Skip to main content

Það er merkilegt árið 2019 hve ferðaskrifstofur landsins eru enn yfirborðskenndar og ómarktækar þegar kemur að kynningum á áfangastöðum sínum.

Fær einhver greitt fyrir þessar endalausu þvælu sem ferðaskrifstofurnar bjóða okkur upp á?

Fær einhver greitt fyrir þessar endalausu þvælu sem ferðaskrifstofurnar bjóða okkur upp á?

Merkilegt sökum þess að fólk er ekki fífl og óþarfi að blása út og gengisfella fleiri tugi íslenskra lýsingarorða með að röfla innantóma steypu um stað og annan. Í engri annarri starfsemi væri hægt að troða svo miklu af engu í kynningar án þess að fá erfiðar spurningar frá hugsanlegum viðskiptavinum. Í ferðabransanum virðist nægja að bulla bara.

Dæmin skipta hundruðum en Fararheill var að reka augun í kynningu á einum stað Vita ferða á Spáni, smábænum Tossa de Mar. Samkvæmt Vita er um að ræða „ekta spænskan smábæ.“

Sem vekur strax upp spurningar um hvar finna megi óekta spænska smábæi og hvort ferðamálayfirvöld á Spáni séu hrifin af því að ferðaskrifstofur á Íslandi kalli suma bæi ekta en aðra ekki. Eitthvað myndi nú heyrast í Íslendingum ef kanadískar ferðaskrifstofur lýstu stöðum á Íslandi með sama hætti. Og hvað þýðir ekta í þessu tilliti. Hvað gerir staðinn ekta spænskan? Kannski að hann sé á Spáni? Dónaskapur og rugl.

Bærinn er sagður hafa „einstaklega vingjarnlega íbúa“ án þess að vitnað sé í nokkuð því til staðfestingar. Og hvað þýðir að vera einstaklega vingjarnlegur? Er ferðafólki boðið inn í kaffi og kleinu sísona eins og í Egyptalandi, Túnis, Marokkó eða Færeyjum til dæmis? Boðið sæti við hlið fjölskyldunnar á yfirfullum veitingastað eins og Hollendingar gera stundum? Boðið skutl til Barcelóna? Ef svo er þá er þetta eini strandstaður Katalóníu þar sem slíkt viðgengst.

Og svo þetta: „Þrátt fyrir kyrrðina og friðinn er þetta ferðamannastaður fullur af lífi og fjöri.“

Hvernig í ósköpunum getur einn og sami smábær bæði veitt frið og ró en bullandi strandlíf og stuð á sama tíma? Er svona þvæla kennd einhvers staðar í háskólum? Ritstjórn Fararheill grunar að hér sé um að ræða enn eina ferðalýsingu á bæ sem enginn hjá Vita ferðum hefur persónulega heimsótt. Eiga neytendur ekki skilið betra en þetta?

Tossa de Mar er gæjalegur lítill strandbær með ágætum börum, eðalfínni strönd og ekki á kafi í hótelum ennþá. En þangað er langt að fara frá flugvöllunum í Barcelóna eða Alicante og sömuleiðis ekki ókeypis á milli. Örskammt frá er Lloret de Mar sem er yfirfullur af ferðafólki 24/7. Sá bær er víst líka með einstaklega vingjarnlega íbúa og þar líka er hægt að finna ró og innri frið en jafnframt dynjandi diskó í næstu götu samkvæmt öðrum ferðaskrifstofum…