Flestir Íslendingar sem ferðast hafa eftir bankahrunið hafa kennt óþægilega á því að íslenska krónan er orðin næsta verðlítil miðað við það sem hún var þegar íslensku bankarnir rokkuðu sem mest.
Það sem árið 2006 var svo ódýrt að íslenskir ferðalangar brostu út að eyrum í öllum verslunum og reyndar líka þegar kreditkortareikningurinn kom í pósti hefur algjörlega snúist við og þeir einu sem brosa í dag eru erlendir ferðamenn á Íslandi því hér er allt hræbillegt.
Af þessu tilefni fannst ritstjórn tilefni til að birta lesendum til fróðleiks meðalverð á þriggja stjörnu hótelum í nokkrum borgum Evrópu í júlímánuði 2011 svo ekkert komi á óvart þó farin sé ein borgarferð eða svo.
Í ljós kemur að ódýrasta gistingin að meðaltali finnst í Róm á Ítalíu þar sem meðalverð er 11.430 krónur en fokdýrt er að leggjast til svefns eina nótt á þriggja stjörnu hóteli í Zurich í Sviss þar sem prísinn er 33.917 krónur.
Amsterdam: 23.068 krónur
London: 23.296 krónur
Madríd: 16.673 krónur
París: 17.586 krónur
Róm: 11.430 krónur
Feneyjar: 21.812 krónur
Zurich: 33.917 krónur
*Verð miðast við gengi dags 2. júní og miðast við eina nótt fyrir tvo einstaklinga. Byggt er á tölum RateGain sem heldur utan um verð á yfir einni milljón hótela um heim allan.