Skip to main content

Hvernig hljómar næturdvöl á fjögurra stjörnu hóteli á besta stað í Bristol og tveir hringir á nálægum golfvöllum í ofanálag fyrir tæpar nítján þúsund krónur?

Bristol er Akureyri Englands í þeirri merkingu að veðurfar á þeim slóðum er oft mildara en annars staðar í landinu

Bristol er Akureyri Englands í þeirri merkingu að veðurfar á þeim slóðum er oft mildara en annars staðar í landinu

Já, við héldum það líka enda vægast sagt fantagott verð og ekki hvað síst þegar varla fæst sæmilegt hótelherbergi í London undir 30 þúsund krónum yfir eina nótt. Þegar við bætist að með fyrirhyggju er komist til og frá Bristol með golfpokann í farteskinu fyrir allt niður í 30 þúsund krónur ætti golf hér að fara að freista þeirra kylfinga sem ekki eiga milljónir króna á bankabókum.

Þetta tilboð er eitt þeirra sem ritstjórn fann þegar forvitnast var um heppilega staði fyrir golfáhugafólk í og við Bristol en þangað flýgur lággjaldaflugfélagið easyJet reglulega frá Íslandi. Eins og við bendum á í vegvísi okkar um Bristol er töluverður fjöldi golfvalla hér um slóðir og flestir hafa þeir gert samninga við helstu hótel um gistingu og golf.

Slíkir pakkar finnast þó ekki við leit á hefðbundnum leitarvélum heldur verður að leita handvirkt á hverjum golfvelli eða hóteli fyrir sig. Þá leið er hægt að stytta með sérhæfðum ferðaskrifstofum eins og Golfbreaks sem bjóða slíka pakka en jafnvel þeir bjóða ekki endilega allra bestu verð þar sem mörg þekktari hótelin, eins og Marriott, bjóða einungis sín allra bestu tilboð á sínum eigin heimasíðum. Vert að hafa það í huga þegar golfferðir standa fyrir dyrum.