Skip to main content

„Brýnasta verkefni líðandi stundar í öryggismálum þjóðarinnar er að efla lög-, toll og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli. Samhliða áætlunum um öra fjölgun farþega ber að gera heilstæða áætlun um öryggismálin og framkvæma hana – án öryggis er allt annað unnið fyrir gýg.“

Rólegt um að litast í öryggisleitinni. Björn Bjarna vill stórefla allt eftirlit. Mynd A.Curry

Rólegt um að litast í öryggisleitinni. Björn Bjarna vill stórefla allt eftirlit. Mynd A.Curry

Sjálfskipaður utanríkissérfræðingur Morgunblaðsins, Björn Bjarnason, viðrar skoðanir sínar um öryggismál á Keflavíkurflugvelli í grein í Morgunblaði dagsins. Það gerir hann eins og alltaf í miklum hræðslustíl. Sama hræðslustíl og Bretar og Bandaríkjamenn halda að sínu fólki 365 daga á ári og veldur meðal annars því að fólk í báðum löndum sveltur meðan her- og öryggisapparöt ýmis konar fá sífellt hærri framlög úr ríkissjóðum.

Inntak greinarinnar er að fyrst hryðjuverkasamtökum svokallaðs ríkis Íslams, ISIS, tókst að granda rússneskri farþegaflugvél í Afríku, þá þurfi aldeilis að bretta upp ermar á klakanum. Ekki síst þegar haft sé í huga að eftirlit við suðræn Schengen-landamæri hafi hrunið og inn í Evrópu komist nú alls konar fólk sem kannski hafi illt í huga. Þetta tvennt kalli á stóraukið eftirlit við Keflavíkurflugvöll og það sem allra fyrst.

Ágætt að hafa í huga að það var Björn Bjarnason sjálfur sem barðist fyrir inngöngu Íslands inn í Schengen-samkomulagið sem tryggir frjálsa för fólks innan Evrópu. Ekki rekur ritstjórn Fararheill minni til þess að Björn hafi sett einhverja fyrirvara við það. Og aldrei hefur neinn úr ritstjórn Fararheill komist út í vél í Leifsstöð án vegabréfs þó það hafi einmitt verið einn helsti sölupunktur þess samkomulags. Við áttum að komast út um allt í Evrópu án skilríkja. Ekki aldeilis heillin.

Fyrir utan þá staðreynd að Björn Bjarnason var ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem samþykkti í laumi að styðja heils hugar við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Innrás sem Evrópa er að bíta úr nálinni með núna.

Stóraukið eftirlit…

[sociallocker id=233949628]Kæri Björn. Þú hefur kannski ekki ferðast mikið undanfarið. Ef svo væri myndir þú vita að allar þessar stórauknu öryggiskröfur sem gerðar hafa verið á flugvöllum heimsins í kjölfar hryðjuverkanna í New York í september 2001 hafa gert flugferðir að martröð í stað þess að vera hreint dásamleg leið til að komast fljótt milli staða eins og áður var.

En þú ert auðvitað gamall ráðherra og enginn heimtar kannski að þú farir úr flottu Lloyds-skónum, takir af þér Boss-beltið, teygir hendur og lyftir fótum svo hægt sé að lýsa með vasaljósi upp í klofið á þér.

Það vantar inn í grein þína hvað nákvæmlega felst í óskum þínum um enn öflugra eftirlit í Leifsstöð. Hvað hafðir þú í huga nákvæmlega? Fleiri öryggisverði? Líkamsskanna? Aukna líkamsleit? Einangrunarstöð? Banna farangur?

Við erum nú þegar að fjarlægja allt nema skyrtu, buxur og sokka við öryggisleit með tilheyrandi töfum og niðurlægingu. Næsta skref er að þau klæði fjúki líka hvort sem er eiginlega eða gegnum fræga líkamsskanna sem veita gæslufólki leyfi til að skoða okkur nakin í bak og fyrir. Líkamsskanna sem þykja svo vel heppnaðir að jafnvel vænisjúkur Kaninn hefur nú fjarlægt 90% þeirra af flugvöllum sínum og hent á haugana. Slíkt er líka aðeins óþægilegra á litlu landi þar sem annar hver maður á ættingja í öryggisleitinni í Leifsstöð. Spennandi fyrir starfsfólkið að ganga úr skugga um að Nanna frænka sé nú ekki með sprengiefni falið í rassborunni.

…sem virkar svo ekki

En Björn, vissirðu að 95 prósent sprengiefna, vopna og hættulegra áhalda komast vandræðalaust gegnum alla skoðun á flugvöllum hjá Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna, TSA?

Vissirðu að 8 af hverjum 10 einstaklingum komast óhindrað inn á bandaríska flugvelli og geta þar valsað um og fengið sér rauðvín og osta í rólegheitum áður en nokkur áttar sig á stöðu mála?

Hér er um Bandaríkin að ræða en engin þjóð kemst með tær eða neinn annan líkamspart nálægt því sem Kaninn eyðir í öryggisgæslu á flugvöllum sínum. 600 milljarðar króna árlega samkvæmt nýlegri úttekt Time.

Og manstu Björn minn góður, að þú varst nú ekkert að hoppa hæð þína í loft upp þegar lögreglumenn eða tollarar fóru fram á eðlilegar launahækkanir þegar þú varst í fílabeinsturninum sem æðsti yfirmaður öryggismála landsins um langt skeið? En finnst þér ekki líklegt að fólk sem rétt nýkomið úr mútum, með litla sem enga menntun og laun sem rétt slefa í 300 þúsund á mánuði í vaktavinnu sé ekkert yfir sig spennt í vinnunni? Einu kröfurnar sem Isavía gerir til þeirra sem eiga að gæta þess að við förum ekki með sprengju eða vopn um borð í flug er að hafa hreint sakavottorð og hafa klárað tvö ár af framhaldsnámi. Launin eru nálægt því að vera glötuð en samt slefa þau langleiðina upp í þau laun sem hefðbundnir lögreglumenn hafa fyrir að halda okkur öruggum.

Hér líka fleiri dæmi um það hve ómögulegt er að „tryggja“ öryggi í flugi svona ef þig vantar annað lestrarefni en Reykjavíkurbréfin í Mogganum.

Tollar eftirlit?

Svo má spyrja háttvirtur Björn, hvernig á því standi að hér innanlands er allt flæðandi í sterum, dópi og alls kyns ólöglegum lyfjum og varningi? Það er ekkert auðveldara en að gæta landamæra á eylandi. Engu að síður hefur enginn skortur verið á ólöglegum efnum og vörum til sölu hér innanlands um áratugaskeið. Kannski af því að þú varst nú ekkert að bruðla peningum í tollayfirvöld á þínum ráðherratíma. Er ekki ennþá aðeins einn gámaskanni í landinu? Eru tollverðir ekki ennþá svona þokkalega lágt launaðir miðað við allt og allt?

Annað sem þú ættir að hafa lært af sögunni Björn, er sú staðreynd að þú kveikir ekki ástríðu fyrir mikilvægu starfi með að greiða laun sem varla duga fyrir þaki yfir haus og mat í niðursuðudósum. Það er líka við þær aðstæður sem það er töluvert auðveldara að taka við seðlum frá einhverjum sem vill að þú lítir undan augnablik þegar gámur B9-C275 fer framhjá.

Flóttamenn ekki hryðjuverkamenn

Síðast en ekki síst Björn, er óþarfi að draga allt það fólk sem nú leitar skjóls í Evrópu í einhvern sérstakan hættuflokk. Enginn vafi leikur á að inn á milli eru skemmd epli og jafnvel fólk sem hefur illt í hyggju. En að láta þann ótta bitna á þeim hundruðum þúsunda sem eru sannarlega að aðeins að flýja stríð, pyntingar, hungur og viðbjóð sem við getum ekki einu sinni ímyndað okkur, er hættulega nálægt því að kallast mannvonska. Sérstaklega þegar þitt eigið nafn er á lista hinna viljugu.

Hvernig gengur annars með innri friðinn?[/sociallocker]