Okkur á ritstjórn Fararheill.is er glatt í geði þessa dagana og kampavínið hefur verið opnað. Við vorum að setja nýtt lestrarmet og hafa nú 27 þúsund aðilar heimsótt okkur það sem af er mánaðarins.
Kærar þakkir fyrir það og við vonum að upplýsingar á vef okkar nýtist þeim fjölmörgu sem áhuga hafa á ferðum og ferðalögum um þennan dásamlega heim sem við búum í (jafnvel þó vírusar setji strik í reikning.)
Við erum sérdeilis stolt af þessum áfanga sökum þess að við stígum sýknt og heilagt á tær, erum gagnrýnin og segjum hlutina eins og þeir koma af skepnunni.
Hvort sem um er að ræða ferðaskrifstofu, ferðir, flugfélög, borgir, lönd eða annað það sem viðkemur ferðalögum þá kemur það allt saman frá hjartanu.
Sérstaklega erum við stolt yfir að hafa náð þessum áfanga þrátt fyrir að vera að langmestu leyti útilokuð frá fjölmiðlum í landinu og fá litla sem enga kynningu hjá neinum aðila. Fjölmiðlar eiga eðli málsins samkvæmt að vera gagnrýnir og taka sér alltaf stöðu með fólkinu í landinu en íslenskir miðlar falla fjarri því undir það. Þeir reyndar fjalla nánast alls ekkert um neytendamál af neinum toga.
Sem dæmi um þetta er kannski óvitlaust að kíkja á „fréttir“ sem stórir íslenskir miðlar hafa tekið upp frá Fararheill.is annars vegar og öðrum ferðavef, túristi.is, sem ekki fjallar um neitt á gagnrýnan hátt. Tölurnar frá Google.
- RUV.IS: Túristi.is 29 / Fararheill.is 0
- VÍSIR.IS: Túristi 230 / Fararheill.is 0
- MBL.IS: Túristi.is 35 / Fararheill.is 0
Háar tölur Vísis eru merkilegar en auk þess að fá mikla umfjöllun hefur túristi fengið útvarps- og Fréttablaðsviðtöl og annað góðgæti til að kynna sig og sína.
Við höfum reyndar fengið inni á vef DV sem streymir stöku tíðindum frá okkur yfir á sinn vef svo við erum ekki alveg úti á berangri.
Staðan er miklu verri á heima- og fésbókarsíðum ferðaskrifstofa og flugfélaganna en þar á bæ er, merkilegt nokk, gagnrýni illa séð og talið eðlilegt að þeir aðilar setji jákvæðan aðila á stall fremur en herra gagnrýnanda. Okkur finnst hins vegar fyrirtæki í bransanum gera heldur lítið úr máltækinu „Sá er vinur er til vamms segir“ en það er eins og það er.
En 27 þúsund aðilar telja að við höfum eitthvað fram að færa á fyrstu 25 dögum þessa árs og það gefur okkur byr í seglin til að eiga við ítrekaðar kvartanir, lögfræðihótanir og annað það sem fylgir því að standa með neytendum í landinu. Og við erum rétt að byrja…
TAKK!