Tíðindi

Jólagjöf Icelandair með átján skilmálum

  05/12/2012október 17th, 2015No Comments

Hætt er við að gleði þess sem um jólin fær að gjöf jólagjafabréf Icelandair verði skammvinn. Sú gjöf kemur nefninlega með litlum átján skilmálum, þiggjandi verður að hafa hraðar hendur og ferðast á óspennandi tíma fyrir utan að eyða töluverðum tíma að kynna sé allt smáa letrið.

Fararheill gagnrýndi fyrir skömmu jólagjafabréf Wow Air fyrir skamman gildistíma eins og sjá má hér. En sú jólagjöf er hrein hátíð miðað við sambærileg jólagjafakort Icelandair.

Ballið byrjar strax með verðinu. Gjafakort Icelandair er mun dýrara en Wow Air býður.

Báðar leiðir til einhvers áfangastaðar í Evrópu á fjórða og versta farrými Icelandair kostar lágmark á mann 31.900 krónur. Það er 40 prósent dýrara en ódýrustu jólagjafafargjöld Wow Air. Að vísu kemur á móti að áfangastaðir Icelandair eru mun fleiri en hafi það farið framhjá einhverjum þá glíma margir Íslendingar við miklar skuldir og hver króna skiptir máli.

Að því gefnu að enginn setji verðið neitt fyrir sig á enn eftir að stautast gegnum skilmálana átján. Samkvæmt þeim hefur þiggjandinn heila átján daga til að ákveða sig og bóka ferðina.

En þá er ekki öll sagan sögð.

Viti fólk upp á hár hvert skal halda og kaupi ferðina fyrir 11. janúar 2013 kemur annað babb í þennan hripleka bát. Viðkomandi verður að gjöra svo vel og drífa sig af stað innan þriggja mánaða því lending má ekki vera síðar en 16. apríl til að gjafakortið gildi. Þiggjandinn skal því, ætli hann að nota gjöf sína, þvælast erlendis á frekar óspennandi tíma þegar Evrópa er meira og minna ennþá köld og rök og engin trygging fyrir að kósí borgarferð verði neitt annað en regnhlíf og hlaup í blautum götum.

En bíðum við. Enn versnar í því.

Sé einhver sem ekki sættir sig við þetta og vill gera breytingar skal punga út litlum þrettán þúsund krónum að lágmarki fyrir allar breytingar. Fyrir utan að nafnabreyting er útilokuð og enginn fær endurgreitt og svo framvegis og svo framvegis.

Því miður skiptir orðið engu máli að Íslendingar gagnrýni eigið flugfélag því meirihluti tekna Icelandair kemur erlendis frá en ritstjórn mælir eindregið með að fólk kaupi EKKI slík jólagjafabréf og láti hafa sig að fíflum. Því slík „gjöf“ er ekkert annað en hreinn dónaskapur.