Þekktur maður var eitt sinn beðinn að útskýra merkingu þess að hafa blendnar tilfinningar. Hann svaraði því til að það væri tilfinningin þegar tengdamamma æki á brott á nýja sportbílnum hans.

Ritstjórn Fararheill segir það sama um fréttirnar af kaupum Wow Air á keppinaut sínum Iceland Express. Þær eru nefninlega bæði jákvæðar og neikvæðar.

Neikvæði hlutinn er þó sýnu stærri en með kaupunum verður ótti sá ritstjórn hafði strax síðastliðinn vetur að veruleika. Það er að segja að íslenski flug-og ferðamarkaðurinn þolir ekki samkeppni í neinni mynd.

Það viðurkennir Pálmi Haraldsson, fyrrum eigandi Iceland Express, í tilkynningu þeirri sem hann sendi frá sér í gær vegna sölunnar. Þar segir hann botnlausan taprekstur félagsins ástæðu sölunnar til Wow Air og að ekki sé að sjá neina breytingu á því í framtíðinni.

Sú yfirlýsing er þvert ofan yfirlýsingar frá forstjóra og talsmanni Iceland Express undanfarna mánuði sem hafa lofað mikinn viðsnúning í rekstri og ítrekað sagt bullandi bjart framundan eins og sjá má hér. En það er heldur ekki í fyrsta sinn sem tómu ryki er kastað í augu neytenda í landinu.

Þó Skúli Mogensen sé ekki kolbrenndur af ýmsu misjöfnu baktjaldamakki árin fyrir hrun Íslands eins og Pálmi Haraldsson virðist hafa verið er Skúli vitaskuld í flugbransanum til að græða peninga.

Eins og Fararheill greindi frá á sínum tíma, og var ástæða þess hve mjög við fögnuðum aukinni samkeppni, var samkeppnin í flugi til og frá landinu mun minni en eigandi Iceland Express vildi vera láta eins og sjá má hér og hér. Öllu nær var að tala um einokun en fákeppni eða samkeppni áður en Wow Air kom til sögunnar.

Og það má Wow Air algjörlega eiga skuldlaust að Íslendingar hafa ekki séð ódýrari flugfargjöld en þetta sumarið og haustið einmitt vegna samkeppninnar við Iceland Express og Icelandair.

En nú þegar samkeppnin er aftur að mestu milli tveggja innlendra aðila í stað þriggja er hætt við að allt fari í sama farið á nýjan leik. Sem er mikil synd ef verður fyrir neytendur í landinu og verður æði forvitnilegt að sjá hvort flugfargjöld Wow Air hækka á næstunni.

Hið jákvæða við þetta allt saman er brotthvarf Pálma Haraldssonar af vettvangi. Sá hefur aldrei gefið Fararheill færi á viðtali um Iceland Express. Hann var lykilmaður í FL Group sem stjórnaði meðal annars Icelandair og setti næstum á hausinn. Pálmi setti flugfélagið Sterling á hausinn og flugfélagið Astreus undir hans stjórn fór á hausinn líka eins og sjá má hér. Pálmi var líka á sínum tíma sakaður um að hafa eignast Iceland Express með vafasömum leiðum og minna verður á að það var ekki hann sem kom því félagi á fót upphaflega með því markmiði að bjóða ódýrari flugfargjöld. Má lesa allt um það hér. Að síðustu má aldrei gleyma þætti Pálma í grænmetismálinu svokallaða á árum áður en þar var hann í lykilhlutverki í grænmetissamráðsmálinu sem svo var kallað og varð þess valdandi að neytendur greiddu ívið hærra verð en ella þurfti fyrir hollt og gott grænmetið og ávexti.

Þá verður seint sagt um Pálma að hann kunni að reka fyrirtæki og að því leytinu er jákvætt að hann selur áður en farþegar Iceland Express á Alicante í janúar 2013 komast að því að Iceland Express er komið í þrot.

Við ljúkum máli okkar með afar yfirborðskenndri tilkynningu Pálma um söluna sem er af sama meiði og margt annað sem sá maður hefur komið nálægt; tóm steypa frá a til ö. Hans verður ekki saknað.

Síðastliðin átta ár hef ég helgað Iceland Express starfskrafta mína með það markmið að leiðarljósi að lækka flugfargjöld til og frá landinu. Það ætlunarverk hefur tekist og um forystuhlutverk Iceland Express í þeim efnum allt frá stofnun félagsins er ekki deilt.

Á síðustu árum hefur erlendum lággjaldaflugfélögum sem sinna flugi til og frá landinu fjölgað til mikilla muna og nýtt íslenskt félag blandar sér einnig í þá miklu samkeppni sem hér er orðin. Ég er sannfærður um að sú samkeppni er komin til að vera um langa framtíð og er það fagnaðarefni fyrir íslenska ferðalanga og íslenska ferðaþjónustu.

Ég er ekki í vafa um að leiðandi hlutverk Iceland Express í samkeppni undanfarinna ára hefur skipt miklu máli. Því miður hefur það líka tekið sinn toll. Félagið hefur tapað miklu fé síðustu misserin sem bætt hefur verið upp með nýju fjármagni frá eiganda þess. Fátt bendir til annars en að í núverandi samkeppnisumhverfi félagsins verði áframhaldandi tap af rekstri nema róttækar breytingar komi til.

Af þeirri ástæðu ákvað ég að bjóða íslenska félaginu WOW air að yfirtaka ákveðna þætti úr rekstri Iceland Express. Samkomulag hefur nú tekist um að WOW air kaupi leiðakerfi, vörumerki og viðskiptavild félagsins og jafnframt aðgang að þeirri miklu þekkingu sem safnast hefur upp í rekstri þess. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Grundvallaratriði samningsins er að staðið verður við allar skuldbindingar við farþega Iceland Express. Engar breytingar verða á þeim ferðum sem þeir eru nú í eða hafa bókað á næstunni. Óhjákvæmilegt er að segja starfsfólki upp störfum en gert er ráð fyrir að hluti þess, og þar á meðal margir af lykilstarfsmönnum félagsins, muni fylgja verkefnum Iceland Express yfir til WOW air. Félagið mun á næstunni leita samninga við birgja sína og samstarfsaðila um uppgjör krafna og ljúka í kjölfarið starfsemi sinni.

Á þessum tímamótum vil ég þakka íslenskum farþegum okkar fyrir umfangsmikil viðskipti í gegnum tíðina og tryggð þeirra við félagið. Ekki fór framhjá neinum að Iceland Express glímdi við mikla erfiðleika í áætlunarflugi sínu fyrir rúmu ári síðan. Róttæk uppstokkun í yfirstjórn félagsins og samningar við nýja samstarfsaðila komu daglegri starfsemi á réttan kjöl enda þótt reksturinn héldi áfram að vera þungur. Alls hefur Iceland Express flutt um þrjár milljónir farþega til og frá landinu, skapað mikinn fjölda starfa í íslenskri ferðaþjónustu og gjaldeyristekjur sem nema tugum milljarða króna. Af þeim árangri er ég bæði stoltur og þakklátur.

Að baki þessum miklu umsvifum er stór hópur starfsfólks sem staðið hefur með mér og félaginu í gegnum þykkt og þunnt. Ég er afar þakklátur því góða fólki og kveð bæði það og rekstur Iceland Express með söknuði. Ég stíg hins vegar sáttur frá borði í þeirri fullvissu að þjónusta við farþega félagsins á næstu dögum sé tryggð, styrkari stoðum hafi verið rennt undir íslenskan rekstur lágfargjaldafélags á komandi árum og síðast en ekki síst sannfærður um að verðlækkandi áhrifa Iceland Express á Íslandi muni gæta um langa framtíð.

Ég óska WOW air velfarnaðar og þakka starfsfólki og viðskiptavinum Iceland Express fyrir samfylgdina á liðnum árum.