Skip to main content

A ki ferðalangar í rúmlega 30 mínútur í viðbót frá flugvellinum framhjá þessum þekktu og vinsælu strandstöðum á suðurströnd Tenerife koma þeir fyrr en varir að nokkuð sérstökum strandstað á vesturströnd eyjunnar sólríku. Það er Los Gigantes.

Allir þeir með lágmarks kunnáttu í spænsku gera sér strax ljóst að eitthvað er æði sérstakt við Los Gigantes. Nafnið þýðir bókstaflega Risarnir og hvaða bær skreytir sig með slíku nafni nema eitthvað liggi undir.

Hvað það er nákvæmlega verður ljóst þegar komið er að bænum. Hann er tiltölulega lítill og heldur rólegur miðað við það sem gerist sunnar á eyjunni en á móti kemur að Los Gigantes býður sennilega upp á fegursta útsýni nokkurs strandbæjar Tenerife. Útsýni til norðurs yfir kyngimögnuð himinhá björg svo langt sem augað eygir. Kletta sem gáfu bænum nafn sitt. Acantilados de los Gigantes sem útleggst sem Risabjörgin.

Hversu tignarleg geta þverhnípt björg á Tenerife eiginlega verið? Við eigum jú sjálf alveg himnesk heimsfræg björg á borð við hið fagra Hornbjarg hvers hæsti tindur rís litla 534 metra upp úr sjó.

Víst er Hornbjarg ægilega tilkomumikið fyrirbæri en því miður fyrir helstu aðdáendur þess er Hornbjarg nánast kettlingur samanborið við Acantilados de los Gigantes. Lægstu björgin þar eru á pari við hæð Hornbjargs og þau hæstu rísa rúmlega 800 metra lóðbeint upp til himins.

Það er sem sagt mögnuð upplifun að vitna björgin og ekki hvað síst á bátum en ýmsir aðilar bjóða túra frá bænum með fram björgunum sem ná heila tíu kílómetra til norðurs. Enginn annar strandstaður finnst á Tenerife á þessum slóðum og halda þarf yfir á norðurströnd eyjunnar til að trítla um á sendinni strönd á nýjan leik.

Bærinn sjálfur fær engin verðlaun. Hann situr að hluta til í þröngu dalverpi og takmarkað hægt að byggja hér og fjölga ferðafólki sem ritstjórn Fararheill finnst nú bara stór plús. Fyrir vikið er jú töluvert af ferðafólki sem hingað kemur en þó aðeins í stuttum rútuferðum. Tiltölulega fáir planta sínum rassi á hótelum hér í bæ sem aftur þýðir að hér getur fólk heyrt sjálft sig hugsa þegar lætin eru sem mest sunnar á Costa Adeje og þar í kring. Þetta er sem sagt prýðisstaður fyrir þá sem hafa ekki orku, vilja eða aldur til að djamma út í eitt undir sólinni.

Talandi um sólina. Það kemur mörgum tenerífskt fyrir sjónir að heyra að Los Gigantes er sólríkasti staður á Tenerife allri. Ekki að munurinn sé mikill en vegna þess hve lokaður bærinn er meðan vindar streyma látlaust að sunnan þá losnar vesturströndin að mestu við ský sem myndast gjarnan sunnar.

Hér er auðvitað öll helsta þjónusta til staðar og allnokkur hótel finnast í eða við bæinn. En reyndar þykir mörgum dapurt að strönd Los Gigantes er kolsvört og á jafnvel meira skylt við ösku en sand. Okkur hér finnst það ekkert verra. Hvítt súkkulaði er jú sama súkkulaði og þetta brúna venjulega 😉 Þá er hér lítil sjósundlaug og hér má vitna einhverjar stærstu öldur sem mælast við Kanaríeyjarnar. Sem þýðir að hingað sækja brimbrettaelskendur reglulega og fjarri því leiðinlegt að fylgjast með þeim látunum yfir rauðvínsglasi á góðum hótelsvölum. Annað sem gæti heillað ævintýrasækna er köfun. Minnst þrír aðilar bjóða köfun hér úti fyrir ströndum og það extra skemmtilegt sökum þess að sjórinn hér er kjaftfullur af höfrungum allan ársins hring.

Mælum hiklaust með dvöl hér og kannski sérstaklega ef bullandi rómantík svífur yfir vötnum. Hér lítið um haugölvað fólk úti um allt þegar kvölda tekur og það alltaf yndislegra en ekki.