S é hægt að kalla einhverja borg heimsins sérstaklega barn síns tíma fær Havana, höfuðborg Kúbu, tíu af tíu mögulegum í þeim flokki. Ekki aðeins vegna þess að gamli miðbærinn er eins og hann leggur sig á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna heldur ekki síður vegna þess að Havana, eins og Kúba öll, er að töluverðu leyti enn föst á sjöunda áratugnum.
Margt hefur verið rætt og ritað um Havana og þeir ferðalangar sem þola þá töluverðu ágengni sem þar viðgengst finnst borgin og stemmningin í henni undantekningarlítið stórkostleg.
Það vill stundum gleymast á síðari tímum að Havana var ein allra mesta partíborg heims fyrir byltingu Fidels Castro á fjórða áratugnum. Þá var enginn maður með mönnum nema dvelja hér og má víða enn sjá leifar af þeim stórhuga hugsunarhætti sem einkenndi uppbyggingu og þá sérstaklega bandarískra auðjöfra sem hugðust gera Havana að nokkurs konar Monte Carlo Bandaríkjanna.
Eftir byltinguna var landið að mestu lokað ferðamönnum fram til ársins 1990 þegar loks var farið að slaka á kröfum og upp frá því hefur landið risið á ný sem fyrirtaks ferðamannastaður. Hlutar á eynni eru nú í engu frábrugðnir fjöldaferðamannastöðum á Spáni, Ítalíu eða Tyrklandi en höfuðborgin viðheldur sínum sjarma makalaust vel. Enn hafa ekki risið þar nein stórkostleg himinhá hótel sem um leið eyðileggja ásjónu borgarinnar.
Hér er þó mikill fjöldi ferðamanna öllum stundum og búast má við löngum röðum á flesta athyglisverða staði í borginni. Hjálpar þar ekki til að skrifræði er töluvert og tölvutæknin af skornum skammti.
Tveir gjaldmiðlar eru á eynni. Kúbanskur peso fyrir heimamenn og svokallaður Breytilegur kúbanskur peso, cuban convertible peso, fyrir ferðafólkið. Mörgum bregður í brún yfir verðlagi í landinu sem í raun jafnast á við verðlag í öðrum vestrænum löndum.
Til umhugsunar: Þrátt fyrir allt er hægt að skipta erlendum gjaldmiðli í kúbanskan pesó. Biðja skal um það sérstaklega og skipta þá litlu í einu. Ritstjórn Fararheill.is hefur reynslu af því að þetta gangi snurðulaust ef ekki er beðið um of háar upphæðir í einu. Með þá mynt er hægt að fá ansi marga hluti ódýrar en ella en þó aðeins með aðstoð heimamanns því ekki er heimilt að brúka þá mynt af ferðafólki á ríkisreknum stöðum.
Til og frá Havana
Alþjóðaflugvöllur Havana er Aeropuerto José Marti flugvöllurinn. Sá er í um fimmtán kílómetra fjarlægð frá borginni og samanstendur af þremur flugstöðvarbyggingum. Völlurinn er tiltölulega einfaldur, eins og reyndar flest á Kúbu, og fær ekki háa einkunn fyrir þrifnað eða þjónustu.
Þar má þó finna seðlaskiptaþjónustu og banka þar sem má skipta erlendum seðlum enda fást kúbanskir pesóar ekki víða erlendis. Pósthús er hér líka og netkaffi er í einni byggingunni. Þá er og hótelbókunarþjónusta og bílaleigur auk nokkurs fjölda verslana og veitingastaða.
Akstur inn í borgina tekur um 25 mínútur og ólíkt velflestum öðrum borgum heims eru tafir undantekning vegna umferðar. Það segir þó sitt um hversu vinsæl borgin er að hér kostar leigubíll frá flugvellinum og inn í borg um þrjú þúsund krónur aðra leiðina. Það er dýrari 30 mínútna rúntur en í mörgum stærri borgum heims. Nóg framboð er alla jafna af þeim fyrir utan flugstöðina.
Hinn möguleikinn til og frá flugvellinum er með smárútum eða skutlum en þær eru töluvert dýrari og í raun aðeins hagkvæmt hjá stærri hópum.
Til umhugsunar: Tollverðir á flugvellinum eru strangir og leita töluvert í töskum ferðamanna að hlutum sem ekki þykir eftirsóknarvert að fá inn í landið. Það hefur í för með sér að góðan tíma tekur yfirleitt að fá töskurnar úr vélinni og verður oft að nota ítrustu þolinmæði. Þá þurfa Íslendingar að fylla út sérstakt ferðamannakort við komuna en það fæst yfirleitt í vélunum eða í versta falli á flugvellinum sjálfum.
Nokkrar lestir ganga til og frá Havana. Þær eru eins og annað hér vel komnar til ára sinna og lausar við allan lúxus. Þá ferðast þær afar hægt þar sem lestarteinarnir sjálfir eru í slæmu ásigkomulagi. Varhugavert er að gera ráð fyrir að tímaáætlanir standist vel enda bilanir tíðar.
Er kerfið rekið af Ferrocariles de Cuba en engin vefsíða er rekin af fyrirtækinu. Miðasala fyrir útlendinga er staðsett fyrir aftan lestarstöðina í Havana og er nauðsyn að kaupa miða með eins eða tveggja daga fyrirvara. Þá er og nauðsyn að láta fá sérstaka ferðamannakvittun daginn sem ferðast er og hafa vegabréf meðferðis.
Lestarferð er þó kjörin leið til að kynnast vingjarnlegum Kúbverjum jafnvel þó sætin séu hörð og engin klósettpappír sé á klósettum.
Frá Havana eru í boði ferðir til:
- Havana – Santa Clara
- Havana – Camagüey
- Havana – Santiago de Cuba
- Havana – Pinar del Rio
- Havana – Matanzas
Fargjald aðra leiðina milli Havana og Santiago de Cuba kostar 7.300 krónur.
Rútur eru algengar og hægt að komast því sem næst hvert sem er með þeim frá Havana. Viazul er ríkisrekna rútufyrirtækið en rúturnar öllu nýlegri en lestirnar flestar. Þá hefur Viazul uppgötvað netið.
Ratvísi
Gróflega má segja að þau hverfi sem máli skipta fyrir ferðafólk í Havana sé annars vegar Gamli bærinn, El Habana Viejo, sem er hjarta borgarinnar þó kominn sé til ára sinna. Þessi hluti með sínum gömlu en fjölbreyttu byggingum og þröngu götum er sá hluti sem ferðamenn alla jafna heillast mest af í borginni.
Annað hverfi sem nýtur vaxandi vinsælda enda þar meira líf er Vedado til norðurs og vesturs frá Gamla bænum. Hér er næturlífið mest og best og vart minni hasar hér á daginn.
Miðborgin, Centro Habana, er sérhverfi þó margir telji það hluta af Vededo. Hér finnast þó öllu fleiri verslanir en í því síðarnefnda. Önnur markverð hverfi eru Marianao og Miramar sem bæði eru falleg en fyrst og fremst íbúðahverfi og í Miramar búa og hafa ávallt búið þeir sem meira hafa mátt sín.
Samgöngur og snatterí
Besta leiðin til að kynnast Havana er á tveimur jafnfljótum og með gott borgarkort sér við hlið. Borgin býr yfir mörgum athyglisverðum skúmaskotum auk fínna safna og stemmningin er alltaf skemmtileg.
Sé þörf á að skoða mikið á skömmum tíma eru leigubílar fljótasta leiðin. Þeir eru út um allt og margir þeirra vel komnir til ára sinna. Lög á Kúbu banna ferðamönnum að taka aðra en leigubíla með ríkisleyfi. Þeir eru yfirleitt dýrari og flottari og margir nútímalegir. Flestir þessir gömlu, lúnu hafa ekki slíkt leyfi en það er engin stórhætta að lögreglan skipti sér af slíku inni í borginni. Þeir eru þó ekkert ódýrari og semja þarf um fargjald áður en lagt er af stað. Gróflega má ætla að styttri fimm mínútna rúntur með leigubíl kosti kringum 1.600 krónur á daginn. Leigubílstjórarnir eru flestir hverjir heiðarlegir en þó eru alltaf skemmd epli inn á milli og ber að hafa varann á sér öllum stundum.
Þá eru í Havana svokallaðir almenningsleigubílar, taxi collectivo, sem þvælast um ákveðnar leiðir og taka eins marga með og komast. Þeir eru líka strangt til tekið ólöglegir fyrir ferðamenn en það er fjör að taka sjénsinn. Þeir eru aðeins ódýrari en styttri leiðir kosta rúmlega þúsund krónur á daginn.
Til umhugsunar: Svokallaður Panataxi er ódýrasti hefðbundni leigubíllinn hér um slóðir. Þeir eru yfirleitt alltaf gulir eða hvítir með rauðu merki og nota mæli. Þeir aka á flugvöllinn fyrir 1.400 krónur eða um þar bil.
Það er aðeins nýlega sem strætisvagnar í Havana hættu að vera stórir tveggja hæða vagnar dregnir af trukki. Slíkir vagnar, el camello, hættu starfsemi 2008 og nú eru á ferð um borgina kínverskir strætisvagnar. Fargjald með þeim kostar 120 krónur, 1 pesó, en hafa verður skiptimynt klára því ekki er gefið til baka.
Sá galli er á að taka bílaleigubíl í Havana að ekki er alveg ljóst öllum stundum hvernig umferðin virkar. Þá getur verið flókið að rata í gamla miðborgarhlutanum og sennilega tímafrekara en að rölta þegar upp er staðið.
Söfn og sjónarspil
>> Uppreisnartorgið (Plaza de la Revolución) – Sennilega þekktasti staðurinn á Kúbu allri enda fóru hér fram byltingarræður Castró og hans manna um áratugaskeið. Var þá tiltölulega stórt og leiðinlegt torgið pakkað af fólki sem hyllti uppreisnarmenn en torgið sjálft er 72 þúsund fermetrar að stærð. Hér má sjá 109 metra stóran minnisvarða um José Martí auk styttu af karlinum en hægt er að fara upp minnismerkið með lyftu. Við torgið standa Þjóðleikhús Kúbu og innanríkisráðuneytið hvers veggur er skreyttur mynd af byltingarhetjunni Che Guavara.
>> Uppreisnarsafnið (Museo de la Revolución) – Annað þekkt kennileiti borgarinnar er hið hvolflaga þak Uppreisnarsafnsins en hér var áður fyrr forsetahöllin áður en Castro náði völdum. Hér er hólf og gólf með fínasta marmara og byggingin er vissulega falleg og merkileg. Safnið er það líka en þó fá margir nóg af þeim minjum er dásama kommúnisma Castrós og félaga. Ýmsir munir frá byltinartímunum má hér sjá og þar á meðal fleyið Granma sem Castro notaði til að koma stjórnarhernum í opna skjöldu þegar byltingin hófst. Safnið stendur við Calle Refugio 1 en er sjáanlegt víða að sökum hvolfþaksins. Opið daglega 10 til 17. Miðaverð 950 krónur.
>> Havana Club verksmiðjan (Fundación Havana Club) – Að frátöldum Castró sjálfum og stórgóðum vindlum er fátt sem Havana er þekktara fyrir um heiminn en Havana Club rommið. Rommframleiðsla á rætur að rekja hingað til Kúbu og safn þetta gerir sögu drykksins góð skil. Sýningin að mestu á ensku og auðvitað er Havana Club bar í safnhúsinu. Það stendur við Avenida del Puerto 262 og er opið frá 9:30 til 17:30 daglega. Aðgangseyrir 650 krónur. Heimasíðan.
>> Strandlengjan (El Malecón) – Átta kílómetra langur vegur meðfram strandlengjunni við miðborgina gömlu en frá el Malecon er fínasta útsýni yfir flóann og ekki síður til fjölmargra merkilegra bygginga. Malecón nær alla leið frá höfninni til elsta borgarhlutans í Vedado. Það er hér sem fjöldi borgarbúa koma til að sleikja sól og slaka á við ströndina.
>> Gamli bærinn (La Habana Vieja) – Elsti hluti Havana borgar og sá hluti hennar sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt sá hluti borgarinnar sem flestir ferðamenn skoða og þvælast um og ekki að ástæðulausu enda margt að sjá og upplifa. Fellibylur eyðilagði fjölmörg gömlu húsanna hér árið 2008 en verulegum fjármunum hefur verið varið til að halda gamla bænum við.
>> Vopnatorgið (Plaza de Armas) – Eitt merkasta og fallegasta torg borgarinnar er Vopnatorgið sem segja má að sé vagga borgarinnar en hér í kring byggðu spænskir sínar allra fyrstu byggingarnar eftir landnám. Torgið sjálft tilþrifamikið og hér jafnan krökkt af ferðamönnum.
>> Morro virkið (Castillo de los Tres Reyes Magos de Morro) – Morri kastalinn var byggður af Spánverjum 1589 til að verja innsiglinguna inn í höfn Havana á sínum tíma. Er þó í raun enginn kastali eins og spænska nafnið gefur til kynna heldur virki og er eðalstaður til að spássera en virkið sjálft er ekki sérstaklega fyrir augað. Safn er inni í virkinu en mesta aðdráttaraflið er meiriháttar útsýni yfir höfnina og ekki síður strandlengjuna við Malecon. Virkið er auðvelt að sjá víða að en það stendur við Carretera de la Cabaña. Hér eru ennfremur nokkrar verslanir og veitingastaðir. Opið 8 til 20 alla daga. Aðgangseyrir 350 krónur.
>> John Lennon garður (Parque John Lennon) – Það reka margir upp stór augu að koma í þennan litla garð í Vedado hverfi sem í sjálfu sér er bara fallegur lítill garður með einni undantekningu þó. Hér situr á bekk afsteypa af listamanninum John Lennon og er sú eina af vestrænum hljómalistarmanni á Kúbu. Ekkert frámunalegt merkilegt kannski en alltaf gaman að hitta Lennon.
>> Gamla torgið (Plaza Vieja) – Eitt af mörgum smærri torgum í gömlu borginni en það er hér sem hægt er að fá 360 gráðu útsýni yfir borgina alla. Hér er nefninlega Cámara Oscura húsið með tilheyrandi myrkraherbergi. Aðgangseyrir 450 krónur.
>> Þinghúsið (El Capitolio) – Ein fallegasta og mest áberandi byggingin í miðborg Havana er þessi bygging sem var um tíma aðsetur kúbanska þingsins. Minnir húsið um margt á bandaríska þinghúsið en arkitektinn varð fúll við þann samanburð og vildi meina að hann hefði haft Pantheon í Róm sem fyrirmynd kúpta þaksins. Þarna er nú Vísindaakademía Kúbu með aðstöðu og ennfremur er hér hýst Stytta lýðveldisins, La Estatua de la República, en sú er þriðja stærsta stytta heims sem er innandyra.
>> Dómkirkjan (Catedral de San Cristobal) – Dómkirkja Havana stendur við samnefnt torg í gömlu borginni. Kirkjan byggð í barrokkstíl og fallegt innandyra þó ekki sé hún sérstaklega mikið fyrir augað að utan. Hér er sæti erkibiskups Kúbu. Torgið er fallegt og hér er fjöldi fólks allan liðlanga daga og nætur. Kirkjan er oft á tíðum lokuð þó formlega eigi hún að vera opin til heimsókna alla daga.
>> Fínlistasafið (Palacio de Bellas Artes) – Við Trocadero strætið stendur þetta listasafn sem er eitt það merkilegasta Þar er áherslan nær eingöngu á kúbversk listaverk og eru þau flest frá 17. og 19. öldinni. Í sömu byggingu er annað veglegt safn, Antiguo Centro Asturiano, en þar má sjá listaverk frá öðrum þjóðum. Ekkert hér til að missa andann yfir en fróðlegt skoðunar. Opið þriðjudag til laugardags 10 – 15 og 10 til 14 á sunnudögum. Aðgangseyrir 700 krónur. Heimasíðan.
>> Hammel sundið (Callejón de Hammel) – Listamaðurinn Salvador Gonzáles tók sig til einn daginn og málaði heilt stræti í afar skærum litum. Þetta hefur vakið athygli og er nú einn af vinsælli áfangastöðum ferðamanna í borginni. Þar hafa í seinni tíð aðrir götulistamenn komið sér fyrir og selja og sýna vörur sínar. Eykur það töluvert áhrifin að sundið, milli Calle Espada og Calle Aramburu, er afar þröngt. Frír aðgangur. Ómissandi stopp.
>> Módelborgin (Maqueta de la Habana) – Í galleríi við Calle 28 í Miramar hverfinu má finna merkilegt módel af Havanaborg allri í smækkaðri mynd sem er fróðlegt skoðunar og ekki síst þegar fólk áttar sig illa á borginni. Módelið er risastórt og er stærð þess 144 fermetrar og afar nákvæmt. Opið mánudag til laugardag milli 9:30 og 17:30. Miðaverð 350 krónur en 200 króna aukagjald ef teknar eru myndir.
>> Columbus kirkjugarðurinn (Cementerio de Colón) – Grafreitir eru kannski ekki ýkja spennandi áfangastaðir alla jafna en þessi er undantekning. Það helgast af miklum skúlptúrum sem í garðinum eru. Glæsilegar styttur og legsteinar prýða grafir margra sem hér liggja og nokkrar klukkustundir hér eru þess virði. Ókeypis leiðsögn í boði alla daga við garðinn en ráð er gert fyrir 200 krónum í þjórfé. Garðurinn stendur við Calle Zepada í Vedado.
>> Borgarlistasafnið (Museo de la Ciudad y Templete) – Borgin í máli og myndum á þessu ágæta safni við Calle Tacón við Vopnatorgið. Safnið er hýst í afar vel varðveittri átjándu aldar byggingu sem var lengi vel aðsetur kúbverska þingsins. Hér er margt og mikið að sjá og er það vel kostnaðar virði að rölta hér um stóra sali og ganga sem skreyttir eru í hólf og gólf. Þá er hér mikil hvít marmarastytta af landnemanum Kristófer Kólumbus. Opið alla daga 9 – 18. Greiða þarf heilar 400 krónur fyrir sjónarspilið. Heimasíðan.
>> José Martí safnið (Museo Casa Natal de José Martí) – Elsta safnið í allri Havana er fæðingarstaður þjóðhetjunnar José Martí. Safnið er hefðbundið íbúðarhús í gamla bænum og svosem ekki ýkja margt að sjá annað en muni í eigu fjölskyldu Martí. Calle Leonor Pérez 314. Opið virka daga 10 til 16. Miðaverð 300 krónur.
>> Tóbakssafnið (Museo del Tabacco) – Tóbak er jafn stór hluti af Kúbu og Fidel Castro sjálfur enda óvíða sem betri fást vindlingar og vindlar en á Kúbu. Hér er ríkisrekið safn þar sem saga tóbaksræktunar er sögð í máli og myndum. Fróðlegt fyrir áhugafólk og ekki síst eftir að hafa skoðað einhverja af þeim tóbaksverksmiðjum sem í Havana eru. Calle Mercaderes 120. Opið mán til laug milli 10 og 16. Heimasíðan.
>> La Cabaña virkið (La Fortaleza de San Carlos de la Cabaña) – Skammt frá Morro virkinu við höfnina í Havana stendur annað virki litlu síðra. Það var byggt 1784 til að verjast sérstaklega árásum Breta sem þá gerðu sig full heimakomna að mati þeirra spænsku. Eins og í Morro virkinu er hér safn um sögu virkisins og ber þar helst að nefna herbergi það sem Che Guevara notaði sem höfuðstöðvar sínar þegar uppreisnarmenn reyndu að vinna borgina 1959. Það er einnig hér sem sjá má lengsta vindil heims en sá er í heimsmetabók Guinness og nær ellefu metra lengd. Hér er á hverju kvöldi skotið úr fallbyssu á slaginu klukkan 21 og er það ágæt skemmtun svo lengi sem menn halda fyrir eyrun. Má reyndar ávallt vita hvað klukkan er hvar sem er í Havana því hljóðið berst um hana alla. Hér eru nokkrir veitingastaðir ef svengd sækir að. Miðaverð 350 krónur og opið daglega 10 til miðnættis.
>> Hemingway safnið (Museo Ernest Hemingway) – Hemingway safnið er staðsett í úthverfinu San Francisco de Paula í um tólf kílómetra fjarlægð frá miðbæ Havana. Þangað kíkja flestir sem höfuðborgina heimsækja en deila má um hvort heimsókn sé þess virði. Aðeins er í boði að skoða neðstu hæðina þar sem Hemingway gerði sér heimili um 20 ára skeið og þar er enn flest nákvæmlega eins og það var þegar rithöfundurinn frægi var á lífi. Hér er líka í skúr einum skútan Pilar sem Hemingway notaði til veiða. Héðan er líka allágætt útsýni til borgarinnar enda stendur húsið, sem kallast Finca la Vigía, hátt. Hafa skal í huga að safnið lokar þegar rignir til að vernda innanstokksmuni. Hingað er einfaldast að komast með leigubíl. Aðgangseyrir 400 krónur.
>> Partagas tóbaksverksmiðjan (Fábrica de Tabaco Partagas) – Þær eru allmargar tóbaksverksmiðjurnar í Havana en þessi er líklega þeirra frægust og stærst. Hér hafa vindlar verið framleiddir síðan 1845. Ferðir með leiðsögn um verksmiðjuna tvívegis daglega en myndataka bönnuð. Hér er einnig tóbakssala ef vörurnar heilla gestina. Verksmiðjan er staðsett bakvið Þinghúsið, el Capitolio, og er opin milli 9:30 og 11 og aftur milli 12:30 og 14:30. Vænlegt er að panta leiðsögn með fyrirvara. Túr tekur 45 mínútur og kostar 1.800 krónur.
Verslun og viðskipti
Það er ekki margt sem hægt er að kaupa í Havana og enn minna hægt að fá á sæmilegu verði. Tvöfalt efnahagskerfið þýðir að ferðafólk greiðir nánast sama verð fyrir hlutina hér og gerist annars staðar í evrópskum borgum. Á þessu eru þó auðvitað stöku undantekningar. Verslanir eru flestar opnar 10 til 18 daglega nema sunnudaga.
Til umhugsunar: Nokkurn fjölda hraðbanka er að finna í miðborg Havana og ekkert sérstakt vandamál að taka út peninga. Vænlegast er að forvitnast hjá bankanum þínum hvort kortið sé gilt á Kúbu því kort á borð við American Express eru það ekki vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna á Kúbu.
Engu að síður má heita að allt annað en romm og vindlar sé ekki þess virði að versla. Sala handgerðra muna er orðinn töluverður bissness í Havana en sá bransi er í raun aðeins tíu ára gamall og engin hefð fyrir slíku handverki í landinu. Slíkt er því tiltölulega yfirborðskennt dót meira eða minna. Úrval fatnaðar eða skartgripa er lítið enda þurfa heimamenn yfirleitt ekkert annað en bol til að vera góðir til brúksins.
Vindlar, romm og tónlist eru líklega þeir vöruflokkar sem hagstæðast er að versla hér en slíkt er þó alls ekki sérstaklega ódýrt. Ódýrasta tegund af Havana Club rommi fæst vart undir 1.100 krónum og dýrari rommtegundir kosta stundum meira en gerist í Evrópu. Algengt verð á tónlistardiskum er kringum 1.200 krónur en varast skal götusala sem slíkt selja því gæði þeirra er yfirleitt vel undir meðallagi. Vindlar eru líka ekkert sérstaklega ódýrir. Minnsti pakki af smávindlum frá þekktari framleiðanda fæst vart undir 3.500 krónum.
Verslunarmiðstöðvar hafa risið hér síðustu árin. Sú stærsta er Centro Comercial Carlos III við Avenida Salvador Allende. Sjá heimasíðuna hér en hafa skal í huga að verð eru í dollurum en ekki pesóum.
Markaðir í Havana eru einnig nokkuð fátækari en vestrænir ferðamenn eiga að venjast. Þar er þó hægt að eyða tíma og upplifa ákveðna stemmningu. Helstu markaðirnir fara fram miðvikudaga til laugardags í götum er liggja að Malecón strandgötunni. Einnig er markaður á sama tíma við Dómkirkjutorgið, Plaza de Catedral, en sá er opinn frá 10 til 18.
Matur og mjöður
Versti maturinn í öllu Karabíska hafinu finnst á Kúbu er mat margra sem dvalist hafa í landinu. Má að vissu leyti til sanns vegar færa enda matarmenning lítil sökum almennrar fátæktar í landinu og takmarkaðs innflutnings. Hafa máltíðir því ætíð verið einfaldar og þó betur sé nú gert við ferðamenn í mat en áður fyrr á hótelum og matsölustöðum er langur vegur eftir enn.
Hafa skal í huga að morgunverð er í raun ekki hægt að fá neins staðar í Havana fyrir utan hótelin sjálf og stöku sinnum í heimagistingu.
Á ríkisreknum veitingastöðum, sem eru flestir af þeim betri, fæst máltíð fyrir tvo fyrir 3.500 krónur en hægt er að kaupa eitthvað matarkyns frá götusölum fyrir 500 kall eða svo.
Hvað mjöðinn varðar er hér gnótt góðra drykkja. Þar fara fremstir kokkteillinn frægi mojito sem sennilega fæst hvergi betri en hér og romm er fyrsta flokks alls staðar. Ef þú vilt taka túristann á barnum er vinsælt að setjast á barina tvo sem Hemingway sótti stíft og drakk sig oftar en ekki ofurölvi. Floridita er staðsettur við Calle Obispo 557 í gamla bænum. Hinn er Bodeguita del Medio sem er staðsettur í Calle Empedrado en þar héngu líka stórkarlar eins og Pablo Neruda og Salvador Allenda.
Hús og híbýli
Þó margt hafi breyst til batnaðar gagnvart ferðafólki á Kúbu eru hótel velflest vel fyrir neðan þá staðla sem vestrænir ferðamenn eiga að venjast. Reglulega er rafmagn skammtað og aðeins dýrustu hótel búa yfir varaaflsstöð. Sömuleiðis er vatn af skornum skammti og það er nánast regla frekar en undantekning að vatnslaust verði einu sinni eða oftar meðan á hóteldvöl stendur. Gildir þetta um dýr og ódýr hótel.
Verðlag er í hærri kantinum hér sem víðar og yfirleitt smurt vel á allt aukalega eins og morgunverð. Að þessu sögðu bjóða mörg betri hótelanna upp á lifandi tónlist á kvöldin og stundum á daginn og ýmsar sýningar og kabaretta með reglulegu millibili.
Hægt er að spara sér skildinginn og um leið kynnast heimamönnum miklu betur með heimagistingu. Casas Particulares eru rekin af fjölskyldum sem leigja út herbergi til ferðamanna og það oft á mjög sanngjörnum prísum. Kanna skal fyrirfram hvort morgunverður sé í boði og versla þá ef svo er ekki því morgunverður finnst ekki á matseðlum kaffi eða veitingahúsa í Havana.
Nokkur heimagistihús sem fá góða dóma á netinu eru:
- Casa Ines, Calle Segunda #559
- Casa de Jesus y Saida Valdez, Calle 24 #262
- Casa Cary, Virtudes #511
- Casa de Lydia y Felix Pedro, 15 St #456
- Casa Particular Havana, 28 St #270
- La Casa de Ana, 17 St #1422
Líf og limir
Allir með hnút í maganum yfir að heimsækja Havana ættu að slaka fljótlega á með tilliti til að hér eru lögreglumenn á hverju götuhorni því sem næst. Harðar refsingar eru fyrir hvers kyns glæpi hér og sem afleiðing af því eru borgin mjög örugg fyrir ferðafólk. Aðeins hefur þó orðið vart árása á ferðafólk að næturlagi í Centro Habana hverfinu.
Margir munu reyna að selja þér varning og sömuleiðis bjóðast margir til að sýna þér bestu staði borgarinnar. Slíkir aðilar eru kostaðir af börum og veitingastöðum og mun reikningurinn á þessum stöðum verða töluvert hærri fyrir vikið.
Hafa skal í huga að ekki er gefið að komast á netið í Havana. Velflest hótelin bjóða gestum sínum net en utan þess er í raun aðeins einn einasti staður þar sem hægt er að komast í póst og fésbókina. Það er netkaffihús í El Capitolio. Hraðinn er þó töluvert lakari en menn eiga að venjast á vesturlöndum.