Tíðindi

Jólastressið út í hafsauga

  05/12/2012nóvember 28th, 2014No Comments

Engin leið er betri til að losna hundrað prósent við íslenskt jólastress en að vera ekki á Íslandi meðan sá viðburður gengur yfir. Nú bjóða ferðaskrifstofurnar Plúsferðir og Heimsferðir ferðir til Kanaríeyja yfir jól og áramótin.

Dapurlegt er að tvær stórar íslenskar ferðaskrifstofur bjóði upp á nákvæmlega sams konar ferðir á nákvæmlega sömu staði á nánast nákvæmlega sömu hótelum og svipuðu verði og sannar enn eina ferðina hræðilega einsleitni í ferðaúrvali landans eins og Fararheill hefur ítrekað gagnrýnt.

Tilboð Heimsferða gildir annars vegar 19. desember í tvær vikur á hótelinu Rogue Nublo á ensku ströndinni á Kanarí. Kostnaður miðað við tvo fullorðna er 139.900 krónur eða 279.800 krónur samtals. Kostnaður per dag er 19.985 krónur á parið og ekkert innifalið. Það verður að teljast heldur dapurlegt tilboð. Hins vegar er ferð til Tenerife þann 20.desember en parið greiðir þar 149.900 krónur í stúdíóíbúð með engu á Paraiso del Sol.

Tilboð Plúsferða nær bæði til Kanarí og Tenerife. Fyrri ferðin farin 22. desember en sú seinni 19. desember. Til Kanarí á íbúðahótelinu Parque de las Americas kosta herlegheitin fyrir tvo 144.350 krónur á mann eða samtals 288.700 krónur. Parið greiðir þannig 20.621 krónur per dag og ekkert innifalið. Þaðan af síður er það sérstaklega gott tilboð. Seinna tilboð Plúsferða er líka til Tenerife og gist ódýrast á nákvæmlega sama hóteli og gestir Heimsferða; Roque Nublo.

Þrátt fyrir að enginn brosi mjög breitt yfir þessum „tilboðum“ er þetta kjörin leið til að láta stress lönd og leið og engin spurning er um jákvæð áhrif þess á sál og líkama. Og vitaskuld fagna eyjaskeggjar á Kanarí og Tenerife jólum líka þó minna fari fyrir æsingnum og hjartaáföllum í kjölfarið.

>> Roque Nublo fær meðaleinkunnina 6,9 meðal viðskiptavina sinna.

>> Paraiso del Sol fær meðaleinkunnina 6,4 meðal viðskiptavina sinna.

>> Parque de las Americas fær meðaleinkunnina 6,6 meðal viðskiptavina sinna.