M eð fullri virðingu fyrir öðrum hlutum Skotlands leikur lítill vafi á því að hálendi landsins er áberandi fallegasta svæði landsins. Heiðar og djúpir grænir dalir, heimsfræg vötn og kastalar sem eiga heima í öllum ævintýrabókum. Ekki er dapurlegra að hér er strjálbýlt og víða hægt að fara um án þess að hitta kóng né prest eða aðra. Þá er hálendi Skotlands kjörstaður til veiða og ýmsir ferðaþjónustuaðilar bjóða ýmsa þjónustu kringum það sport.
Þó bæi og þorp sé víða að finna á hálendi Skotlands er hér aðeins ein borg og það merkilega stór. Inverness er nyrsta borg Skotlands og af Skotum kölluð höfuðborg hálendisins. Þar búa um 60 þúsund manns og fer hún ört stækkandi sökum ferðaiðnaðar en ekki síður er borgin ein þeirra miðstöðva sem sinna þjónustu vegna olíuborpalla í Norðursjónum.
Borgin er furðu nútímaleg og í raun ekki margt sem bendir til að hún sé nokkuð fjarri öðrum þéttbýlissvæðum á landakortinu. Elsti hluti hennar er frá sextándu og sautjándu öld og finna má húsnæði frá þeim tíma við Bridge og Castle stræti.
Þá er það ávallt borginni í hag að héðan er aðeins tæplega tíu mínútna akstur að hinu heimsfræga Loch Ness vatni sem er stórkostlegt svæði burtséð frá hinni leyndardómsfullu skepnu sem þar er kannski.
Til og frá
Hér er alvöru flugvöllur, Inverness Airport, sem er þó í minni kantinum en kemur ekki í veg fyrir að hingað er flogið frá ýmsum stöðum innan Bretlands. Þá er Skotland ekki ýkja stórt land og frá Edinborg svo dæmi sé nefnt er aðeins rétt rúmlega tveggja tíma akstur hingað.
Til borgarinnar er aðeins um 20 mínútna akstur frá flugvellinum og héðan fara rútur á hálftíma fresti til og frá. Fargjaldið aðra leiðina er 700 krónur.
Þá eru hér leigubílar flestum stundum og hægt að panta slíka sé svo ekki. Gera skal ráð fyrir að rúnturinn kosti milli 1.800 og 2.400 krónur inn í miðbæ.
Hingað er einnig komist með lest ef sá gállinn er á fólki og margir telja þann fararmáta þann besta um hálendið. Þannig fær maður náttúruna beint í æð án þess að yfirgefa sæti sitt.
Samgöngur og skottúrar
Innan borgarinnar er óhætt að nota tvo jafnfljóta en þó eru hér strætisvagnar eins og vera ber. Ekki er borgin full af áhugaverðum hlutum þó ferðamálayfirvöld vilji telja þér trú um annað. Tveir til þrír dagar eru fullkomlega nógur tími til að sjá allt merkilegt og það bara í rólegheitunum.
Það sem er raunverulega heillandi við svæðið eru þó þorp, bæir og staðir í grenndinni og rútur Stagecoach Inverness bjóða upp á ýmsar slíkar ferðir fyrir utan marga ferðaþjónustuaðila. Þeir bjóða líka styttri og lengri bátsferðir út í eyjarnar úti við ströndinni.
Leigubílar eru hér nokkrir og bílaleigubíla hægt að leigja víða.
Söfn og sjónarspil
>> Listasafn Inverness (Inverness Museum & Art Gallery) – Fínt stopp til að fá sögu og menningu hálendisins beint í æð. Hér er sagan og hlutir tengdum henni en þar að auki er náttúrunni gerð góð skil og ekki síður dýralíf svæðisins kynnt rækilega. Lítið en gott almennt fróðleikssafn. Safnið stendur við Castle Wynd á lítilli en brattri hæð. Opið 10 – 17 mánudaga til laugardaga. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.
>> Inverness kastalinn (Inverness Castle) – Við enda Castle strætis er kastalann að finna sem ber nafn borgarinnar. Sá er tiltölulega lítill og nettur og er ekki neitt til að missa sig yfir. Allra síst þar sem hann er ekki opinn ferðamönnum til skoðunar nema utanfrá nema þú brjótir lögin því þarna hefur fógeti héraðsins aðsetur.
>> Dómkirkjan (Inverness Cathedral) – Framhluti þessarar dómkirkju er eftirmynd af dómkirkjunni í Kaupmannahöfn en falleg engu að síður. Hún er opin til skoðunar og tónleikar hér reglulega. Heimasíðan.
>> Klukkuturninn (Cromwell Clock Tower) – Þessi litli klukkuturn lætur ekki mikið yfir sér enda er hann það eina sem eftir stendur af virki miklu sem byggt var 1652 af herjum Oliver Cromwell.
>> Edingarður (Eden Court) – Listahöll borgarinnar er kannski lítið fyrir augað en meira fyrir önnur skilningarvit. Heimasíðan.
Verslun og viðskipti
Kjarakaup gerir enginn Íslendingur hér enda bæði úrval almennt lítið og töluvert minna en finnst í höfuðborg Íslands. Verðlag er líka í hærri kantinum eins og víðast hvar eftir bankahrunið.
Að þessu sögðu eru stöku forvitnilegar verslanir í borginni en aðeins einn staður sem kallast getur verslunarmiðstöð. Það er Eastgate Centre.
Þá er líka aðeins einn markaður í borginni sem bragð er að. Það er Viktoríumarkaðurinn í Academy stræti en sá er opinn stopult.
Matur og mjöður
Hér loks verður enginn fyrir vonbrigðum því töluverðan fjölda matsölustaða og bara er að finna á miðborgarsvæðinu. Eru veitingahúsin mörg ágæt og sum hver sérhæfa sig í heimagerðum hálendismat. Hálendisbarirnir eru fínir til brúksins og auðvelt að hefja spjall við heimamenn þar.
Til umhugsunar: Barir allir loka dyrum á miðnætti og eftir það er engum hleypt inn þó þeir sem fyrir séu geti setið aðeins lengur. Þá er sömuleiðis reykingabann á öllum stöðum þar sem matur er seldur og gildir einu hvort setið er inni eða úti.
Líf og limir
Það versta sem gerist í Inverness eru slagsmál við heimamenn að aflokinni drykkju fram eftir nóttu. Líkurnar á því eru afar takmarkaðar fyrir 99 prósent ferðafólks.