Skip to main content

S máeyjan Ibiza, Eivissa á katalónsku, er sannarlega með tvö andlit. Annars vegar er hér nánast eilíft djamm 24 tíma á sólarhring yfir sumarmánuðina og reyndar alveg vel út í lok október. Yfir vetrarmánuðina hins vegar, er Íbíza vart öðruvísi en aðrir rólyndisstaðir í landinu og þá æði fín til heimsóknar.

Yfirvöld á eynni hafa undanfarin ár reynt að breyta ímynd Ibiza til hins betra en lengi vel var eyjan fyrsta stopp hjá mörgum þeim er ekki gátu skemmt sér án fíkniefna af ýmsum toga og þá áfengi ekki meðtalið.

Þetta hefur tekist skrambi vel og þó hér sé næturlíf eins og það gerist best og villtast eru í auknum mæli hingað að koma ferðalangar sem vilja njóta sólar og spænskra stranda án þess að stíga á mann og annan eins og er orðið vandamál á Benídorm og á vinsælustu ströndum nágrannaeyjunnar Mallorca.

Ibiza er næstminnsta eyjan í Balearic eyjaklasanum sem samanstendur af Ibiza, Mallorca og Formentera. Hún er aðeins í 80 kílómetra fjarlægð frá borginni Valenciu á meginlandinu. Hér búa 115 þúsund manns en töluverður fjöldi þeirra er aðkomufólk sem hefur sest hér að.

Ibiza er stopp númer eitt meðal ungmenna sem vilja skemmta sér stanslítið og hafa litlar áhyggjur af lífinu. Sérstaklega er Ibiza mekka raftónlistarmanna og hér spila allir helstu plötusnúðar heims í stærstu klúbbunum. Annars lagið stíga hér á svið stórstjörnur aðrar sem heillast hafa af stemmningunni hér.

Ibiza er líka afar vinsæl meðal áhugakafara og vatnaíþróttir aðrar vinsælar mjög. Víða er hægt að leigja báta, sæsleða eða seglbretti

Þrír stærri þéttbýlisstaðir finnast á eyjunni en þeir eru hver öðrum líkir. Er þar um að ræða San Antonio, Ibiza bæinn sjálfan og Santa Eulària des Riu. Meginþorri eyjaskeggja lifir af ferðamennsku.

Til og frá

Tvær leiðir eru færar hingað. Flug eða sigling. Flugvöllur eyjarinnar er Aeropuerto de Ibiza og er staðsettur rétt við Ibiza bæinn.

Leigubílar eru hér nógir öllum stundum en fokdýrir og sjö kílómetra rúnturinn inn í Ibiza kostar 2.900 krónur. Leigubíll til San Antonio grynnkar á seðlabúntinu um 4.600 krónur og svipað verð er til Santa Eulària des Riu.

Reglulegar rútuferðir nokkrum sinnum á dag eru frá flugvellinum til helstu stranda og bæja á sumrin en ferðunum fækkar verulega yfir vetrartímann. Miðaverð fer eftir lengd ferðar. Leiðakerfi og verðlisti hjá Ibizabus hér.

Reglulegar daglegar siglingar eru hingað frá borgunum Valencia og Barcelona allan ársins hring og að auki er siglt frá Alicante hingað á sumrin. Miðaverð er misjafnt eftir klefa, skipi og hvenær árs er ferðast en einstaklingsferð fram og til baka frá Barcelona kostar 16 þúsund krónur. Trasmediterranea sér um siglingar frá öllum fyrrnefndum stöðum. Leiðaskrá þeirra hér.

Samgöngur og skottúrar

Bíll er ónauðsynlegur ef sleikja á sólskin út í eitt en vert er að rúlla einn rúnt eða svo um eyjuna. Hún er lítil og fljótfarin. Bílaleigur eru á flugvellinum og velflest hótel geta útvegað bílaleigubíla ef svo ber undir.

Til umhugsunar: Umferðin á eynni er ekkert sérstaklega slæm en það sama verður ekki sagt um ökumennina. Þeir eru hræðilegir og hafa skal varann á sér við keyrslu. Þá eru margir hér sem aka undir áhrifum og komast upp með það.

Söfn og sjónarspil

Í bæjunum sjálfum er fátt markvert að sjá eða upplifa nema þá djamm og djús á börum eða diskótekum. Í öllu falli er auðvelt að sjá það sem uppúr stendur á einum degi eða svo leigi fólk sér bílaleigubíl enda eyjan fljótfarin.

>> Es Vedra eyjan(La Isla Es Vedra) – Boðið er upp á bátsferðir að þessari eyju og öðrum minni í nágrenninu frá Íbiza bæ og reyndar víðar. Hún er falleg og merkileg að því leytinu til að sökum mikils magns málma í jarðvegi eyjunnar er afar mikið segulsvið í stórum radíus frá eynni. Svo mikið reyndar að aðeins tveir aðrir þekktir staðir á jörðunni búa yfir sterkara segulsviði.

>> Atlantis hellirinn (Cueva de Atlantis) – Heimamenn auglýsa þennan helli ekki á neinn hátt og mana ferðamenn á eynni til að finna hann. Er þessi aðeins aðgengilegur frá sjó en stendur við klettaströndina við Cala d´Hort. Þar er að finna málaða mynd af indverska guðinum Shiva og sækja hingað sérstaklega þeir trúuðu sem telja staðinn helgan.

>> Formentera (Formentera) – Systureyja Ibiza er Formentera en sú er fín í einn bátstúr nokkrar klukkustundir eða svo. Töluvert minni en Ibiza sjálf og ekki ýkja margt að sjá eða skoða en þó frábrugðin Ibiza að nokkru leyti og lausari almennt við ferðafólk og djammara.

>> Puig de Missa kirkjan (Puig de Missa) – Lítil kirkja og kirkjugarður fyrir ofan bæinn Santa Eulària. Kirkjan sjálf ekki ýkja forvitnileg en héðan er fínasta útsýni yfir bæinn og hluta eyjunnar.

>> Gamli bærinn (D´alt Vila) – Það er í Ibiza bæ sem sjá má einhverja heillegustu borgarveggi sem finnast í Evrópu. Það skapar fína umgjörð um gamla bæinn sjálfan sem er yndislegur ef frá er talinn gríðarlegur mannfjöldi hér öllum stundum.

>> Puig des Molins katakomburnar (Necropolis de Puig des Molines) – Einhverjar stærstu katakombur í Evrópu allri eru staðsettar í Ibiza bæ og eru alls 50 þúsund fermetrar að stærð. Upphaflega byggt af Fönixum og hér hvíla bein þrjú þúsund einstaklinga.

>> Bota vitinn (Faro de Bota foc) – Frá þessu vitahúsi er einhver besta útsýn á allri eynni langt út á haf.

>> Fornleifasafnið (Museo Arqueológico de Ibiza) – Í Ibiza bæ er að finna þetta ágæta safn um sögu og þróun Ibiza og Formentera.

Matur og mjöður

Eins og raunin er annars staðar þar sem ferðamenn flykkast að hvert sumar er hér ógrynni ódýrra en misgóðra veitingastaða. Skyndibitastaði er ennfremur að finna á stærstu stöðunum.

Margir betri veitingastaðirnir, en ekki endilega þeir dýrustu, er að finna á landsbyggðinni í smábæjum og jafnvel á gömlum sveitabýlum sem breytt hefur verið.

Hér eins og víðar er paella helsti réttur eyjaskeggja og slíkir réttir fást víðast hvar.

Verslun og viðskipti

Ibiza bær er sá eini þar sem finna má úrval almennilegra verslana en þó ekkert í líkingu við úrval í stærri borgum Spánar. Verðlag er lítt spennandi fyrir krónueigendur enda miðast verðlag almennt við ferðamenn en ekki heimamenn.

Svokallaðir hippamarkaðir eru vinsælir en þeir eru reknir af hópum hippa sem hér búa í kommúnum víða um eynna. Vinsælastur er Es Canar markaðurinn á austurströndinni en sá er eingöngu opinn á miðvikudögum. Annan slíkan, Las Dalías, er að finna í San Antonio um helgar.

Djamm og djúserí

Engum blöðum er um að fletta að hér er djamm í hávegum haft og næturlífið óvíða í heiminum meira en hér. Klúbbar hér eru á heimsmælikvarða og margir þeirra himinstórir geymar. Eyjan er líka svo lítil að tiltölulega auðvelt er að djamma í einum bæ og ganga til rekkju í öðrum þó ekki sé nú sérstaklega mælt með því Þess utan njóta þess afar margir að sofna bara á næstu strönd.

Til umhugsunar: Allir stóru klúbbarnir eru tiltölulega dýrir. Bæði er aðgöngugjald sem verður varla ódýrara en 4.000 krónur og getur hoppað upp í 12 þúsund þegar eitthvað sérstakt stendur til, en að auki kosta drykkir aukalega og eru dýrir. Blandaðir drykkir kosta vart undir tvö þúsund krónum og algengt verð fyrir bjórglas er 1.400 krónur.

Vinsælustu klúbbarnir eru:

Djamminu á Ibiza lýkur í raun aldrei en stuðið í klúbbunum fer að dvína uppúr klukkan fjögur á næturnar. Þá taka oft við götupartí þó lögregla hafi á síðari árum reynt að sporna við slíku.

Í viðbót við klúbbana eru fjölmargir aðrir barir í öllum helstu plássum.

Líf og limir

Hefðbundnir smáglæpir þrífast hér ágætlega enda fátt auðveldara en stela dóti af drukknu fólki og meirihluti unga fólksins hér verður afar ölvað þegar líða fer á kvöld og nætur.

Um tíma var samasemmerki milli klúbbastands hér og fíkniefnaneyslu en það hefur breyst mikið til batnaðar nú síðari ár. Þó er sára einfalt að verða sér úti um efni hér sé vilji fyrir hendi. Eðli málsins samkvæmt getur slíkt farið misjafnt niður í einstaklinga og er engan veginn mælt með slíku.

View Larger Map