Þ að er ekki allra að eyða nótt í húsbátum. Þeir vagga og velta sem eru til dæmis ekki kjöraðstæður þegar góða veislu skal halda. Sérstaklega ekki ef mikil er drykkjan. Þá getur og verið erfiðleikum bundið að panta pizzu.
Að gamni slepptu þá færist húsbátaleiga í vöxt afar víða í borgum heimsins og auðvitað þá eingöngu í þeim borgum sem sitja annaðhvort við haf, ár eða vötn. Leigubátarnir eru líka smám saman alls staðar að verða flottari og flottari. Eins og til dæmis húsbátar þeir sem nú eru til leigu í Berlín og þykja móðins mjög.
Húsbátar hafa lengi lónað á stöku stöðum við ánna Spree en þar hefur verið um heimili fólks að ræða og ekki til útleigu mikið.
Það er tiltölulega nýtilkomið að þar sé hægt að leigja húsbát í dag eða daga. Og húsbátur er reyndar ekki ýkja gott orð því þarna er nánast um lítið og gæjalegt einbýlishús að ræða fremur en húsbát í þeirri merkingu sem flestir hugsa sér.
Það er meðal annars fyrirtækið Nautal sem er að leigja fyrirtaks 60 fermetra húsbát sem liggur í litlu lóni, Rummelsburger See, á allvænum stað í borginni og í nokkurra skrefa fjarlægð frá Ostkreuz lestarstöðinni í Friedrichschain hverfinu. Vissulega ekki súper miðsvæðis en mikil ósköp verður Berlínardvöl í húsbát ógleymanlegt ævintýri í stað enn eins hótelsins. Húsbátnum fylgja líka hjól fyrir alla fjölskylduna svo fólk gæti komið stælt, brúnt og með húrrrandi rasssæri til baka með mun ítarlegri þekkingu á borginni en flestir 😉
Fararheill hefur prófað herlegheitin* og getum hundrað prósent mælt með þessum gistimáta.
*Við nutum umtalsverðs afsláttar í umræddu tilviki vegna þess að reka ferðavef.