Af vinsælum strandstöðum á Kanarí er einn sérstaklega sem ber af öðrum. Annars vegar fyrir að vera læstur inni í tiltölulega djúpum dal og hins vegar fyrir áberandi meiri fegurð en aðrir státa af. Þetta er Puerto de Mogan.

Nafnið merkir höfn Mogan og vísar til bæjarins Mogan sem stendur töluvert ofar en höfnin sjálf. Hér gerðu bæjarbúar þó út báta sína og gera enn þó höfnin hafi tekið algjörum stakkaskiptum á skömmum tíma.

Það helgast af því að hafnarsvæðið var þaulskipulagt af ferðamógúlum og þar tókst það vel til að Puerto de Mogan þykir fallegasti strandbær á Kanarí og með fallegustu bæjum eyjunnar allrar. Það ekki lítið afrek á sólarströnd en reyndar er samkeppnin ekki mikil. Seint verður sagt að Playa del Inglés sé fallegur staður enda þar byggt á sínum tíma með gullgrafarastíl og borgin líður fyrir í dag.

Í Puerto de Mogan er annað uppi á teningnum. Hér eru margar byggingar afskaplega fallegar og svæðið allt afar heillandi. Þá þykir ekki síður yndislegt að hér eru nægilega mörg síki til að staðurinn hefur fengið gælunafnið Litlu Feneyjar. Það heldur langsótt en síkin setja afskaplega flottan punkt yfir allt saman hér.

Höfnin sjálf er svo tær snilld. Henni er skipt niður í skútuhöfn og útgerðarhöfn og þær bryggjur loka næstum af þessa líka stórkostlegu sandströnd sem eðli málsins er afar vinsæl hjá sóldýrkendum. Hún er extra fín fyrir þær sakir að bæði er sjórinn tærari en ella sökum þess að úfnar öldur ná ekki hingað inn og sem afleiðing af því er hér auðveldara að leyfa smáfólkinu að busla um því engin er hætta á útfalli að ráði.

En það er enn eitt sem Puerto de Mogan státar af og kannski fer ekki hátt en skiptir sannarlega máli. Sökum legu bæjarins á suðvesturhorni Kanarí og þess að hún er í svo góðu vari þá bærist varla hár á höfði fólks hér ólíkt því sem gerist nánast alls staðar annars staðar á eyjunni. Vindarnir sem blása ótt og títt á ströndum El Playa Inglés finnast varla hér.

Þetta síðastnefnda er reyndar tvíbent sverð. Sóldýrkendur kjósa margir að vera lausir við golu og blástur meðan aðrir geta ekki hugsað sér að dvelja á Kanarí án ferskra vindanna til kælingar frá hitanum.

Að komast til Puerto de Mogan er með einfaldari hlutum. Rútur ganga reglulega hingað frá öllum helstu strandstöðunum og ekki eru vegalengdirnar að skemma fyrir. Frá Playa del Inglés tekur túrinn innan við hálftíma með rútu, vagn 32, og ekki nema um 20 mínútur á bíl. Með rútu kostar önnur leiðin tæpar fjórar evrur.

Engar stórverslanir eru hér en ágætt úrval smærri verslana. Sömuleiðis er enginn skortur á veitingahúsum og vitaskuld eru sjávarréttir hér fyrsta flokks á flestum stöðum.