dagskránni fæst allt það ferskasta hverju sinni á markaðnum við Plano de San Francisco.

Sá hluti miðborgarinnar þar sem verslanirnar eru hvað flestar er tiltölulega lítill og ljúft að labba þar um dagsstund eða svo.

Matur og mjöður

Sem fyrr er ritstjórn Fararheill á þeirri skoðun að matarrýni sé langsótt mjög. Ekki aðeins fer matur misjafnlega í fólk og beinlínis kjánalegt að dæma heilu staðina út frá bragðlaukum eins manns heldur og getur sami aðili aldrei komist yfir alla staði alls staðar. Það er því ómögulegt að gera skynsama úttekt á veitingastöðum heims.

Ritstjórn notar heldur þá aðferð að forvitnast um góða staði hjá borgarbúum á staðnum og hefur það aldrei klikkað. Engu að síður eru hér veitingahúsalistar bæði Tripadvisor og Michelin í Murcia.

Líf og limir

Engar stóráhyggjur hér í borg. Glæpatíðni lítil sökum þess að ferðamenn eru hér tiltölulega fáséðir.

View Murcia á Spáni in a larger map