S ú klisja sem hljómar hvað oftast um höfuðborg Spánar er „borgin sem aldrei sefur“. Heilbrigð skynsemi ætti að segja hverjum manni að slíkt er fjarri lagi og svo er einnig um Madríd þó eflaust megi deila lengi um hvað telst vera sofandi borg og hvað ekki.

Klisjan hittir að vissu leyti beint í mark þegar tekið er mið af siðum og venjum á Spáni. Þar fer almenningur helst ekki í kvöldmat fyrr en um tíu leytið og allir betri veitingastaðir eru pakkaðir vel fram yfir miðnætti og lengur um helgar. Þetta gildir meira eða minna um alla staði á Spáni en auðvitað fer meira fyrir þessu í stærstu og fjölmennustu borg landsins.

Mörgum kemur spænskt fyrir sjónir að aðeins rúmar þrjár milljónir búa í þessari stærstu borg landsins. Séu helstu úthverfi talin með fer talan í fimm milljónir íbúa en það telst ekki ýkja fjölmennt á mælikvarða stórborga. Madríd er engu að síður stórborg og fer kyrfilega í bækur sem ein af þeim betri.

Ólíkt mörgum þeim áfangastöðum spænskum sem Íslendingar þekkja af ferðum sínum er andrúmsloftið í Madríd annað og betra en víðast hvar við ströndina. Það helgast fyrst og fremst af því að höfuðborgin er tiltölulega nýlega orðinn vinsæll áfangastaður ferðamanna erlendis frá en borgin hefur ávallt haft mikið aðdráttarafl fyrir Spánverja hvaðanæva að frá Íberíu skaganum.

Madríd stendur við bakka Manzanares árinnar. Hún er vettvangur spænska þjóðarþingsins og ennfremur aðsetur spænsku konungsfjölskyldunnar. Þá hefur Madríd umtalsverð áhrif sem fjármálamiðstöð og fara þau mjög vaxandi. Hér eru meðal annars höfuðstöðvar þriggja af hundrað stærstu fyrirtækjum heims; Telefónica, Repsol og Banco Santander.

Madríd hefur tekist það sem mistekist hefur herfilega í mörgum borgum Evrópu en það er að nútímavæða borgina en að sama skapi halda í gamalt og gott og láta þau ólíku púsl passa saman svo vel fari. Gamall andi svífur yfir vötnum alls staðar á miðborgarsvæðinu jafnvel þó töluverður hluti þess hafi verið endurnýjaður frá grunni á síðustu áratugum.

Þó Madríd sé stór eru hér þó aðeins 3.1 milljónir íbúa formlega á skrá en fjöldinn hækkar í tæpar sex milljónir séu öll helstu úthverfi talin með. Er Madríd líka víðfem mjög og byggð öll lág. Sjást örfá háhýsi borgarinnar vel úr mikilli fjarlægð.

Loftslag og ljúflegheit

Hér er miðjarðarhafsloftslag sem annars staðar á Spáni en vetur í Madríd eru kaldir sökum hæðar borgarinnar yfir sjávarmáli. Snjókoma er þó ekki ýkja algeng og hverfur snjór fljótt aftur þau skipti sem það gerist. Sumrin aftur á móti verða enn heitari en gengur og gerist við hafið og mælt er gegn því að heimsækja borgina í ágúst. Þá er svo heitt að hartnær helmingur borgarbúa flýr, verslanir margar loka og göngutúrar flestir enda eftir stutta stund í tómum svitaperlum.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Madríd er Barajas flugvöllur, Aeropuerto Madrid-Barajas. Sá er stór, mikill og nýtískulegur mjög og rösklega 25 mínútur frá miðborginni. Upplýsingabása er að finna á minnst tveimur stöðum í byggingunni bjáti eitthvað alvarlegt á.

Allra besta leiðin inn í borgina á ódýran hátt er með flugrútu sem fer milli flugstöðvarbyggingar 1 og Atocha lestarstöðvarinnar allan sólarhringinn. Ferðir eru á 15 mínútna fresti á daginn en 30 mínútna fresti á næturnar. Kostar túrinn aðeins 270 krónur en frá Atocha er aðeins 15 mínútna labb í miðborg Madríd þar sem meginþorri hótela standa. Eru vagnarnir vel merktir og í þeim eru grindur fyrir farangur. Tekur ferðin 20 til 40 mínútur á milli.

Önnur einföld leið inn í borgina er með leigubíl en sá rúntur tekur 25 mínútur. Þeir bíða í hrönnum fyrir utan öll fjögur stöðvahúsin sem Barjas flugvöllur samanstendur af. Allir nota þeir gjaldmæli og meðalprísinn inn í miðborg Madríd er frá 3.500 til 4.000 þúsund krónur. Aukagjald er á næturnar og aukagjald fyrir mikinn farangur.

Mun ódýrara er þó að taka jarðlest, Metro de Madrid, en stöðvar þeirra eru við stöðvarhús 2 og 4. Lína 8, bleik, fer reglulega til og frá flugvellinum en endastöð hennar er við Nuevos Ministerios sem er skammt frá miðborginni en nauðsyn er að skipta um lest til að komast á svæðið við Sol miðborgarkjarnann þar sem langflest hótel og gistihús borgarinnar eru til húsa. Bláa, gula og rauða línurnar stoppa við Sol en reyndar þarf tvívegis að skipta til að komast akkurat þangað eins og sjá má hér. Á móti kemur að stakur miði sem gildir alla leið svo lengi sem stöðvarnar eru ekki yfirgefnar kostar aðeins 350 krónur.

Þá fara héðan flugrútur, vagn 204, að Avenida de America sem er lítil umferðarmiðstöð en það er langt frá helstu dvalarstöðum og ferðamenn engu bættari því þar þarf að skipta um vagn eða taka jarðlest. Prísinn fyrir þetta ferðalag er 600 krónur.

Að síðustu er hægt að leigja bíl á flugvellinum en þá er vissara að hafa stáltaugar og ratvísina í lagi. Umferð í Madrid er þung og erfitt þekki menn ekki borgina eins og lófann á sér.

Söfn og sjónarspil

Madríd er ekki stórborg fyrir ekki neitt. Hér er mikið úrval heimsklassa safna og ennþá meira úrval smærri sérhæfðari safna og gallería. Þá líður varla dagur í borginni án þess að nýjar farandsýningar séu settar upp hér og þar.

Til umhugsunar: Mörg af allra bestu söfnum Madríd og Spánar alls standa við götu sem kallast Paseo del Arte, Listagata. Það er þó ekki formlegt heiti en allir þekkja götuna engu að síður. Við hana standa Prado, Thyssen, Reina Sofia og CaixaForum. Listunnendur ættu að taka frá tvo til þrjá daga til að metta sig á þessum stöðum. Besta leiðin til þess er að kaupa Abono Paseo del Arte, sem gefur forgang og góðan afslátt á öllum fjórum söfnunum. Fæst sá í tóbaksverslunum og upplýsingamiðstöðvum.

>> Prado safnið (Museo de Prado) – Sé aðeins tími fyrir eitt safn í Madríd er engin spurning hvert halda skal. Spurningin aðeins sú hvort þú vilt skima safnið á hálfum degi eða skoða það vandlega á heilum degi. Og dugar heill dagur reyndar vart til svo stórt og mikilfenglegt er Prado enda í sögubókum sem eitt af fimm til tíu merkilegustu söfnum heims. Byggingin sjálf er glæsileg og umhverfið sömuleiðis. Inni má finna þúsundir verka af öllum toga frá tólftu öld fram til þeirrar nítjándu og allir helstu meistarar málaralistar koma við sögu þó spænskir listamenn séu í forgrunni. Best er að mæta hingað mjög snemma ellegar á veturnar til að losna við þann mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur daglega. Opið þriðju- til sunnudaga milli 9 og 20. Jarðlest að Atocha eða Banco de España eða strætisvagnar 9, 10, 14 og 19. Aðgangseyrir 1500 krónur fyrir háa sem lága. Heimasíðan.

>> Thyssen safnið (Museo Thyssen Bornemisza) – Annað mikilvægt safn í Madríd en það samanstendur af rúmlega 800 verka safni baróns eins sem safnaði listaverkum eins og enginn væri morgundagurinn þegar sá var og hét. Nú er ríkið á bak við reksturinn og safnið sannarlega uppfullt af góðum verkum mannanna. Margir meistaranna eiga hér verk. Safnið stendur gegnt kauphöllinni í Madrid við Pasao del Prado. Opið 10 – 19 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 1100 krónur. Heimasíðan.

>> Safn Sofíu drottningar (Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofia) – Þriðja merkilegast safn í Madríd er hýst í gömlum spítala við Atocha lestarstöðina. Hér má sjá margt merkra muna úr ýmsum áttum og ber þar sennilega hæst verkið Guernica eftir Pablo Picasso. Skemmtilegt safn og byggingin áhugaverð. Það stendur við Plaza de Emperador Carlos V torgið gengt Atocha lestarstöðinni.

Til umhugsunar: Á svæðinu fyrir utan Reina Sofía og Atocha eru gjarnan fjölmargir götusalar að störfum. Þeir selja þetta hefðbundna falsaða drasl en úrvalið er gott ef slíkt heillar.

>> Lystisafnið (CaixaForum) – Nýjasta stjarnan í menningarlífi Madríd er þetta merkilega plöntusafn en bæði byggingin sjálf og sýningin er kostuleg. Ekki hefðbundið tiltölulega leiðinlegt heldur þvert á móti veruleg upplifun að sjá hér og skoða. Þá er hér einnig kaffihús og tónlistarsalur. Jarðlest til Atocha. Opið  10 – 20 alla daga.

>> Flotasafnið (El Museo Naval) – Þetta safn rekur sögu spænska sjóhersins í máli og myndum og er nokkuð forvitnilegt fyrir þá með áhuga á sögu og sjónum. Módel, skipsbækir og gömul kort er meðal þess sem þarna er til sýnis. Það er til húsa í höfuðstöðvum spænska flotans sem merkilegt nokk er til húsa í Madríd sem er hundruðir kílómetra frá sjó í allar áttir. Það er hins vegar til staðar í Paseo del Prado götunni skammt frá Prado safninu. Opið þriðju- til sunnudaga milli 10 og 14. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Ameríkusafnið (Museo de América) – Það er engin tilviljun að allir tala spænsku í rómönsku Ameríku. Þar gerðu Spánverjar mörg strandhöggin á miðöldum og á þessu safni er til sýnis margt það sem þeir tóku með sér úr þeim ferðum. Og enginn skortur er á glæsilegum munum en alls eru um 25 þúsund þeirra hér. Safnið stendur við Avenida Reyes Católicos. Jarðlest að Moncloa. Opið 9:30 til 15 þriðjudaga til sunnudaga. Punga þarf út 550 krónum. Heimasíðan.

>> Rómantíska safnið (Museo del Romanticismo) – Ekki ýkja rómantísk safn per se heldur safn málverka frá rómantíska tímabilinu svokallaða. Margt góðra verka eftir spænska málara fyrst og fremst. Sjálft er safnið hýst í gamalli höll og inni svífur andi liðinni tíma yfir vötnum. Jarðlest til Tribunal. Opið daglega milli 10 og 17. 600 króna aðgangseyrir en frítt eftir klukkan 14 á laugardögum. Heimasíðan.

>> Goya safnið (Museo Panteón de Goya) – Francisco de Goya var og er einn af allra fremstu og frægustu listmálurum Spánar og þetta safn tileinkað honum er ennfremur grafhýsi hans. Forvitnilegt safn. Opið 9:30 til 18 alla daga nema mánudaga. Heimasíðan.

>> Safn Lázaro Galdiano (Museo de la Fundacion Lázaro Galdiano) – Tiltölulega lítið hefur farið fyrir þessu ágæta safni sem þrátt fyrir það er eitt það merkilegasta í Madríd. Hér eru sýndar myndir meistaranna El Greco, Velásquez og Goya svo fáir séu nefndir. Sterklega mælt með þessu safni og hér er fólk að mestu laust við ferðamannafjöldann sem finnst á vinsælli söfnunum. Jarðlest Rubén Darío. Opið virka daga 10 – 16:30. Fullorðnir greiða 750 krónur. Heimasíðan.

>> Skreytingalistasafnið (El Museo Nacional de Artes Decorativas) – Athyglisvert safn muna sem notaðir hafa verið gegnum aldirnar til að skreyta hús og innanstokksmuni. Eðlilega var það helst á færi forríkra aðila hér áður fyrr sem misstu sig alveg í ruglinu og það sést einna best hér. Þá er hér gott safn skreyttra flísa. Jarðlest til Banco de España. Opið 10 – 15 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 450 krónur. Heimasíðan.

>> Konungshöllin (Palacio Real) – Stærsta konungshöll vestur Evrópu er staðsett hér í Madríd en Spánverjarnir hafa efni á að láta hana standa auða að mestu nema við allra merkilegustu viðhafnir. Höllin er ekki aðeins gríðarstór heldur á stórkostlegum stað með miklu útsýni og lítill garður við höllina er ekki síðri. Í raun er þetta einnig safn því enn eru hér stórkostlegir munir sem setja hvern hefðbundinn einstakling hljóðan. Stór hluti hennar er opinn til skoðunar en þó aðeins í fylgd leiðsögumanna og panta ber slíkt með eins góðum fyrirvara og hægt er enda margir um hituna. Jarðlest að Opera. Opið frá 9 – 18 alla virka daga og milli 9 og 15 um helgar. Miðasala fyrir utan en vænlegt að panta fyrirfram.

>> Austurgarðurinn (Plaza de Oriente) – Enginn sem skoðar konungshöllina kemst hjá því að sjá þennan litla en glæsilega garð. Þar má sjá styttur af konungbornu fólki í tugavís og garðurinn sjálfur listilega úr garði gerður. Þarna eru bekkir til hvíldar og við garðinn eru ágætir kaffi- og veitingastaðir til afslöppunar og þar á meðal sennilega eitt elsta og frægasta kaffihús borgarinnar; Cafe de Oriente.

>> Konunglega leikhúsið (Teatro Real) – Gengt konungshöllinni og Austurgarðinum er hið konunglega leikhús sem einnig er konunglega óperan. Falleg bygging og þar inni er ennfremur forvitnilegt safn um sögu hússins. Ekki er ónýtt heldur að sjá eina sýningu þar sé nægur skilningur á málinu. Jarðlest að Opera. Heimasíðan.

>> Spánartorg (Plaza de España) – Lengi vel var Plaza de España helsti miðpunktur borgarinnar og torggarðurinn troðfullur af lífi 24 tíma á dag. Það hefur breyst nokkuð í tímans rás en þarna er enn ágætt að koma þó fátt beri í raun fyrir augu annað en tvö elstu háhýsi borgarinnar, Torre de España og Edificio de España. Þarna er líka fallegur gosbrunnur og styttur af þjóðarskáldinu Cervantes og hinum frægu karakterum hans Don Quixote og Sancho Panza.

>> Stóratorg (La Plaza Mayor) – Óumdeilanlega vinsælasti ferðamannastaðurinn í allri Madrid og hér er krökkt af fólki öllum stundum. Stórt og mikið torg með fjölda veitingastaða og þarna eru markaðir hverja einustu helgi. Byggingarnar umhverfis torgið eru margar fallega skreyttar en torgið sjálft er bert fyrir utan styttu af Filip III sem opnaði torgið. Þrívegis hefur þurft að endurbyggja torgið og byggingarnar í kring vegna eldsvoða. Ágætur staður til að grípa kaffi og kleinu en verðlag þarna miðast eingöngu við ferðafólk og er dýrt á spænskan mælikvarða.

>> Sól (La Puerta del Sol) – Opinbert miðborgartorg Madrid er þetta torg sem ávallt gengur undir nafninu Sol. Áður fyrr var torg þetta eitt umferðaröngþveiti alla daga og vart líft fyrir fótgangandi fólki en það hefur mjög breyst til hins betra, nú síðast árið 2009 þegar enn einni breytingunni á því lauk loks eftir fimm ára vinnu. Er Sol nú loks að mestu fyrir gangandi vegfarendur enda eru göturnar kringum Sol í allar áttir verslunargötur á daginn. Við torgið er jarðlestarstöðin Sol og höfuðstöðvar svæðisstjórnar Madríd. Þarna er ennfremur mest ljósmyndaða styttan í allri borginni. El Oso y Madroño heitir sú á frummálinu og stendur fyrir björninn og jarðarberjatréð. Er þetta tvennt táknrænt fyrir borgina Madrid þó langt sé síðar birnir sáust á þessum slóðum og jarðarberjatré hafi hér aldrei verið svo neinu nemi.

>> Flóamarkaðurinn (El Rastro) – Það er aðeins einn markaður hér sem stendur undir nafni sem flóamarkaður með greini. El Rastro er mikill og stór markaður sem spannar einar fimm götur og vilja heimamenn meina að um stærsta flóamarkað Evrópu sé að ræða. Staðsettur í gamla borgarhlutanum við Plaza de Cascorro. Alls kyns drasl til sölu hér eins og gengur.

>> Sveitagarðurinn (Casa de Campo) – Einn stærsti borgargarður í Evrópu en í raun er fátt sem bendir til að um sérstakan garð sé að ræða. Yfir hann þveran er hægt að fara með kláfferju, el Teleférico, frá Paseo de Pintor Rosales götunni en næst henni er Argüelles jarðlestarstöðin.Ferðin yfir kostar 600 krónur en opnunartími er misjafnlegur eftir árstíðum. Í Casa de Campo er einnig aðal skemmti- og dýragarður borgarinnar, Parqué de Atracciones, og ágætt að eyða degi þar í leik eða rólegheitum. Sjaldgæft er að hér sé of mikið af fólki. Vert er að hafa í huga að Casa de Campos er einnig vinnustaður fjölda vændiskvenna eftir að kvölda tekur.

>> Retiro garður (Parque de Retiro) – Skemmtilegasti staðurinn í allri Madríd er þessi stóri og skemmtilegi lystigarður og hér er sannarlega líf í tuskum hverja einustu helgi enda staðurinn fjölsóttur af heimamönnum ekki síður en ferðafólki. Hér er margt að skoða fyrir utan líflegt mannlífið. Hann er staðsettur við Puerta de Alcalá og örstutt frá Prado safninu. Stórt vatn er í garðinum og þar hægt að leigja árabáta. Gosbrunnar, styttur og minnismerki í tugavís prýða garðinn. Um helgar safnast mikill fjöldi innflytjenda og tónlistarunnenda saman við vatnið og berja afrískar bumbur og hávær hljóðfæri önnur eins og enginn sér morgundagurinn. Öllum velkomið að taka þátt. Í garðinum er líka Kristalshöllin, Palacio de Cristal, sem er glæsileg bygging er hýsir fágætar plöntur. Þarna er lítið mál að verða sér úti um fíkniefni sé sá gállinn á fólki og reglulega fara þarna fram menningar- og bókahátíðir. Nýlega var sett upp í Retiro litlum trjálundi tileinkaður þeim er létust í hryðjuverkuárásunum í borginni 2004. Heitir sá Skógur hinna föllnu eða Bosque de los Ausentes á frummálinu.

>> Santiago Bernabeau leikvangurinn (Estádio Santiago Bernabeau) – Madríd er heimaborg eins frægasta, ef ekki frægasta, knattspyrnuliðs heimsins og hingað koma þúsundir ár hvert hvaðanæva úr heiminum eingöngu til að sjá leik með stórliði Real Madrid. Enginn verður þar svikinn. Jafnvel þó áhugi á fótbolta sé enginn er völlurinn sjálfur stór og mikill, þar er safn og verslun og andinn á leikvanginum þegar liðið spilar er öllum ógleymanlegur. Erfitt getur verið að fá miða á stærri leiki liðsins en alltaf finnast sæti á miðlungsleiki. Miðasala er við leikvanginn sem opnar snemma á leikdegi og lokar þegar miðar klárast. Sé sannarlega áhugi að sjá leik eru fjölmargir aðilar sem selja miða fyrir utan völlinn skömmu fyrir leik. Ólöglegt er að selja miða á þann hátt enda verð töluvert hærri en eðlilegt getur talist. Heimasíðan.

>> Atocha lestarstöðin (Estacion de Atocha) – Elsta, stærsta en jafnframt nýtískulegasta lestarstöð borgarinnar er Atocha stöð við samnefnt torg. Önnur slík stöð er við Chamartín. Þessi hins vegar er ekki aðeins lestarstöð heldur nýtist gamla lestarstöðvarhúsið nú sem glæsilegt dýrasafn með hitabeltisskógi. Fuglar, fiðrildi og fiskar og fátt betra en setjast þar niður og fá sér kaffisopa.

>> Debod musterið (Templo de Debod) – Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að finna 2200 ára gamalt egyptskt musteri í miðborg Madrid. Það er þó staðreynd og er sjón að sjá musterið þó það láti lítið yfir sér. Ástæða þess að það er hér er að þegar Aswan stíflan bar byggð í Egyptalandi fyrir 40 árum þurfti að forða musteri þessu frá og gáfu yfirvöld í Egyptalandi Spáni musterið að gjöf. Hér er gott að koma á kvöldin.

>> Nautaatshringleikhúsið (Plaza de Toros) – Hvort sem mönnum líkar betur eða verra er Madrid mekka nautaats enn þann dag í dag og fjölmargir eldri íbúar borgarinnar sem lifa fyrir slíkt. Vertíðin stendur milli mars og október og allir helstu nautabanar heims koma þá fram í Las Ventas sem er einn stærsti nautaleikvangur heims með sæti fyrir 25 þúsund manns.

>> Alcalá hliðið (Puerta de Alcalá) – Eitt best þekkta minnismerki borgarinnar er Alcalá borgarhliðið sem er bæði afar fallegt og áberandi þar sem það stendur á Plaza de la Independencia torginu rétt hjá Retiro garðinum.

>> Warner skemmtigarðurinn (Parque Werner)  –  Þessi fíni skemmtigarður er ekki tæknilega í Madríd heldur nálægt smábænum San Martín de la Vega í rúmlega hálftíma fjarlægð til suðurs. Þangað er komist með lest og rútum og er sniðugt ef smáfólk er með í för. Allar helstu hetjur Warner Bros vappa hér um og skemmta fólki út í eitt. Vagn 412 alla leið eða lest C-3 til San Martín og þaðan með vagni 413 beint á svæðið. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Íbúar Madríd hafa sannarlega fundið fjölina í verslun eftir að velmegun náði fyrir alvöru tökum á Spánverjum. Hér eru dýrustu verslanir á Spáni og þar fremst meðal jafningja El Corte Inglés sem finna má á fimm mismunandi stöðum í borginni.

Víða má finna smærri verslanir í tonnavís í borginni en fyrir ferðafólk með takmarkaðan tíma er vænlegast að stunda verslun sína í eða við Puerta del Sol í hjarta Madríd. Þar má finna eitt stykki El Corte Inglés en einnig stórverslanir á borð við FNAC og margvíslegar smærri verslanir með alls kyns varning inn á milli. Eini mínusinn er kannski sá að þetta svæði er fremur dýrt.

Sé meiri tími til stefnu og fólk óhrætt að rata í borginni er auðveldlega komist í gott úrval verslana við Paseo de la Castellana í Tetúan hverfinu. Þar er stærsta El Corte Inglés verslun borgarinnar. Þangað er auðveldast komist með jarðlest til Nuevos Ministerios. Skammt þar frá við Cuatro Caminos er önnur jarðlestarstöð við aðra mikla verslunargötu en þar sem þessi hluti borgarinnar er ódýrari sést það strax á verslunum á svæðinu og má gera ráð fyrir 20 – 30 prósent ódýrari varningi þar en annars staðar.

Séu peningar ekkert vandamál er mestu lúxusverslanir borgarinnar að finna í Salamanca hverfinu og þá sérstaklega á Calle Goya eða Goya stræti. Jarðlestarstöðin heitir sama nafni og þar er fjöldi verslana þar sem spreða má peningum eins og árið sé 2007.

Að þessu sögðu eru öll hverfi borgarinnar með einhvers konar úrval verslana enda finnst Spánverjum fátt skemmtilegra en versla.

Djamm og djúserí

Madríd er sannarlega borgin sem aldrei sefur sé á annað borð að líða að helgi. Fimm daga vikunnar er æði mikið á seyði alls staðar og vinnandi fólki finnst ekki nokkuð að því að skemmta sér vel fram á nótt á virkum kvöldum ef út í það er farið. Það gengur svo langt að stórir klúbbar í borginni eru pakkaðir flest kvöld nema mánudags- og þriðjudagskvöld. Um helgar er ráð að mæta verulega snemma á vinsæla staði nema þolinmæði sé fyrir hendi.

Klúbbar og stærri barir eru út um allt í borginni og sjaldan lengra en fimm mínútur milli bara af einhverju taginu. Vinsælasta svæðið meðal ungmenna er þó Malesaña hverfið og mest fjölbreyttnin þar. Góða klúbba og bari má líka finna í Bilbao, Tribunal, Alonso Martínez og Moncloa hverfunum. Þá eru klúbbar og barir í og við Puerta del Sol og Chueca er að verða afar heitur reitur í næturlífi borgarbúa.

Líf og limir

Madríd er eins örugg og stórborg getur framast orðið. Töluvert er um smáglæpi; veskjaþjófnað og slíkt en séu menn með heilbrigða skynsemi meðferðis ætti dvöl og rölt um Madrid er verða leikur einn og vandræðalaust með öllu.