Þ ó langt sé um liðið síðan Búdapest eða Ungverjaland yfir höfuð voru efst á listum ferðafólks er það staðreyndin að Búdapest er enn þann dag í dag einhver yndislegasta borg Evrópu og er óhætt að fullyrða að hún eldist afar vel. Glæsilegar hallir og garðar, söfn sem standa öllum öðrum á sporði og iðandi næturlíf þýða að borgin er fyrir alla aldurshópa á öllum tímum. Er enda svo í dag að 20 milljónir sækja borgina heim á hverju ári.

Búdapest er höfuðborg Ungverjalands og þó hún skiptist í ein 23 hverfi eru aðeins ein skilgreining sem ferðafólk þarf að vita. Búda og Pest. Búda er gamla hverfið vestan Dónár og Pest austan megin sem er mekka verslana og viðskipta. Eru hverfin tvö svart og hvítt.

Til og frá Búdapest

Alþjóðaflugvöllur Búdapest, Ferihegy Nemzetkösi, er 16 kílómetra frá borginni og skiptist í tvær byggingar. Millilandaflugfélög notast við flugstöð 1 en innanlandsflug er í seinni byggingunni. Spottakorn er þarna á milli.

Leigubílar eiga öllum stundum að vera hér og er best að ganga úr skugga um að leigubílafyrirtækið sé Zóna en þeir hafa einkarétt á flugvallarakstri. Það er sökum þess að aðrir leigubílstjórar áttu það til að svindla allverulega og er þetta gert til að vernda ferðafólk. Það er með leigubílum Zóna sem farið í bæinn kostar 2.800 krónur en getur verið töluvert dýrara með öðrum. Í velflestum er hægt að greiða bæði með ungverskum forintum eða evrum.

Skutluþjónusta er við völlinn sem safnar saman nokkrum farþegum áður en lagt er af stað í eða úr bænum. Er það ágætur kostur ef enginn er flýtirinn. Skutlan fer gjarnan með fólk upp að dyrum á hótelum en farið aðra leiðina kostar 1.700 krónur. Röð að skutlunum er velmerkt við útganginn á flugstöð 1.

Strætisvagn 200 gengur að flugvellinum en aðeins hálfa leið inn í borgina að jarðlestastöðina Kőbánya-Kispest sem er í úthverfi Búdapest. Ferðin alla leið inn í miðborg getur því tekið allt að klukkustund og er vart þess virði nema peningar sé alvarlega af skornum skammti. Hafa skal í huga að jarðlestar borgarinnar ganga ekki eftir miðnætti og undir morgun. Miðaverð aðra leiðina með vagninum er 300 krónur.

Hagkvæmasta leiðin til og frá flugvellinum er með lest frá Ferihegy stöð við flugvöllinn og að Nuygati lestarstöðinni í miðbænum. Miða er hægt að kaupa á flugvellinum og kostar farið þá 300 krónur. Sé miði keyptur um borð hækkar verðið duglega í 1.100 krónur. Þessi möguleiki á aðeins við ef lent er í flugstöð 1.

Ratvísi

Lítið vandamál er að rata um borgina þótt stór sé og ástæðan er Dónáin sem skiptir borginni. Velflestir markverðir hlutir og staðir eru í göngufæri á miðbæjarsvæðinu og velflestir átta sig fljótt á áttum og staðsetningu þeirra.

Samgöngur og snatterí

Þótt velflest megi sjá á góðum göngutúr um miðborgina eru stöku staðir lengra frá og þörf á samgöngutæki. Leigubílar eru alltaf einfaldasti kosturinn sé þess gætt að nota aðeins bíla frá þekktum fyrirtækjum. Þrjú leigubílafyrirtæki sem eiga að vera því sem næst örugg eru Budataxi, City Taxi og Főtaxi auk fyrrnefnds Zóna Taxi.

Að öðru leyti er jarðlesta- og strætisvagnakerfið hér ágætt upp að vissu marki. Jarðlestirnar eru áreiðanlegri og fín og ódýr leið til að komast milli staða. Um þrjár leiðir er að ræða og er leiðakerfið þeirra hér.

Fyrirtækið BKV sér um almenningssamgöngur borgarinnar og á heimasíðu þeirra má finna leiðarvísi á ensku og tímatöflu strætis- og sporvagna. Miðaverð er 230 krónur en hafa ber í huga að farartækin mörg eru komin til ára sinna, eru tiltölulega skítug og þröngt er á þingi á annatímum.

Næturlestakerfið er í gangi í Búdapest eftir klukkan 23:30.

Ekki þykir vænlegt að þvælast hér á bifreið. Til þess er of mikil traffík hér og langar biðraðir eru kvölds og morgna á allflestum vegum. Sé sest undir stýri skal hafa leiðakort eða gps tæki við höndina því á innri hringveginum um borgina eru vinstri beygjur flestar bannaðar.

Hjólreiðamenn eru ekki í neinum forgangi hér og hjólreiðastígar fáir. Þó er það afar fín leið að skoða borgina. Nokkrar hjólaleigur eru starfandi og bjóða þær sólarhringinn á 1.800 krónur að meðaltali. Budapest Bike, Yellow Zebra Bike og Bikebase eru þrjár slíkar.

Söfn og sjónarspil

>> Konungshöllin (Királyi palota) – Glæsileg átjándu aldar höll sem var byggð á rústum annarra tilþrifamikillar hallar sem brann til grunna og svo endurbyggð á nýjan leik eftir að hún skemmdist illa í loftárásum í Seinni heimsstyrjöldinni. Hér var heimili Franz Jóseps keisara Austurríkis og Ungverjalands og höllin er eitt mesta menningarverðmæti Ungverja. Hér er líka í sölum B, C og D Þjóðarsafn Ungverjalands þar sem mikið úrval verka er til sýnis. Opið milli 10 og 18 daglega nema mánudaga. Aðgangseyrir 500 krónur á hefðbundna safnið en 1.300 krónur á tímabundnar sýningar. Heimasíðan.

>> Brjóstvörn fiskimannsins (Halászbástya) – Fallegur útsýnispallur með sjö turnum í nýgotneskum og nýrómverskum stíl en frá pallinum er æði gott útsýni frá Kastalahæðinni og yfir Pest og Dóná. Turnarnir sjö marka þá sjö ættflokka sem settust að í Karpatíuhéraði 896 og hvaðan velflestir Ungverjar eru af komnir. Nafn staðarins er tilkomið vegna þess að pallurinn var áður hluti af borgarvirki Budapest og hér áttu fiskimenn að halda vaktina á miðöldum gagnvart óvinum.

>> Frúarkirkjan (Mátyás templom) – Við fiskimannsathvarfið er þessi fallega kirkja en lagfæringar á henni hafa staðið yfir um tíma. Hún sést víða að og er í hugum sumra tákn borgarinnar.

>> Sögusafnið (Magyar Muzeomok Honlapja) – Saga lands, þjóðar og höfuðborgarinnar í máli og myndum. Yfirgripsmikið safn um mikla sögu þessa lands og þá sem höfðu áhrif á söguna. Heimasíðan.

>> Tónlistarsafnið (Zenetorteneti Muzeum) – Við Táncsics Mihály götu í Erdody höllinni stendur þetta safn tileinkað ungverskri tónlist síðustu tvær aldirnar. Opið daglega 10 – 18 nema á þriðjudögum.

>> Marsipansafnið (Marcipán Muzeum) – Það er að bera í bakkafullan lækinn að kalla þetta safn enda meira útibú frá konfektmeistara á þessum stað. Engu að síður hægt að líta ýmsar fígúrur úr marsipani og fáir komast hjá því að versla í leiðinni. Heimasíðan.

>> Margrétareyja (Margitsziget) – Úti í Dóná miðja vegu milli Búda og Pest stendur þessi litla eyja sem er í raun stór borgargarður og yndislegur sem slíkur.

>> Lyfjasafnið (Szerecsen Patika Muzeum) – Staðsett í bakhúsi lyfjaverslunar við Pécs götu er þetta safn um lyfjafræði fyrri tíma. Áhöld, handbækur og lyf ýmis konar til sýnis. Opið virka daga milli 9 og 17.

>> Gellert hæðin (Gellérthegy) – Héðan er besta útsýnið yfir borgina af þessari 140 metra háu hæð sem samkvæmt goðsögnum var athvarf norna fyrr á öldum. Tekur hæðin nafn sitt af presti einum frá Ítalíu sem predika vildi guðs orð hér á sínum tíma og fékk litlar þakkir fyrir. Var karli stungið í tunnu og velt niður þessa hæð niður í Dóná. Fer litlum sögum af frekari predikunum hans. Það er hér sem gríðarmikil flugeldasýning fer fram 20. ágúst ár hvert á þjóðhátíðardag Ungverja. Hingað er komist með sporvögnum 41 og 47 og strætisvögnum  7 og 86.

>> Borgarvirkið (Cittadella) – Lítill hluti borgarvirkis sem Habsborgarkeisari lét reisa á Gellert hæð og átti að minna borgarbúa á hver ræði þar ríkjum. Síðan hefur virkið verið notað sem fallbyssuhreiður, fangelsi og athvarf fyrir útigangsmenn. Aðgangseyrir er 240 krónur.

>> Frelsisstyttan (Szabadság Szobor) – Fyrir framan borgarvirkið stendur þessi mikilfenglega stytta af konu sem varð  með tíð og tíma tákn Búdapest. Fyrir neðan hana standa tveir sovéskir hermenn og eru það einu leifar sem eftir eru í borginni af veru Sovétmanna hér.

>> Hellakapellan (Gellérthegyi-barlang) – Enn einn forvitnilegi staðurinn á Gellért hæðinni er þessa kapella byggð inn í klettinn. Á móti henni er einnig innbyggt í klettinn Gellért heilsulindirnar. Kommúnistar lokuðu fyrir hellana á sínum tíma en þeir hafa nú verið enduropnaðir.

>> Taban hæð (Taban) – Norðurhlið Gellért hæðar var á sínum tíma allra vinsælasti pöbbastaður borgarbúa og þarna voru tugir bara þegar best lét. Það er allt horfið nú en þarna fara jafnan fram allir stærri útitónleikar í borginni. Þá eru þar tveir hlutar úr Berlínarmúrnum.

Til umhugsunar: Gellért hæðin er nálægt Kastalahæðinni og tilvalið er að skoða þær báðar í einu en það tekur heilan dag ef vel á að vera.

>> Keðjubrúin (Széchenyi Lánchíd) -Allnokkrar brýr eru milli borgarhlutanna Búda og Pest en enginn þeirra er jafn falleg og Keðjubrúin. Sú er vel skoðunar virði og rölts yfir í hægðum sínum.

>> Þinghúsið (Országház) – Við Dónánna Pest megin borgarinnar er þinghús Ungverjalands sem er geysimikil smíð í nýgotneskum stíl. Inn er reyndar ekki hægt að fara en auðvelt er að dást að byggingunni að utan. Heimasíðan.

>> Dómkirkja heilags Stefáns (Szent István Bazilika) – Dómkirkja borgarinnar er að sjálfsögðu ekki af lakara taginu. Hefur kirkjan verið endurgerð að fullu og er ábúðamikil þar sem hún stendur við hlið þinghússins. Hún er nefnt eftir fyrsta konungi Ungverjalands sem þótti svo heill í sínu og óspilltur að hægri hönd hans er enn geymd hér í kirkjunni honum til heiðurs. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Það er kannski helst að hægt sé að taka eftir því þegar litið er yfir borgina af góðum útsýnisstað hvað hún virðist halda hæð sinni vel og fátt sem stendur uppúr eins og illa gerður hlutur. Þetta er af ásettu ráði því engin bygging í borginni má vera hærri en 96 metra há.

>> Bænahúsið mikla (Dohány utcai Zsinagóga) – Stærsta bænahús gyðinga í Evrópu allri er hér í Búdapest en bænahúsið er jafnframt safn. Stórfengleg bygging og safnið er áhugavert. Það er áberandi með tveimur turnum sínum við Dohány götuna. Beint á móti þessu mikla húsi er annað bænahús öllu verr útlítandi. Það er einnig bænahús gyðinga en í niðurníðslu en þar var gyðingum í borginni safnað saman af nasistum í Seinni heimsstyrjöldinni áður en þeir voru sendir í útrýmingarbúðir. Safnið er opið virka daga milli 10:30 og 17. Heimasíðan.

>> Þjóðminjasafnið (Néprajzi Múzeum) – Afar áhugavert þjóðminjasafn við Kossuth Lajos götu og eitt stærsta safn sinnar tegundar í Evrópu. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga.

>> Hönnunarsafnið (Iparmüvészeti Múzeum) – Ýmsir munir til sýnis hér á þessu safni við Üllői út götu frá hinum og þessum tímaskeiðum. Opið 10 til 18 alla daga nema mánudaga. Jarðlest 3 að Ferenc stöð. Heimasíðan.

>> Ludwig nýlistasafnið (Ludwig Múzeum) – Við Művészetek Palotája stendur þetta ágæta nýlistasafn. Fjölbreyttar og mismunandi sýningar hverju sinni. Opið 10 til 20 alla daga. Heimasíðan.

>> Helfararsafnið (Holikauszt Emlékközpont) – Eins og nafnið gefur til kynna er helförin hér í aðalhlutverki en ungverskir gyðingar voru margir hverjir sendir til útrýmingarbúða eins og aðrir gyðingar. Safnið stendur við Páva stræti. Jarðlest 3 til Ferenc. Aðgangseyrir 800 krónur. Heimasíðan.

>> Biblíusafnið (Biblia Múzeum) – Lítið en vinsælt safn við Ráday götu. Biblíur í ýmsum útgáfum og saga biblíunnar rakin.

>> Minnismerkjasafnið (Szoborpark) – Upphaflega var það ekki með ásettu ráði sem Ungverjar settu öll líkneski, styttur og minnismerki um hernám Sovétmanna og til heiðurs kommúnisma á einn og sama staðinn. En það gerðu þeir og í dag er staðurinn orðinn þekktur út fyrir landsteinanna. Minnismerkjagarðurinn er samansafn hundruða muna frá Sovétmönnum og er það afar sérstakt að rölta þar um. Garðurinn er í suðurúthverfi Búda við hornið á Balatoni og Szabadkai. Strætisvagn 150 að Campona og út við Memento Park. Önnur leið er að fara beina leið með sérstökum Memento Park vagni frá Deák Tér í miðbænum. Opið 10 – 17. Miðaverð er 850 krónur. Heimasíðan.

>> Andrássy breiðgatan (Andrássy út) – Þessi mikla breiðgata nær frá miðbænum í Belváros og að borgargarðinum við Városliget. Gatan og götumyndin er á Heimsminjalista Sameinuðu þjóðanna enda þar margar byggingar sem af bera. Meðal þeirra er Ríkisóperan, Hryllingshúsið þar sem leyniþjónusta pyntaði og drap þúsundir á kommúnistaárunum auk tveggja minni en ágætra listasafna; Hopp og Ernst söfnin.

>> Borgargarðurinn (Városliget) – Við enda Andrássy er þennan ágæta garð að finna þar sem slaka má á eftir langan dag eða stuttan eftir atvikum. Hér eru líka allnokkrir áhugaverðir hlutir að skoða.

>> Hetjutorgið (Hősök tere) -Stórglæsilegt torg og ómissandi stopp í Búdapest. Hér eru styttur leiðtoga þeirra sjö ættbálka sem í upphafi komu landinu á fót. Hér er líka Aldamótaminnismerkið, Millennium Monument, til minnis um þá er misstu lífið við að verja föðurlandið. Hér er einnig Óþekkta styttan sem enginn kann skil á en sagan segir að snerti menn penna þann sem styttan heldur á verði menn betri rithöfundar en ella.

>> Fínlistasafnið (Szépművészeti Múzeum) – Staðsett við Hetjutorg er þetta glæsilega safn í magnaðri byggingu. Hér er áherslan á fræg verk hvaðanæva frá Evrópu og sérstök áhersla á spænsk barokk verk. Ýmsar farandsýningar hér. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 660 krónur. Heimasíðan.

>> Vajdahunayad kastali (Vajdahunyad Vára) – Í borgargarðinum er eyja í litlu manngerðu vatni þar sem stendur þessi kastali. Landbúnaðarsafn er í kastalanum í dag en á veturnar er vatninu breytt í stærsta skautasvell borgarinnar.

>> Aquincum (Aquincum) -Er nafnið á rómverskri borg sem stóð í Búdapest á árum áður. Rústir einar eftir núna en forvitnilegt safn undir beru lofti. Heimasíðan.

>> Grahýsi Gül Baba Türbéje (Gül Baba Türbéje) – Gül Baba þessi var moldríkur tyrkneskur verslunarmaður á tímum Ottómana. Ekkert stórkostlega merkilega nema fyrir þær sakir að grafhýsi hans er eini staðurinn í allri Evrópu þar sem Múslimar koma í skipulagðar ferðir til að votta honum virðingu sína. Grafhýsið stendur við Mecset utca götu. Heimasíðan.

>> Lizstsafnið (Liszt Ferenc Emlékmúzeum) – Tónskáldið Franz Liszt er einn kunnasti borgari Ungverjalands og er tónlist hans heimsþekkt enn í dag. Hér er ævi hans og verkum gerð góð skil en safnið er eftirlíking af heimili hans í Búdapest á sínum æviárum. Stendur það við Vörösmarty utca. Opið 9 – 17 alla daga nema sunnudaga. Aðgangseyrir 400 krónur en greiða þarf aukagjald fyrir allar myndatökur. Heimasíðan.

>> Kodály stofnunin (Kodály Zoltán Emlékmúzeum) – Afar fallegt safn á heimili tónskáldsins Zoltan Kodály en heil miðstöð er rekin í hans nafni í sama húsi. Húsið stendur við hina fallegu Andrássy götu 89. Opið 10 – 18 virka daga. Heimasíðan.

>> Bartók Bela safnið (Bartók Bela Emlékház) – Í úthverfi Búda í skógi vöxnum hæðum í Csalán götu stendur heimili frægasta tónlistarmanns Ungverja og það er safn í dag. Afar skemmtilegt húsnæði á frábærum stað en safnið sjálft um líf hans, störf og ekki síst músík er minna spennandi nema fyrir gallharða aðdáendur. Strætisvagn 5. Opið milli 10 og 17 alla daga nema mánudaga. Heimasíðan.

>> Ríkisóperuhúsið (Magyar Állami Operaház) – Stórfenglegt óperuhús Búdapest er í versta falli þess virði að skoða að utan og í besta falli þess virði að sjá eina sýningu eða svo. Þá er þörf að skarta sínu fegursta því óperuferð hér þykir merkilegur viðburður.

>> Hellarnir í Búda hæðum (Budavári Labirintus) – Einstakt og skemmtilegt hellakerfi finnst undir Kastalahæðinni og er það forvitnileg lífsreynsla. Aðgangur frá Úri utca götu.

>> Listahöllin (Művészetek Palotája) – Við Komor Marcell götu stendur þetta ágæta listasafn sem helst minnir á orkuver utan frá. Hér kemur saman listafólk úr ýmsum áttum og margvíslegir mismunandi atburðir í boði hverju sinni. Sjá má fulla dagskrá á heimasíðunni. Heimasíðan.

Böð og buslugangur

Búdapest þykir fremst meðal jafningja, eða allavega jöfnust meðal jafningja, þegar kemur að heilsuböðum ýmis konar enda finnast í landinu öllu aðein 1.500 staðir þar sem svokölluð heilsuböð eru í boði. Baðmenning Ungverja er afleiðing af setu Tyrkja hér um slóðir þegar Ottóman veldið var upp á sitt besta. Öll baðhús hér eru byggð kringum heitar lindir og bestu baðhúsin bjóða ennfremur nudd, sána og hvers kyns meðferðir að auki.

Vinsælustu baðhúsin í Búdapest eru:

  • Gellért fürdő – Frægasta baðhúsið í borginni en hafa ber í huga að hér eru ferðamenn orðnir í meirihluta viðskiptavina og ber þjónustan og verðlag keim af því. Engu að síður eru laugarnar hér æðislegar og ekki síður fallegar. Aðgangur hér inn í böðin kostar aðeins 1.900 krónur en nudd og annað aukalegt greiðist sérstaklega.

  • Széchenyi Fürdő – Annað mjög vinsælt baðhús en hér eru heimamenn fleiri alla jafna sem segir sitt um þjónustuna. Hér er bæði böð og almenn sundlaug í boði og hér er hægt að spila skák ofan í lauginni. Skemmtilegur staður. Almennur aðgangur 1.600 krónur.

  • Danubius Grand Hotel – Á Margrétareyju er þetta klassahótel staðsett og í því er vinsælasta heilsulind borgarinnar. Hér er áherslan meira á nútímaböð og nudd og fínerí enda kosta herlegheitin hér töluvert meira. Aðgangur virka daga 3.300 krónur en 3.900 um helgar.

  • Corinthia Grand Hotel Royal Spa – Séu peningar ekkert vandamál er hægt að gera vitlausari hluti að láta dúlla við sig hér í heilsulind þessa lúxushótels. Hér er uppgert og nýtt og flott og minnir á heimili Jóns Ásgeirs áður en hann missti sig í ruglinu. Prísinn eftir því og ódýrasti dagpassi hingað kostar manninn 6.000 krónur.

  • Király fürdő – Hér er svo loks eitt alveg ekta við Fő utca götu númer 84. Hingað inn komast karlmenn og kvenmenn aðeins til skiptis og verður að kanna það fyrirfram. Baðhúsið sjálft á mikla sögu enda byggt á sextándu öld og sveppalaga byggingin er merkileg.

Til umhugsunar: Sem fyrr segir eru baðhús hér nánast jafnmörg og sauðfé á Íslandi og það sem einum líkar kann öðrum að mislíka. Sé dvalist lengi í borginni og böð lífsnauðsynleg er þjóðráð að prófa ýmsa staði og forvitnast hjá heimamönnum um hvað þykir gott í þessum málum. Þau vinsælustu þurfa ekki alltaf að vera þau bestu.

Verslun og viðskipti

Fyrir Íslendinga er verðlag almennt í Búdapest og Ungverjalandi ágætt með tilliti til hraps krónunnar okkar í kjölfar bankahrunsins. Þeir notast enn við sínar forintur og þar sem Ungverjar sjálfir hafa lent í efnahagshremmingum er óhætt að fullyrða að Búdapest er með ódýrari borgum Evrópu nú um stundir.

Að því sögðu er vinsælasta, en jafnframt dýrasta, hverfi til verslunar er miðborg Pest. Göturnar Váci utca og nágrannagötur eru kjaftfullar af ýmsum verslunum og öllum þeim helstu og kunnustu.

Velflestir láta heillast af Miðbæjarmarkaðnum, Nagyvásárcsarnok, við Fővám götu en þar eru samankomnir söluaðilar ýmissa merkilegra og ómerkilegra vara. Er sá markaður náttúruleg framlenging á verslun í Váci götu enda við enda hennar. Hér er í fínu lagi að prútta en það er flókið því margir tala litla ensku og ungverskra er ekki á allra vörum.

Einar fimm útsöluverslanamiðstöðvar, outlets, er hér að finna. Þær helstu eru:

Þá eru verslunarmiðstöðvar að vestrænum hætti mjög að ryðja sér til rúms í Ungverjalandi. Eru þær fjölmargar í og við borgina en þær helstu miðsvæðis eru:

  • West End City Center – Þessi er í dýrari kantinum enda stendur hún við Váci verslunargötuna. Hún er stærsta verslunarmiðstöð Ungverjalands með yfir 400 verslanir undir einu þaki.
  • Allee – Nýjasta verslunarmiðstöðin í borginni við Októbergötu. Sporvagnar 4,6 eða 18.
  • Arena Plaza – Við Kerapesi götu stendur þessi miðstöð verslunar. Jarðlest M2 að Keleti.
  • Árkád – Hér eru hvað flestar tískuverslanirnar undir sama þakinu. Þessi er við Örs Vézer götu. Jarðlest M2 að samnefndu stoppi.
  • Mammut I – Þessi mikla miðstöð stendur nálægt Kastalahæðinni og þar hægt að kasta öndinni eftir rölt um hæðina. Við Nagyajtai götu. Jarðlest M2 að Moskvustöð.

Matur og mjöður

Sem fyrr segir er íslenskra krónan alveg í þokkalegu standi gagnvart ungversku forintunni og það þýðir að hér er hægt að fylla mallakút á góðum stað fyrir bærilegt verð. Góð máltíð hér ætti vart að fara yfir fimm þúsund krónur.

Meðal rétta sem einskorðaðir eru við Ungverjaland og prófa ætti má nefna paprikás, gulyás, fogas, pörkölt og halászlé. Pörkölt er hin heimsfræga ungverska gúllassúpa.

Engir veitingastaðir í Búdapest hafa fengið hina eftirsóttu Michelin stjörnur en þó er mælt með eftirtöldum stöðum í þeirri ágætu handbók:

Best er að forðast veitingastaði kringum Váci götu því þangað fara yfirleitt eingöngu ferðamenn og verðið er hærra en gengur og gerist.

Líf og limir

Nokkuð er um smáglæpi í borginni og allt smálegt á það til að hverfa eins og dögg fyrir sólu á augabragði. Á helstu ferðamannasvæðum eru lögreglumenn nokkuð áberandi en fáir tala ensku. Sérstaklega skal hafa varann á sér í samgöngutækjum þar sem heilu bakpokarnir geta horfið á örskammri stundu.

Að þessu sögðu eru engin hverfi í borginni verri en önnur og alla jafna er nokkuð öruggt að þvælast um á kvöldin nema þá helst í almenningsgörðunum. Á það sérstaklega við um konur.

Svindl er nokkuð algengt hér. Leigubílstjórar voru alþekktir svindlarar en tekið hefur verið á því að hluta. Muna bara að leggja nöfn stærstu leigubílastöðva á minnið og nota ekki aðra bíla.

Varast skal að setjast inn á karlabari og smærri næturklúbba eða gera sér sérstaklega dælt við stúlkurnar á Váci svæðinu. Þar fá flestir í hausinn risareikning fyrir eitt einasta glas og þykkir og stórir karlmenn sjá til þess að slíkur reikningur er greiddur.