B orgin Burgos er líklega ekki ofarlega á lista Spánarfara frá Íslandi nema ef vera skyldi fyrir þann frækna hóp sem leggur á sig að fara Pílagrímaleiðina til Santíago en vinsælasta leiðin þangað liggur að hluta um Castillo y Leon héraðið og borgina Burgos.
Borgin per se er ekki ýkja frábrugðin öðrum spænskum borgum norðarlega á Spáni nema fyrir þá sök að hér rennur falleg á, Arlazón, gegnum alla borgina en meðfram henni liggur einmitt fyrrnefnd pílagrímsleið. Það er líka við einn hluta þeirrar ár sem gamli borgarhluti Burgos stendur og sá er bæði fallegur og státar af einni merkustu kirkju Spánar og þótt víðar væri leitað.
Hér búa 170 þúsund manns í heildina og Burgos er fremst meðal allra spænskra borga þegar kemur að sjálfbærni. Hér eru einkabílar bannaðir í miðbænum, hjól víða til leigu og allir strætisvagnar nota endurnýtanlega orku.
Til og frá
Flugvöllur Burgos heitir Aeropuerto de Burgos en þekktari meðal heimamanna sem Villafría. Sá er skammt frá borginni í tíu mínútna fjarlægð en með stöku undantekningum er sá aðeins notaður til innanlandsflugs. Leigubíll í miðborgina héðan kostar varla meira en 1.500 krónur.
Fleiri koma hingað á eigin vegum á bíl, með rútum eða lestum og þá helst frá Madríd en þaðan er tæplega þriggja stunda akstur þó hægt sé að komast á tveimur tímum á einkabíl. Rútustöð Burgos er í miðborginni í fimm mínútna göngufæri frá gömlu borginni en lestarstöðin aðeins meira út úr þó vissulega í göngufæri.
Söfn og sjónarspil
>> Dómkirkjan (Catedral de Burgos) – Þessi magnaða dómkirkja sést langt að komi fólk með lest eða bíl að borginni. Turnar hennar standa upp úr borginni og mynda ævintýralegan sjarma sem reyndar deyr nokkuð þegar inn í borgina er komið. Dómkirkja þessi er sannarlega með þeim allra fallegustu í veröldinni, hún er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og er eina spænska kirkjan sem þann heiður hefur hlotið ein og sér en gamli bærinn við kirkjuna er til að mynda ekki á sömu skrá líkt og víða gerist annars staðar. Kirkjunar tók rúmlega 300 ár að klára. Hófst smíðin árið 1221 og lauk 1567 en þó voru löng hlé á milli. Kirkjan er eins gotnesk og frekast er unnt og reyndar af mörgum talin klár fyrirmynd gotneskra kirkja um víðan völl. Ekki aðeins er kirkjan sjálf sjón að sjá heldur er hún troðfull af listaverkum ýmis konar sem ómetanleg eru. Hún sést nánast alls staðar að í borginni og því hættan á að villast í Burgos nánast engin. Rólegur túr um kirkjuna tekur um klukkustund fyrir áhugasama og er ákjósanlegur staður þegar hitinn er hvað mestur yfir hádaginn. Kirkjan er opin skoðunar alla daga frá 8:30 til 13:30 og aftur milli 16:30 og 20 nema á sunnudögum þegar hún er aðeins opin seinnipartinn. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.
>> Musteri hinna konungbornu (Monasterio de las Huelgas) – Musteri eitt mikið og fallegt sem notað var sem afdrep konungborinna eða þeirra er konungur sendi út af örkinni fyrr á öldum. Því var komið á fót árið 1180 og þótti lengi vel eitt allra fallegasta guðshús hins þekkta heims. Engin vafi leikur á að stoppa hér og skoða ef Burgos er heimsótt á annað borð. Musterið er enn í notkun að hluta og hafa skal það í huga við heimsókn. Heimasíðan.
>> Miraflores musterið (Cartuja de Miraflores) – Annað fallegt musteri sem hér er að finna en í nokkurri fjarlægð frá miðborginni. Fyrir utan fallegheitin eru hér grafin Jón kóngur og Ísabella hin portúgalska drottning og börn þeirra tvö. Musterið var þó eyðilagt að miklu leyti þegar Frakkar réðust inn í Spán árið 1814. Við Fuentes Blancas. Opið virka daga 10 til 15:30 og aftur milli 17 og 20. Ókeypis aðgangur. Heimasíðan.
>> Þróunarsafnið (Museo de la Evolucíon Humana) – Þetta safn verða allir að skoða sem hér eru á ferð. Langbesta safn borgarinnar og hið eina sinnar tegundar í landinu en hér er rakin á afar skemmtilegan hátt saga og þróun mannkyns. Einkar vel heppnað safn sem opnaði árið 2010 og er þegar komið á lista tíu bestu safna landsins að mati ferðamálayfirvalda. Paseo Sierra de Atapuerca. Opið virka daga 10 – 14:30 og aftur milli 17 og 20. Um helgar stanslaust frá 10 til 20. Miðaverð 1.100 krónur. Heimasíðan.
>> Burgos safnið (Museo de Burgos) – Ekki yfirgengilega skemmtilegt nema fólk vilji upplifa sögu og þróun borgarinnar en hýst í fallegri byggingu og safnið gott í samanburði við slík söfn annars staðar. Það helgast vitaskuld af því að í Burgos gerðust mörg ævintýrin. Calle de Miranda. Opið virka daga 10 til 14 og 16 til 19 og 10 til 14 um helgar. Miðaverð litlar 190 krónur. Heimasíðan.
>> Hlið heilagrar Maríu (Arco de Santa María) – Glæsilegt borgarhlið að gömlu borginni en gegnum það er gengið beint að fallegri dómkirkjunni.
>> Listasafnið (Centro de Arte Caja de Burgos) – Nett núlistasafn sem þykir feykigott miðað við stærð borgarinnar og þá staðreynd að Burgos er ekki nafli listheimsins. Þetta safn mun bara verða betra því Burgos er Menningarborg Evrópu árið 2016 og þetta safn verður einn af miðdeplum þeirrar hátíðar. Calle Saldaña. Opið 12 til 14 og 17:30 til 20 virka daga og laugardaga. Miðaverð 1.800 krónur. Heimasíðan.
>> Cordon kastalinn (Casa del Cordon) – Einn af mörgum köstulum sem þekja þetta landsvæði. Ekkert til að hrópa húrra fyrir en fallegur og stutt frá miðborginni við Plaza Calvo Sotelo. Ókeypis aðgangur.
>> Burgos kastalinn (Castillo de Burgos) – Hátt yfir borginni stendur þessi myndarlegi kastali og var áður fyrr brjóstvörn borgaranna. Hann er hrár og ekki mikið fyrir augað en gefur fína útsýn yfir sveitir landsins. Neðanjarðargöng er að finna innan kastalaveggjanna og þau hægt að skoða líka. Hann er þó ekki ýkja vel merktur en hann finnst í raun með því að klifra upp á við frá miðborginni. Gangan upp er þó brött og tekur aðeins í. Cerro de San Miguel. Miðaverð 700 krónur með aðgangi að göngunum.
Matur og mjöður
Burgos er meðalmennskan í matargerð að mestu leyti með einni undantekningu þó; hér er framleiddur hinn landsfrægi Burgos ostur, queso de Burgos, sem þykir æði mikið lostæti meðal Spánverja. Ekki síður vinsæl er Burgos pylsan, murcillo de Burgos, en sá réttur er vinsæll í smárétti hvers konar víða á Spáni. Þetta er svört svínapylsa fyllt lauk og hrísgrjónum og þykir hollustufæði mikið.
Hér er ágætt úrval veitingastaða og bara og verðlagning lækkar óðum því fjær sem farið er gömlu borginni. Afar skemmtilegt er að taka inn mannlífið í fallega skreyttum garði milli árinnar og gömlu borgarinnar, Paseo del Espolón, en sá staður gefur líka skjól fyrir heitri sólinni á sumrin.
Verslun og viðskipti
Sé einhver hingað komin til að versla ætti sá hinn sami að láta kíkja á hausinn á sér. Hér eru verslanir eins og gengur en lítið af merkilegu til sölu í þeim annað en það sem hinn hefðbundni borgarbúi notar og brúkar. Hér eru þó nokkrar minjagripaverslanir sé slíkt að heilla en aðrar verslanir ekki í frásögur færandi.
Líf og limir
99,9 prósent öruggt að vera hér. Borgin lítil og lögregla víða á ferð.
View Áhugaverðir staðir í Burgos á Spáni in a larger map