M örg förum við árlega eða oftar til Kaupmannahafnar og mörg hafa jafnframt fyrir löngu séð og kynnt sér helstu gersemar þeirrar borgar. Þá er nú aldeilis ráð að bregða sér í stuttan túr til Helsingjaeyrar.
Það gera sér ekki allir grein fyrir að Helsingjaeyri, Helsingør, er einn allra vinsælasti ferðamannastaður Danmerkur og hefur verið um langa hríð. Þangað koma hvert ár kringum ein milljón ferðamenn.
Þeir flestir eru reyndar ekki að kíkja í heimsókn vegna þess að bærinn hefur upp á svo margt að bjóða þó reyndar þar sé fjölmargt gott að finna. Meirihlutinn kemur vegna þess að hinn frægi Krónborgarkastali stendur hér og hann er víðfrægur í enskumælandi heimi sem sögusvið frægasta leikrits William Shakespeare um Hamlet.
Þar heitir Helsingør reyndar Elsinore og til marks um vinsældirnar nægir að nefna að á leitarvef Google finnast tólf milljónir síðna með tilvitnun í Elsinore en rétt rúmlega 400 þúsund þar sem nafn Helsingør kemur við sögu.
Heimsókn hingað er hundrað prósent þess virði en frá Köben tekur um 30 til 40 mínútur að aka og jafnvel skemur með lest. Heilan dag skal taka frá ef vel á að vera og njóta. Krónborgarkastalinn er opinn skoðunar og er einn glæsilegasti kastali Danmerkur og reyndar einn glæsilegasti kastali í endurreisnarstíl sem finnst. Í niðrum hans er svo hægt að berja augum hinn volduga Holgeir hinn danska sem er hinn eiginlegi verndardýrlingur Dana. Sá er ekki dauður heldur hvílir hér og rís upp þegar vandi steðjar að Danmörku. Líkneskið afar glæsilegt.
Bærinn sjálfur kemur á óvart. Blanda af gömlu og nýju og allt virkar þó ferðamannafjöldinn sé mikill. Nýlegt kúltúrhús er glæsilegt og ekki má gleyma að hér eru oft á tíðum viðburðir ýmis konar og hingað koma reglulega þekktir leikarar til að taka þátt í sérstökum uppfærslum á Hamlet.
Síðast en ekki síst er nánast hægt að synda yfir til Svíþjóðar héðan og fjöldi ferja fara á milli hvern einasta dag ef það skyldi vera á dagskránni.
Bæði lestir og rútur fara á milli frá Kaupmannahöfn margoft á dag allt árið