Þ eir Íslendingar sem leið sína leggja til Logroño verða sennilega fyrir vonbrigðum áður en komið er í borgina. Það er nefninlega æði mikil mengun í dal þeim er borgin stendur í og á velflestum sumardögum teljast menn heppnir að sjá ýkja mikið út frá borginni.

Þetta kemur flestum mjög á óvart með tilliti til þess hve borgin, eða öllu heldur svæðið, er heimsþekkt fyrir einhver bestu vín sem völ er á og er vandfundið það landsvæði í allar áttir frá borginni þar sem vínviður vex ekki hröðum skrefum. Það fer einhvern veginn ekki saman í huga ferðamanna; urrandi mengun og ljúffeng vín.

Að þessu sögðu er Logroño höfuðborg La Rioja héraðs á Spáni en það fylki er það minnsta í landinu. Sjálf er borgin ekki ýkja stór en telur um 150 þúsund íbúa innan borgarmarkanna. Áin Ebro rennur eftir norðurhluta borgarinnar og það er fyrst og fremst hún sem gerir kleift að rækta hér bestu vín Spánar að margra mati.

Þó Logroño sé fjármálamiðstöð La Rioja héraðs stendur borgin og fellur orðið með víni í orðsins fyllstu. Talið er að allt að 60 prósent vinnandi manna hér í borg starfi á einn eða annan hátt við vín. Vín er hér með öðrum orðum hreinn iðnaður.

Fyrir ferðamenn hefur borgin í raun ekki upp á svo margt að bjóða nema úrvals Rioja vín á hverjum einasta skítapöbb sem fyrirfinnst. Hér er gamli borgarhlutinn heillandi mjög en ekkert umfram aðra slíka gamla borgarhluta annars staðar á Spáni.

Til og frá

Flugvöllur er hér en sá er ekki alþjóðlegur og hingað því aðeins komist frá stærstu borgum innanlands. Heitir sá Agoncillo völlur og er í um 15 mínútna fjarlægð frá borginni.

Leigubíll í bæ kostar kringum 3.000 krónur en það er eini möguleikinn til að komast nema beinlínis leigja bíl. Er það mögulegt á flugvellinum.

Fleiri koma hingað með lestum og rútum en flugi. Frá Madríd tekur lest hingað tæpar þrjár klukkustundir en rúta er nær því að vera fjórar stundir á leiðinni. Bæði rútu- og lestarstöð bæjarins eru í göngufæri frá miðbænum enda bærinn tiltölulega lítill og enginn þarf að óttast að villast.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkja heilagrar Maríu (Catedral de Santa Maria de la Redonda) – Fallegasta og merkasta kirkjan í borginni er þessi hér. Eru þó einar fjórar aðrar kirkjur hér en þessi ber af. Plaza de Mercado. Opin alla daga nema sunnudaga frá 10 til 14 og 17 til 20. Aðgangur ókeypis.

>> Kirkja heilagrar Maríu (Iglesía de Santa Maria de Palacio) – Sannarlega fjölbreytni í nafngiftum hér um slóðir. Þessi kirkja sem einnig er tileinkuð heilagri Maríu var þó á árum áður ekki kirkja heldur konungleg höll. Byggð 1130 og fékk musterisregla húsið til eignar ekki svo skömmu síðar. Þó forvitnileg ásýndar sökum þríhyrnds turns kirkjunnar. Hún stendur við Marqués de San Nicolas. Opin virka daga nema mánudaga 10 til 14 og 16:30 til 19. Aðgangur einnig ókeypis hér.

>> Espalón garðurinn (Paseo de Espalon) – Huggulegasti garður borgarinnar er þessi hér sem troðfyllist af fólki að skoða fólk öll síðdegi og frameftir. Indælt að setjast niður hér í erli dags og ef hitinn er að fara með fólk en í raun lítið að sjá merkilegt.

>> Gamli bærinn (Casco Viejo) – Meðan stærsti hluti þessarar litlu borgar er nútímalegur og lítt heillandi skoðunar gildir öðru um gamla miðbæinn. Er sá einn viðkomustaður pílagríma sem ganga Jakobsveginn til Santiago de Compostela og þess vegna má búast við að sjá ferðamenn hér töluvert.  Kringum gamla bæinn er enn heillegt borgarvirki víða og útsýn ágæt til norðurs og yfir ánna Ebro. Fjöldi bara og veitingastaða hér og ólíkt kannski öðrum gömlum miðborgum í stærri borgum Spánar er verðlag hér ekki tvö- eða þrefalt sökum ferðamanna. Þeir eru nefninlega ekki það algengir að það borgi sig. Gamla bæinn má skoða í heild á tveimur til þremur tímum í rólegheitum. Ritstjórn mælir sérstaklega með Calle de Laurel götu þegar að daginn tekur að halla. Sú gata er þekkt um Spán allan fyrir frábæra smáréttabari og æði skrautlegt næturlíf.

>> Ebro garður (Parque del Ebro) – Annar ágætur garður er þessi hér á bökkum Ebro árinnar. Hér er fjöldi fólks þegar veður er gott og stórfínn staður til slökunar eftir miðdegisverð eða of mikið vín yfir hádaginn.

Matur og mjöður

Gnótt af góðum smáréttabörum hér, 50 tapasbarir í sex götum í gamla bænum, og ekki er afgreitt neitt drusluvín með. Ritstjórn Fararheill fór víða og pantaði oft vín hússins eða einfaldlega rauðvín og í hvert sinn var afgreitt La Rioja vín og oftast nær eldra en fimm ára gamalt. Fyrir glas af rauðvíni má búast við að greiða eina til tvær evrur. Má eiginlega segja að Logroño sé ómissandi stopp fyrir vínáhugafólk.

Í september ár hvert fer fram Hátíð vínsins, San Mateo, og stendur í vikutíma. Þá opna margir vínbændur og vínræktendur í nágrenni við borgina dyr sínar fyrir áhugasömum en ekki síður er borgin sjálf skreytt og allir drekka vín eins og enginn sé morgundagurinn. Meira að segja gosbrunnar í borginni spýta rauðu þennan tíma en þó ekki víni.

Líf og limir

Borgin er ekki ýkja stór og eftir hálfan dag ætti fólk að geta þvælst um án þess að þurfa kort til að fylgja. Smáglæpir hér sem annars staðar en heilt yfir öruggur staður að vera á.