Skip to main content

Ó líkt flestum öðrum dönskum bæjum er Hróarskelda heimsþekktur áfangastaður. Það helgast hins vegar ekki af stórkostlegu aðdráttarafli bæjarins sjálfs heldur tónlistarhátíðarinnar sem kennd er við bæinn en hana sækja tugir þúsunda heim árlega. Hefur sú hátíð skipað sér sess sem ein af helstu og bestu tónlistarhátíðum Evrópu.

Sjálfur er bærinn Hróarskelda tiltölulega yndislegur. Aðeins búa hér tæplega 50 þúsund manns og þó nokkur straumur sé hingað sumrin er að mestu leyti rólegheitunum fyrir að fara þess utan.

Þó er Kaupmannahöfn aðeins í 30 mínútna fjarlægð ef dofna fer yfir skemmtilegheitunum og þeir eru til sem segja Hróarskeldu ekkert annað en úthverfi höfuðborgarinnar.

Til og frá

Flugvöllurinn, RoskildeLufthavn, er eingöngu innanlandsvöllur og fyrst og fremst æfingavöllur fyrir tilvonandi einkaflugmenn. Þó býður fyrirtækið Copenhagen Airtaxi upp á flugferðir til eyjanna í kring.

Allflestir koma hingað með lestum eða rútum frá Kaupmannahöfn en hægt er að taka lest alla leið frá flug- eða aðallestarstöðinni í Kaupmannahöfn hingað. Kostar stakt far á milli 1900 krónur með lest og fara tvær til fjórar lestir á hverri klukkustund. Heimasíða DSB hér.

Rútur 882 og 888 fara milli Köben og Hróarskeldu en þær stoppa ekki inni í bænum sjálfum heldur rétt fyrir utan. Vænlegra er að taka lestina.

Samgöngur og snatterí

Hér duga tveir jafnfljótir yfirleitt alltaf nema þá kannski að drukkið sé of mikið áfengi. Bærinn er þokkalega stór en það svæði sem vert er að skoða nær til gamla miðbæjarins og á því svæði dekkar klukkustundar rölt alla áhugaverða staði í bænum í allar áttir.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Roskilde Domkirke) – Merkilegasta bygging bæjarsins er dómkirkjan sem þykir nógu merkileg til að komast á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er líka hér sem konungar og drottningar Danaveldis eru borin til grafar og hefur svo verið gert í aldaraðir. Kirkjan er opin ferðafólki til skoðunar alla daga frá 10 – 17. Heimasíðan.

>> Víkingasafnið (Vikingeskibsmuseet) – Það eru fleiri en Keflvíkingar sem eiga söfn með alvöru víkingaskipum. Danir eiga slíkt og það er hér. Stórt og mikið og fjölbreytt. Hér er sjófarendasaga Dana sögð í máli og myndum, víkingaskip til sýnis og í boði eru siglingar með slíkum bát. Opið daglega 10 – 17. Aðgangur 2.100 krónur. Heimasíðan.

>> Hróarskeldusafnið (Roskilde Museum) – Stærsta safnið í bænum fjallar um sögu bæjarins og héraðsins. Ekki ýkja spennandi. Opið 8:30 til 15 virka daga. Aðgangseyrir 550 krónur. Heimasíðan.

>> Hróarskelduhátíðin (Roskilde Festival) – Þessi er ómissandi eini sinni á lífsleiðinni og oftar sé maður forfallinn tónleikaaðdáandi og frjáls sál. Hér spila árlega heimsfrægir tónlistarmenn í bland við óþekktari einstaklinga og hljómsveitir. Nettur hippakeimur er ávallt á hátíðinni og margir taka áfengi, nekt og léttari fíkniefni sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut. Hátíðin hefst jafnan í lok júní en miðasala hefst í byrjun desember. Jafnan er barist um miða og því vissara að vera snemma á ferð. Sérstakar rútur og lestir færa fólk frá bænum sjálfum og að tónleikasvæðinu Heimasíðan.

>> Hróarskelduhöllin ( Roskilde Palæ) – Þessi heiðgula höll í barrokkstíl í miðbæ Hróarskeldu vekur athygli flestra. Byggingin frá 1733 var lengi vel aðsetur konungborinna Dana þegar þeir voru hér á ferð. Höllin er tengd sjálfri dómkirkjunni. Í dag eru hér hýst ein þrjú söfn sem verð eru skoðunar. Þau eru Museet for Samtidskunst, Roskilde Kunstforening og Palæsamlingerne. Safnið er staðsett bak við dómkirkjunar við Stændertorvet. Húsið opið daglega allt árið frá 9 til 19 en söfnin skemur yfir vetrartímann og lokuð á mánudögum. 850 krónur kostar að sækja söfnin. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Velflestir sem sækja Hróarskelduhátíðina heim gista í tjöldum. Tjaldsvæðið er risastórt en ráðlegt er að mæta vel fyrir hátíðina sjálfa til að ná sér í góðan stað. Ekki er gaman að vera nálægt trjám eða girðingum því þeir staðir breytast í stórt náttúrulegt klósett þegar hátíðin hefst.

Verslun og viðskipti

Ef þú komst til Hróarskeldu til að versla er eitthvað skringilegt á seyði í hausnum á þér. Hér eru vissulega verslanir og töluvert af þeim en þær standast engan samanburð við fjölbreytnina í Kaupmannahöfn.
Engu að síður er ekkert vitlaust að rölta niður Skomagergade eða Blågardsstræde sem eru kjaftfullar af verslunum.

Hátíðir og húllumhæ

Hér er svo öruggt að vera að Brimborg gæti sett upp útibú. Einhver leiðindi eiga sér þó ávallt stað á Hróarskelduhátíðinni en það er jafnan ekki alvarlegra en nett slagsmál. Þjófnaðir úr tjöldum eru algengir líka en koma má í veg fyrir það með því að bera allt verðmætt á sér.

View Hróarskelda í Danmörku in a larger map