T öluverður tími er nú liðinn síðan borgin Toledo var miðpunkturinn á Íberíuskaganum öllum og höfuðvígi Mára þegar þeir réðu Andalúsíu eins og hún lagði sig. Hún var einnig fyrsta stóra borgin sem kristnir vígamenn náðu að vinna á sitt vald þegar herir kristinna og Mára tókust á fyrr á öldum. Þá var Toledo einn af fáum stöðum á Spáni á sínum tíma þar sem gyðingar voru ekki litnir hornauga og áhrif þeirra má enn merkja hér.

Í dag er Toledo ómissandi öllum þeim er áhuga hafa á sögu og minjum enda óvíða á Spáni, nema ef vera skyldi í Granada, þar sem tekist hefur betur að varðveita söguna í byggingum og götum. Þó ár og aldir séu síðan Márar flýðu héðan í hrönnum er enn keimur af veru þeirra hér sem gerir Toledo bæði skemmtilegri og undarlegri en ella.

Og falleg er hún borgin enda stendur hún á hárri hæð umlukin Tagus ánni sem gerði hana næsta óvinnandi á sínum tíma. Vel er skiljanlegt hvers vegna borgin öll er eins og hún leggur sig á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Til og frá

Til Toledo er annars vegar komist með einkabíl eða rútum. Með einkabíl nægir að finna þjóðveg A 42 frá Madríd og fylgja svo vegmerkingum sem eru góðar og enginn ætti að eiga í vandræðum með að rata.

Hingað eru daglegar rútuferðir frá höfuðborginni Madríd sem er í 70 kílómetra fjarlægð. Fara rútur á hálftíma fresti til Toledo frá rútustöðinni við Méndez Alvaro. Tekur ferðin um klukkustund og er miðaverð báðar leiðir kringum 4.000 krónur.

Fljótlegasta leiðin er þó með AVE hraðlestinni til Sevilla en sú stoppar í Toledo. Fer hún frá Atocha stöðinni í Madríd og er aðeins 30 mínútur á leiðinni. Miðaverð fram og tilbaka samdægurs er 3.300 krónur.

Til umhugsunar: Frá rútu- og lestarstöðinni í Toledo er spottakorn upp í borgina og finnst sumum það brött ganga. Strætisvagnar ganga þó frá stöðinni og inn í miðbæ ef það hentar og leigubílar eru hér jafnan líka á sumrin.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Catedral Primada Santa Maria de Toledo) – Ein allra fallegast kirkjan í öllu landinu er þessi mikla bygging sem stendur hátt í borginni. Hún er hreint ekki síðri þegar inn er komið enda stærri en hún virðist að utan og afar tignarleg. Þá er kirkjan full stórkostlegra listaverka úr gulli og silfri og hér hanga myndir margra mikilla listmeistara á veggjum. Verk manna eins og Goya, Titian, Rubens og Raphael auk eins frægasta verks El Greco; afklæðning Jesú. Margir líta á þessa dómkirkju sem hjarta kaþólskrar trúar á Spáni jafnvel þó frægð hennar utan Spánar sé töluvert minni en guðshúsanna í Burgos og Santiago svo tvö dæmi séu nefnd.

>> Borgarvirkið (Alcázar) – Mest áberandi bygging borgarinnar er Borgarvirkið eða höllin hvernig sem á það er litið en hún sést víða að. Sú bygging var upprunalega byggð á þriðju öld þegar Rómverjar réðu hér en á síðari tímum var hún dvalarstaður hefðarmanna og reyndar konunga um tíma. Byggingin var endurbyggð 1535. Hún kom talsvert við sögu í spænsku borgarastyrjöldinni í upphafi síðustu aldar. Mikið og fallegt mannvirki og útsýni af toppnum æði gott í góðu veðri.

>> Kirkja heilags Tómasar (Iglesia de Santo Tomé) – Ekki fer ýkja mikið fyrir þessari kirkju en eitt hefur hún sem gert hefur hana fræga innanlands og utan. Eitt af mestu meistarverkum málarans El Greco er hér að finna: Jarðarför greifans af Orgaz. Heimasíðan.

>> Konungsklaustrið (Monasterio de San Juan de los Reyes) – Fallegt og stórt klaustur við Calle de los Católicos götu. Það var byggt að skipan Ferdinands konungs og Isabellu drottningar til að minnast sigurs Spánverja á Portúgölum árið 1476. Strætisvagn 2. Opið daglega 10 – 13 og 15 – 19. Aðgangseyrir 250 krónur.

>> Hlið Alfonso ellefta (Puerta de Alfonso IV) – Vel endurnýjað borgarhlið að gamla bænum sem markar endimörk borgarinnar á sínum tíma.

>> Brú heilags Martín (Puente de San Martín) – Ein af þjóðargersemum Spánar er þessi fallega brú yfir Tagus ánna. Sérstaklega er hún tilkomumikil í ljósaskiptunum þegar hún er lýst upp.

>> Bisagra hliðið (Puerta de Bisagra) – Enn eitt borgarhliðið en þetta er frá tímum Mára og er vel innan við borgarmúra þá er Spánverjar reistu síðar. Sést vel munurinn á þessu hliði og þeim spænsku.

>> Moska Krists Ljóssins (Mezquita del Cristo de la Luz) – Það er vandfundin önnur eins moska og þessi við samnefnda götu. Reist árið 999 og er enn ótrúlega heilleg innan sem utan. Nema hvað hún er skreytt að hluta helgimyndum kristinna manna sem síðar tóku yfir borgina en leyfðu moskunni að vera. Opin 10 – 14 og 15 – 19 virka daga og 10 – 17 um helgar. Miðaverð 370 krónur.

>> Alcántara brúin (Puente de Alcántara) – Önnur brúin yfir fljótið Tagus til gömlu borgarinnar og þessi er líka þjóðargersemi Spánar. Frá brúnni er yndisleg sýn yfir kastalann og hluta borgarinnar.

Verslun og viðskipti

Toledo fer seint í nokkrar bækur sem mekka verslunar en hér má engu að síður finna marga góða hluti til sölu sem ekki er gert mikið út á í öðrum borgum Spánar. Eru það handunnir minjagripir heimamanna sem oftar en ekki tengjast sögunni. Hér má kaupa húðaða silfurmuni haganlega smíðaða eftir kúnstarinnar reglum. Hér má kaupa raunverulegar sveðjur hannaðar á sama hátt og sveðjur Mára sem hér réðu ríkjum um tíma. Stór og mikil sverð fást hér líka og keramikvörur frá Toledo eru það vel gerðar að slíkt má finna nánast á hverju einasta spænska heimili.

Síðast en ekki síst fást svokallaðir damascene gripir hér í töluverðu úrvali. Eru það víðfrægir skartgripir sem skreyttir eru eftir eldgömlum aðferðum. Eru slíkir gripir frá Toledo landsþekktir á Spáni öllum en eru nokkuð dýrir enda margir þeirra skreyttir alvöru gulli.

Til umhugsunar: Það er ósköp freistandi að kaupa stór og glæsileg sverð eða sveðjur hér en því miður leyfist enginn slíkur innflutningur á Íslandi. Slíkt verður gert upptækt ef það finnst og eyðilagt.

Matur og mjöður

Ekki mikið úrval veitingastaða hér í borginni en þeir eru góðir sem hér eru.

Líf og limir

Glæpir eru ekki vandamál hér og ekkert þarf að óttast á ferð hér hvort sem það er að degi til eða nóttu.