Skip to main content

F ólk þarf að vera pínulítið undarlegt í hausnum til að setja orðið leikfangalest í annað samhengi en sem leikfang fyrir smáfólkið. Ekki þó í Bengal á Indlandi þar sem ein frægasta lest landsins er einmitt þekkt sem Leikfangalestin í Darjeeling.

Einhver minnsta lest heims fer reglulega upp og niður snarbrattar hlíðar Darjeeling á Indlandi.

Sú ágæta lest, The Darjeeling Toy Train, á fátt sameiginlegt með barnaleikföngum en hún er þó svo kölluð vegna smæðar sinnar.

Þetta er þó alvöru lest og er ein af fáum lestum heims sem komist hafa á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem arfur mannkyns. Ástæðan að hluta til smæðin, að öðrum hluta leiðakerfið og að síðustu vegna þess að enn þann dag í dag er hluti þeirra lesta sem notaðar eru knúðar áfram af gufu.

Hversu bratt eru þessar gufuknúnu smálestir að fara kann einhver að spyrja. Það ætti að gefa góða hugmynd að endastöðin, Ghum, er staðsett í 2.300 metra hæð. Ef þér finnst það smotterí er hollt að hafa í huga að það er hærra uppi en hæsti tindur Íslands. Ekki er mikið að skemma heldur að frá Ghoom gefur að líta fantagott útsýni yfir hæstu fjalltinda heims: Himalaya-fjöllin.

Alla jafna gengur leikfangalestin frá Darjeeling og upp til Ghoom en sá túr tekur góðar tvær klukkustundir og á köflum á gönguhraða sökum bratta svo margir þeir ferðamenn sem hingað koma láta nægja að fara skemmri túra sem einnig eru í boði. Þá farið aðeins upp í frægar hæðir Darjeeling sem eru heimsþekktar þó ekki sé nema af einstaklega góðum teökrum þaðan sem hið íðilgóða samnefnda te er komið.

Algjörlega ómissandi hlutur ef einn góðan veðurdag þú finnur þig hér um slóðir 😉