Skip to main content

N orðasti bær Noregs fyrir utan byggðina á Svalbarða er námu- og útgerðarbærinn Kirkenes sem ennfremur er höfuðstaður Suður Varangurs fylkis. Merkilega margir leggja leið sína þangað þó um útnára sé í fyllstu merkingu þess orðs en það helgast fyrst og fremst af nálægt við Rússland. Eina landleiðin milli Noregs og Rússlands fer gegnum Kirkenes.

En þótt bærinn láti lítið yfir sér er töluverða sögu að segja af staðnum. Hér voru aðalbækistöðvar Þjóðverja á Barentssvæðinu í Seinni heimsstyrjöldinni og hér og í kring fóru fram heiftarlegir bardagar með miklu mannfalli. Þar áður höfðu flúið hingað Finnar árum áður og Rússakeisarar fyrri alda höfðu mætur á staðnum. Eitt safn í bænum, Andersgrotta, er tileinkað hersetu Þjóðverja hér.

Skemmst er frá að segja að Kirkenes sem slíkur heillar aðeins þá sem vilja skoða náttúruna. Bærinn sjálfur hefur lítið sem ekkert aðdráttarafl og það allra merkilegasta tekur fimm mínútur að sjá. Hér er stundaður námugröftur í viðbót við útgerð og bærinn og mannlífið litast dálítið af verkafólki með bogið bak.

Það sem svæðið hefur hins vegar upp á að bjóða er falleg náttúra hvort sem er í skógi vöxnu landinu eða meðfram skorinni strandlengjunni. Augljóst er að Kirkenes er við mörk túndru því berangurslegt er um að litast þar sem skógur nær ekki að vaxa. Minnir svæðið verulega á Melrakkasléttuna að mörgu leyti.

Hér er eitt þekkt snjóhótel, Kirkenes Snowhotel, sem trekkir að á veturna og um tíma var hér minnsta hótel heims sem tók tvo gesti. Bærinn sjálfur hefur þó lítt aðdráttarafl. Meira er sótt í laxveiði hér um slóðir og ferjuleiðin Hraðleið, Hurtigruta, endar hér eftir ellefu daga siglingu frá Bergen.

Til umhugsunar: Merkilegt er að vita að þegar Seinni heimsstyrjöldinni lauk voru aðeins þrettán hús uppistandandi í Kirkenes vegna sprengjuárása Sovétmanna.

Héðan er um 40 mínútna akstur að rússnesku landamærunum og um 20 mínútur að Svanvik dalnum þar sem eini ósnerti skógur Noregs vex enn þann dag í dag. Þar um slóðir er líka eini staðurinn í Noregi þar sem Brúnbirnir dafna enn í náttúrunni.

View Larger Map