B orgin Malaga er stærsta borgin á Costa del Sol strönd Spánar og önnur stærsta borg Andalúsíu héraðs. Hér er ferðaþjónusta einn stærsti atvinnuvegur þeirra 600 þúsund sem hér búa og töluvert af merkum minjum frá fyrri tímum. Þá hefur borgin smám saman verið að færa sig til nútímans og hefur upp á eitt og annað spennandi upp á að bjóða fyrir utan sand, sól og ljúft hitastig lungann úr árinu.
Til og frá
Alþjóðaflugvöllur Malaga er Aeropuerto de Málaga og er sá aðeins í átta kílómetra fjarlægð frá borginni. Sá samanstendur af þremur flugstöðvarbyggingum, er nútímalegur og vel tengdur almenningssamgöngum. Hann er mjög vinsæll meðal lágfargjaldaflugfélaga og er því grimm traffík hér flestar stundir ársins enda er þetta beinasta leiðin á Costa del Sol ströndina.
Ódýrast er að fara til borgarinnar með strætisvagni eða lest. Lest gengur frá stöðvarbyggingu 3 reglulega á hálftíma fresti frá klukkan 7 til 24 að Maria Zambrano lestarstöðinni í miðborg Malaga. Sömuleiðis er hægt að komast beint frá flugstöðinni með lest til strandbæjanna Torremolinos, Benálmadena og Fuengirola hina leiðina. Aðeins ein lest kemur við í flugstöðinni og ruglingur því útilokaður. Aðeins skal gæta þess að vera réttu megin. Miðaverð til borgarinnar er 250 krónur eða svo.
Þrír strætisvagnar fara til og frá flugvellinum. Besti kosturinn er hraðvagn númer 75 sem fer beint inn í miðborg Malaga á 25 mínútum en stoppar á einum fimm stöðum á leiðinni. Aðalstopp er við Maria Zambrano lestarstöðina í miðborginni. Miðaverð er 290 krónur á mann. Vagn C19 fer einnig inn í Malaga borg en stoppar mun víðar og oftar og þá er einnig í boði að taka vagn beint til Marbella frá vellinum. Sú ferð tekur 45 mínútur og kostar 900 krónur á mann. Marbella vagninn fer þó aðeins á tveggja stunda fresti yfir vetrartímann. Leigubíll er fljótlegasti farkosturinn og menn komnir í miðborg Malaga á 20 mínútum. Meðalverð er kringum 2.700 krónur.
Söfn og sjónarspil
>> Gibralfaro kastalinn (Castillo de Gibralfaro) – Það eru tveir kastalar Mára í Malaga sem enn standast tímans tönn og það vel. Þessi er annar þeirra og að mati Fararheill sá skemmtilegri því útsýnið héðan er óviðjafnanlegt og yfir alla Malaga borg, vel til sjávar og til Afríku þegar aðstæður eru réttar. Gibralfaro stendur hátt og það er ekki auðvelt að ganga upp að honum og allra síst þegar sól og hiti ber miskunnarlaust niður. Ein gönguleiðin er frá hinum kastalanum, Alcazaba, upp Paseo de Don Juan Temboury. Önnur gönguleið er frá Plaza del General Torrijos, Torrijos torginu, og er auðveldari en samt erfið. Einfaldast er að taka annaðhvort leigubíl eða punga út fyrir ferðamannastrætisvagninum sem fer alla leiðina upp. Opinn 9:30 til 20 daglega á sumrin en 9 til 18 á veturna. Aðgangseyrir 480 krónur.
>> Alcazaba kastalinn (Alcazaba) – Hinn kastalinn sem þess virði er að eyða tíma til skoðunar er Alcazaba sem er í raun meira borgarvirki en kastali per se. Þeir finnast víða í borgum Andalúsíu en þessi þykir vera sá heillegasti allra sem á Spáni eru. Byggður á miðri elleftu öld og við hlið hans er fallegt rómverskt hringleikahús sem gert hefur verið upp að mestu. Í kastalanum er Fornleifasafn borgarinnar og margt fínna muna að sjá þar. Fínt útsýni yfir borgina þó ekki jafnist það á við útsýn frá Gibralfaro sem stendur ofar. Gengt er á milli kastalanna. Opið 9:30 til 20 á sumrin en klukkustund skemur á veturna. Aðgangseyrir 520 krónur.
>> Hljóðfærahúsið (Museo Interactivo de la Musica Málaga) – Áhugavert safn hljóðfæra heimsins og eitt fárra slíkra safna í heiminum. Saga hljóðfæra, smíði þeirra og mismunandi útfærslur kynntar hér í þaula og hægt að prófa ýmislegt mismerkileg hljóðfæri. Muralla Plaza de la Marina. Opið daglega 10 til 14 og aftur 16 til 20. Miðaverð 590 krónur. Heimasíðan.
>> Fæðingarheimili Pablo Picasso (Casa Natal Picasso) – Frægasti sonur Malaga að frátöldum kvikmyndaleikaranum Antonio Banderas er vafalaust listmálarinn merkilegi Pablo Picasso. Hér fæddist sá garpur og sleit barnsskónum. Ýmsir munir frá æsku og uppvexti og stöku málverk líka þó engin þeirra sé meðal hans þekktustu verka. Hér er líka minjagripaverslun leiki fólki hugur að eignast eitthvað til minningar um karlinn. Safnið er á þjóðminjaskrá Spánar og stendur við Plaza de la Merced í gamla hluta borgarinnar. Aðeins 400 króna aðgangseyrir.
>> Nýlistasafnið (Centro de Arte Contemporáneo) – Besta listasafn borgarinnar og verk víða að þó megináherslan sé á verk núlifandi spænskra listamanna. Calle Alemania í hjarta borgarinnar. Opið daglega 10 til 20 nema mánudaga. Frír aðgangur. Heimasíðan.
>> Dómkirkjan (Catedral de Málaga) – Kaþólska kirkjan er óvíða sterkari en í Málaga og því er dómkirkja borgarinnar betur sótt en víða annars staðar í landinu. Hún er falleg á sinn hátt þó ekki standist hún samanburð við það besta á Spáni. Calle Santa María í miðborginni. Opin skoðunar virka daga og laugardaga 10 til 17 en guðsþjónustur fara fram á sunnudögum og er kirkjan þá ekki opin til annars. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.
>> Picasso safnið (Museo Picasso Málaga) – Annað af tveimur söfnum landsins alfarið tileinkað verkum Pablo Picasso. Hitt safnið í Barcelóna er betra að flestu leyti og verkin þar fjölbreyttari og frægari. Hér er þó sannarlega hægt að sjá mörg af þekktari verkum kappans og fá glögga hugmynd um feril hans sem málara. Calle San Augustín. Lokað mánudaga en opið 10 til 20 aðra virka daga og til klukkan 21 á föstu- og laugardögum. Ókeypis aðgangur síðasta sunnudag í hverjum mánuði en þess utan kostar það einstakling 1.700 krónur að heimsækja safnið. Heimasíðan.
>> Skrúðgarðurinn (Jardín Bótanico) – Sé umferðarniður og fjölmenni á ströndinni hætt að gera sig er óvitlaust að gera sér ferð í skrúðgarð borgarinnar. Hefðbundinn að öllu leyti en vin í borginni og eðal að draga andann hér og njóta angan litskrúðugra blóma. Garðurinn stendur við samnefnda götu; Camino del Jardín Botánico. Opið hér 10 til 20 alla daga. Punga þarf þó út 1.100 krónum fyrir herlegheitin en það er þess virði. Heimasíðan.
>> Nautahringurinn (Plaza de Toros la Malagueta) – Hefðbundinn spænskur nautahringur en forvitnilegur fyrir þá sem ekki hafa séð slíkan leikvang. Ekki síður er upplifun að sjá nautaat þó þau fari óreglulega fram. Leikvangurinn er áberandi í borginni og stendur við Paseo Reding. Skoðunarferðir í boði daglega. Opið 10 til 14 og 17 til 19. Aðgangseyrir 1.800 krónur. Heimasíðan.
>> Malagueta ströndin (La Malagueta) – Þó Malaga standi við Costa del Sol er aðeins hluti strandarinnar nothæfur til sólbaða og dúllerís þó borgaryfirvöld hafi staðið fyrir hreinsunarátaki undanfarin ár. Öllu betri strendur finnast annars staðar á Costa del Sol en Malagueta ströndin er brúkleg og er stutt frá miðborginni.
>> Vínsafnið (Museo del Vino) – Í gamla bænum er staðsett þetta safn sem tileinkað er vínframleiðslu í Malaga héraði. Sæmilegt miðað við sams konar söfn annars staðar en vínin frá héraðinu eru nú ekkert að rokka í tætlur og ástæðan einfaldlega sú að þau þykja ekki frábær. Staðsett við Plaza de los Viñeros. Opið 12 til 14:30 og 16:30 til 19:30 virka daga. Aðgangur 900 krónur og tvö glös af víni innifalin. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Hægt er að gera allsæmileg kaup í Malaga. Fjöldi verslana er þar með svipað úrval og gengur og gerist í stærri borgum en aðalatriðið er að vörur almennt eru aðeins ódýrari víða í Andalúsíu en annars staðar á Spáni. Eru það leifar þess þegar Andalúsía var langfátækasta fylki landsins og það er það ennþá þó munurinn hafi minnkað mikið síðasta áratuginn eða svo.
Vitaskuld eru helstu tískukeðjurnar hér og ekki má gleyma verslunarrisanum El Corte Inglés með vöruval sitt á öllum hæðum. Hægt er að eyða nokkrum dögum þar ef því er að skipta. Stendur sú verslun við Avenida de Andalucia en fyrir öllu skemmtilegri verslunarupplifun er mál að halda til Marqués de Larios. Það er eingöngu göngugata og góð blanda þekktari verslana og annarra sem aðeins finnast hér. Fyrir tískufrík er engin þörf að halda neitt annað. Margar götur kringum þessa er ennfremur fullar af smærri en forvitnilegri verslunum.
Fjöldi verslunarmiðstöðva eru í Malaga. Malaga Plaza við Armengual de la Mota er ein þeirra vinsælli. Aðrar ágætar með fjölbreytt úrval eru La Trocha og El Ingenio. Í útjaðri borgarinnar er að finna Centro Commercial Plaza Mayor þar sem fjöldi merkjaverslana er til staðar. Sé hugmyndin að versla ferskar matvörur er Malaga Central við Atarazanas opin daglega.
Matur og mjöður
Miðað við þann miðlungsmat sem oft er í boði á veitingastöðum við Costa del Sol er úrval staða í Malaga gott þó típískir túristastaðir séu hér líka. Aðeins einn staður í borginni kemst á lista Michelin yfir eðalstaði. Er það Café de Paris við Plaza de la Capilla en sá tekur vel í veskið og málsverður varla undir tíu þúsund krónum. Annar tiltölulega frægur veitingastaður en ódýr í þokkabót er La Posada de Antonio við Calle Granada en sá er í eigu leikarans góðkunna Antonio Banderas. Sá fær ágæta dóma en er í dýrari kantinum. Leikurinn á annars nokkra slíka staði í héraðinu.
Enginn skortur er á börum og pöbbum bæði innlendum og þessum hefðbundnu útrásarpöbbum frá Englandi og Írlandi þar sem henda má pílum og drekka Guinness eins og heimavið.
Til umhugsunar: Innfæddir eru afskaplega hrifnir réttinum espetos sem eru sardínur á priki grillaðar yfir eldi. Þá er djúpsteiktur matur vinsæll og þá sérstaklega fiskréttir.
Líf og limir
Smáþjófnaður er algengur hérna sökum þess hve margir ferðamenn þvælast hér um án þess að vera of mikið á varðbergi. Þeir eru því auðvelt fórnarlömb og stuldur algengur. Innbrot eru einnig vandamál og það jafnvel á hótelum og betri gistihúsum. Ganga skal vandlega frá öllum verðmætum áður en tekið er röltið.
View Allt það helsta að sjá í borginni Malaga á Spáni in a larger map